Thursday, May 2, 2024
HomeErlentMeira um lögleiðingu MMA í New York

Meira um lögleiðingu MMA í New York

madison square gardenEins og við greindum frá fyrr í kvöld hefur MMA loksins verið lögleitt í New York ríki. Málið hefur tekið langan tíma en förum stuttlega yfir þessa erfiðu fæðingu.

New York var lengi vel eina ríki Bandaríkjanna sem bannaði keppnir í MMA. Þrátt fyrir bannið eru þar margir MMA klúbbar og neyðast bardagamenn frá New York til þess að keppa í öðrum ríkjum en í heimaríki sínu.

Það mun allt heyra sögunni til enda fer lagafrumvarpið (um að leyfa MMA í New York) nú til ríkisstjórans Andrew Cuomo sem hefur áður lýst því yfir að hann ætli að samþykkja lagafrumvarpið. Frumvarpið var samþykkt á þinginu og fékk 113 já og 25 nei.

Um tíma leit út fyrir að íþróttin yrði aldrei samþykkt í New York ríki. Íþróttin var fyrst bönnuð árið 1997 eftir gríðarlega neikvæða umfjöllun um íþróttina á tímum þegar regluverkið var talsvert frumstæðara.

Núverandi reglur (Unified Rules of MMA) tóku í gildi í New Jersey ríki árið 2001 og í Nevada ríki skömmu síðar. Núverandi eigendur UFC, Zuffa, LLC., keyptu bardagasamtökin árið 2001 og einblíndu á að hafa regluverkið sem skýrast til að geta gert íþróttina löglega í hverju ríki Bandaríkjanna. Þeir unnu með íþróttasamböndum fylkjanna til að koma á almennilegu regluverki.

UFC tókst að fá íþróttina lögleidda í öllum ríkjunum nema New York. Í sjö ár var lagafrumvarpið um lögleiðingu MMA í New York samþykkt af svo kallaðri efri deild löggjafarþingsins (e. state senate) en komst aldrei á „gólfið“ svo þingið gæti kosið um það.

Fyrrum þingmaðurinn Sheldon Silver var helsti andstæðingur frumvarpsins sem rekja má til verkalýðsbaráttu starfsmanna spilavíta í eigu Fertitta bræðaranna (sem eiga líka UFC). Nánar má lesa um þann slag hér. Silver reyndi ítrekað að koma í veg fyrir að frumvarpið færi fyrir atkvæðagreiðslu þrátt fyrir að stuðningurinn við frumvarpið virtist nægur.

Þegar Silver var fundinn sekur um spillingu sagði hann hins vegar af sér og er hann nú í fangelsi. Málið fékk því talsvert meiri hljómgrunn eftir að hann fór af þinginu.

UFC hefur á undanförnum árum reynt að pressa þingið til að taka frumvarpið fyrir. Má þar nefna herferðir í fjölmiðlum þar sem stórar MMA stjörnur eins og Chris Weidman, Frankie Edgar og Ronda Rousey koma fram og tala fyrir lögleiðingu íþróttarinnar í New York. Þá reyndi UFC að komast í gegnum lagaflækjur og bókaði Madison Square Garden þann 23. apríl til að setja pressu á þingið til að taka málið fyrir. Á sama tíma hélt UFC stóra viðburði í New Jersey.

Málið tók afskaplega langan tíma í dag þar sem andstæðingar frumvarpsins líktu MMA við þrælahald, barnaníð, klám og hengingar á almannafæri. Raddir þeirra voru háværar en í minnihluta. Sum rök andstæðinganna voru hreinlega fráleit.

Einn andstæðinganna sagði þetta vera (og við leyfum þessu að vera á ensku): „Two nearly naked, hot men rolling on another trying to dominate each other. And just in case you don’t know, that’s gay porn with a different ending.“

Angela Wozniak hafði áhyggjur af því að ekkert væri talað um mögulegar aðgerðir gegn barnaníð hjá MMA þjálfurum í frumvarpinu. Hún virtist ekki gera sér grein fyrir að MMA skólar eru nú þegar í New York og þó um hræðilegan glæp sé að ræða tengist barnaníð á engan hátt frumvarpinu.

Deborah Glick hafði miklar áhyggjur að lagafrumvarpið hefði í för með sér að unglingar gætu stofnað sérstaka bardagaklúbba og farið að berjast á götunni. Þá virtist hún ekki hafa þekkingu á íþróttinni enda sagði hún að engir hanskar væru notaðir og þarna væru menn að kýla berhentir í höfuð hvors annars.

Toppurinn var þó þegar hún vitnaði í Twitter aðgang þjálfarans Edmund Tarverdyan (þjálfari Rondu Rousey) og vandaði honum ekki kveðjurnar eftir Twitter samskipti þeirra. Það sem hún vissi hins vegar ekki var að Twitter notandinn er ekki þjálfarinn sjálfur heldur grín aðgangur.

Að sama skapi töluðu andstæðingarnir um að vandamál tengd fjárhættuspili gætu skotið upp kollinum en slík vandamál eru auðvitað þekkt alls staðar í heiminum og tengjast ekkert MMA frekar en öðrum íþróttum. Þá komu sterar til tals og voru andstæðingarnir eflaust ekkert að spá í steravandamálum í öðrum íþróttum (svo sem hafnabolta).

Stuðningsmenn frumvarpsins áttu ekki í miklum vandræðum með að svara fáranlegum mótrökum andstæðinganna. Þeir bentu m.a. á að allt sem er leyfilegt í MMA sé gert í öðrum bardagaíþróttum sem eru nú þegar leyfðar í New York eins og box, sparkbox, tækvondó, karate, brasilískt jiu-jitsu og ólympísk glíma.

Þó MMA hefði verið áfram bannað í New York yrði það ekkert sem myndi stoppa fólk í að fara og keppa í MMA í öðrum ríkjum ef fólk hefur á annað borð áhuga á því. Það að leyfa MMA keppnir í New York geri ekkert nema að gera þetta öruggara, koma í veg fyrir neðanjarðar keppnir þar sem eftirlit er oft ábótavant og koma á almennu regluverki.

Þetta mun að auki hafa góð áhrif á efnahaginn í New York enda hefur UFC lofað að koma fjórum sinnum á ári á næstu þremur árum. Búist er við að fyrsti UFC-viðburðurinn í New York fari fram í nóvember í Madison Square Garden. Það má búast við að Chris Weidman, Jon Jones eða Frankie Edgar verði í aðalbardaganum þar.

chris weidman
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular