0

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 231

Eitt stærsta bardagakvöld ársins fer fram á morgun í Toronto. Þar eru tveir titilbardagar á dagskrá og svo að sjálfsögðu mun okkar maður stíga á svið og berjast eftir langa fjarveru. Hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á bardagakvöldið.

Ögurstund Gunnars

Hér á landi hafa allir fylgst náið með ferli Gunnars Nelson. Hann hefur átt frábæra sigra í UFC og nokkur gremjuleg töp. Þrátt fyrir ósanngjarna niðurstöðu í hans síðasta bardaga er sá bardagi álitinn slæmt tap fyrir Gunnar og sigur í þessum bardaga því þeim mun mikilvægari. Meiðsli og töp á mikilvægum tímapunktum og svo endalaust vesen að fá réttu bardagana hefur hægt á okkar manni og nú þarf bara allt að ganga upp! Alex Oliviera, andstæðingurinn að þessu sinni, er ekki síður hættulegur en sá síðasti svo Gunnar þarf að eiga frábæra frammistöðu. Með sigri verður það sennilega hans stærsti sigur á ferlinum og það viljum við sjá. Við höfum fulla trú á okkar manni en það er ljóst að þetta verður hrikalega spennandi.

Gunnar Nelson

Risabardagi fjaðurvigt

Viðureign Max Holloway og Brian Ortega um titilinn í fjaðurvigt er líklegur til að örva munnvatnskirtla MMA aðdáenda. Holloway hefur unnið 12 bardaga í röð og Ortega hefur aldrei tapað í 15 bardögum. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig stílar þessara tveggja spila saman. Báðir eru alhliðagóðir bardagamenn en sérgrein Ortega er Jiu-Jitsu en hann er þekktur fyrir uppgjafartök sem lenda á mönnum eins og rothögg. Holloway er með stórt vopnabúr standandi, harða höku, frábæra felluvörn og endalaust þol til að hakka menn niður hægt og rólega. José Aldo átti engin svör gegn leiftursókn Holloway. Hvað gerir Ortega?

Einn besti kvennabardagi allra tíma

Þær Valentina Shevchenko og Joanna Jedrzejczyk mætast um lausan fluguvigtartitil kvenna. Þetta eru einfaldlega tvær af þeim bestu í UFC í dag og verður geggjað að sjá þær kljást. Valentina er að koma niður úr bantamvigt þar sem hún tapaði afar naumlega titilbardaga gegn Amöndu Nunes í fyrra. Valentina leit mjög vel út í frumraun sinni í fluguvigtinni og leit vel út á vigtinni í morgun. Joanna er hins vegar að koma upp í fluguvigt eftir að hafa alla tíð barist í strávigt í UFC. Joanna segist vera alsæl með undirbúninginn enda ekki í neinum erfiðleikum með niðurskurðinn í þetta sinn. Joanna hefur áður verið í basli með að ná 115 pundunum en í þetta sinn var niðurskurðurinn bara þægilegur. Báðar eru þær virkilega færar tæknilega séð. Eins og margoft hefur komið fram hafa þær þrisvar áður mæst í Muay Thai þar sem Valentina vann í öll skiptin. Þó 10 ár séu liðin frá því þær mættust síðast gæti það gefið ágætis vísbendingu um bardagann á morgun.

Stórir strákar sveifla

Þeir Jimi Manuwa og Thiago Santos mætast í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins. Báðir vilja þeir standa og skiptast á höggum og gæti þetta orðið skemmtileg flugeldasýning. 15 rothögg hjá Manuwa og 13 hjá Santos segir sína sögu. Santos er með 9 rothögg í UFC og er að saxa á met Vitor Belfort yfir flest rothögg í sögu UFC (12 talsins). Þetta verður sennilega mjög skemmtilegur bardagi sem keyrir kvöldið í gang.

Ekki gleyma

Það eru fullt af góðum bardögum á kvöldinu sem fer kannski ekki mikið fyrir. Claudia Gadelha mætir Ninu Ansaroff en Ansaroff hefur unnið þrjá bardaga í röð og gæti komist nálægt titilbardaga með sigri. Gadelha hefur verið ein af þeim bestu í strávigtinni frá upphafi og er ansi erfitt að komast í gegnum hana. Olivier Aubin-Mercier mætir Gilbert Burns og eru þar á ferð tveir frábærir glímumenn. Katlyn Chookagian og Jessica Eye mætast í mikilvægum bardaga í fluguvigtinni en sigurvegarinn þar gæti verið komin með titilbardaga. Chad Laprise og Dhiego Lima mætast en báðir eru skemmtilegir bardagamenn. Í raun er ótrúlegur fjöldi af góðum bardögum á þessu kvöldi og hvetjum við áhorfendur til að horfa alveg frá byrjun.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 11 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Óskar Örn Árnason
Latest posts by Óskar Örn Árnason (see all)

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.