Þá er það árlegur óskalisti. Í staðinn fyrir topp 10 lista yfir óskabardaga tökum við einn óskabardaga í hverjum þyngdarflokki fyrir sig og förum lauslega yfir stöðuna í hverjum flokki fyrir sig.
Við ætlum ekki að tala um Khabib og GSP einfaldlega af því að þeir eru hættir. Við ætlum líka að halda okkur við UFC en verð þó að nefna að engum myndi leiðast að sjá Yoel Romero gegn Anthony Johnson í Bellator. Reynum líka að halda okkur innan þyngdarflokkanna eins og mögulegt er.
Strávigt kvenna – Weili Zhang gegn Rose Namajunas
Besti bardagi síðasta árs fór fram í strávigt kvenna á milli meistarans Weili Zhang og Joanna Jedrzejczyk. Rose Namajunas er númer eitt á styrkleikalista í þyngdarflokknum, fyrrverandi meistari og hrikalega skemmtileg bardagakona. Hún hreinlega verður að berjast við Zhang.
Fluguvigt kvenna – Valentina Shevchenko gegn Jessica Andrade
Það vita allir vandamálið í fluguvigt ef vandamál má kalla, meistarinn er of góður. Ég veit að margir myndu vilja sjá súperbardaga hér á móti Weili Zhang en á meðan báðar hafa verðugan áskoranda í efsta sæti styrkleikalistans er tímapunkturinn ekki réttur – kannski síðar á árinu. Valentina Shevchenko er búin að verja beltið fjórum sinnum sem er gott en ekkert met í UFC. Jessica Andrade er fyrrverandi meistari í lægri þyngdarflokki og á skilið að fá titilbardaga.
Fluguvigt – Deiveson Figueiredo gegn Brandon Moreno 2
Fluguvigt fór á flug á síðasta ári en meistarinn þar, Deiveson Figueiredo, var valinn bardagamaður ársins hjá flestum MMA miðlum. Næst á dagskrá verður að vera endurat á móti Brandon Moreno – það er bókstaflega ekkert annað sem kemur til greina. Bardagi þeirra í desember var sennilega annar besti bardagi ársins og hann endaði í jafnefli. Í þessum þyngdarflokki er nánast ekkert annað sem hægt er að óska sér. Demetrious Johnson og Henry Cejudo geta ekki bjargað okkur og næstu menn á lista eiga ekki skilið að hoppa yfir Moreno á þessum tímapunkti.
Bantamvigt kvenna – Holly Holm gegn Germaine de Randamie 2
Amanda Nunes er með titilvörn í fjaðurvigt kvenna á dagskrá í mars á móti Megan Anderson. Sennilega berst hún einu sinni í viðbót á árinu og þá í bantamvigt. Irene Aldana hefði verið í þessum bardaga ef hún hefði unnið Holly Holm í hennar síðasta bardaga. Svipað með Aspen Ladd en hún var rotuð af Germaine de Randamie á 16 sekúndum árið 2019 og hefur bara unnið einu sinni síðan. Nunes er búin að rústa Holly Holm og Germaine de Randamie svo endurat á móti þeim er ekkert svo spennandi á þessum tímapunkti. Það er lágmark að láta þær berjast aftur fyrst en fyrri bardagi þeirra, árið 2017, var jafn og nokkuð góður en báðar virðast í fínu formi núna.
Bantamvigt – T.J. Dillashaw gegn Petr Yan
Petr Yan átti að berjast við Aljamain Sterling í desember en þeim bardaga var frestað til 2021. Sá bardagi er sturlaður en bantamvigtin hefur aldrei verið betri. Cory Sandhagen á stefnumót við Frankie Edgar í febrúar og Marlon Moraes er dottinn úr toppbaráttunni eftir slæmt rothögg gegn Rob Font í desember. T.J. Dillashaw lýkur tveggja ára banni sínu nú í janúar eftir fall á lyfjaprófi 2019 og hann fær væntanlegan stóran bardaga í endurkomunni. Dillashaw verður 35 ára gamall í febrúar og verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks. Ef Yan nær að verja beltið sitt og Dillashaw vinnur sinn næsta bardaga myndi titilbardagi milli Yan og Dillashaw vera risastórt fyrir flokkinn.
Fjaðurvigt – Zabit Magomedsharipov gegn Alexander Volkanovski eða Brian Ortega
Yair Rodriguez er í banni og Max Holloway berst við Calvin Kattar í mars. Brian Ortega er næstur í meistarann Alexander Volkanovski en eftir það verður Zabit hreinlega að fá titilbardaga. Hann er búinn að vinna alla sex bardagana sína í UFC og hefur ekki tapað síðan 2013 en það var hans eina tap á ferlinum. Gæti 2021 verið ár Zabit?
Léttvigt – Conor McGregor gegn Justin Gaethje
Khabib Nurmagomedov er hættur en heldur enn á beltinu. Conor McGregor og Dustin Poirier berjast í janúar og Dan Hooker býður Michael Chandler velkominn í UFC fljótlega. Charles Oliveira á skilið að fá titilbardaga en bardaginn sem mig langar mest að sjá er Conor gegn Justin Gaethje. Skítt með titla, þessi bardagi yrði ruglaður og ég vona að við fáum að sjá hann.
Veltivigt – Colby Covington gegn Khamzat Chimaev
Kamaru Usman berst við Gilbert Burns í febrúar. Leon Edwards virðst vera í endalausu limbói og nær bara ekki að koma sér í búrið. Sama mætti segja um okkar mann. Colby Covington er alltaf skemmtilegur en líklega berst hann við Jorge Masvidal fljótlega, þó hefur það ekki verið staðfest. Nýja stjarnan á svæðinu er auðvitað Khamzat Chimaev og allir vilja vita hversu góður hann er. Það væri geðveikt að sjá hann á móti Colby, nú eða Masvidal ef hann vinnur. Það má leyfa sér að dreyma.
Millivigt – Robert Whittaker gegn Kevin Holland
Meistarinn í millivigt berst næst í léttþungavigt svo börnin þurfa að leika sér á meðan pabbi er ekki heima. Robert Whittaker er ennþá á toppnum í þyngdarflokknum og hefur litið mjög vel út undanfarið. Paulo Costa væri góður valkostur en hann er nýlega búinn að tapa illa í titilbardaga svo ég myndi helst vilja sjá nýstirnið og nýliða ársins í fyrra, Kevin Holland, fá tækifærið gegn Whittaker. Holland þarf þó fyrst að vinna Derek Brunson í janúar.
Léttþungavigt – Israel Adesanya gegn Jon Jones
Jan Blachowicz berst við Israel Adesanya í mars. Sigri Adesanya þann bardaga væri ferlega freistandi að lokka Jon Jones í hálfgerðan súperbardaga. Jones á að vera kominn upp í þungavigt en hefur ekki enn barist þar. Ég myndi vilja sjá hann fresta þeim áformum, sjá hvernig Adesanya gengur í mars og koma svo aftur í léttþungavigt. Bara einn bardaga í viðbót.
Þungavigt – Francis Ngannou gegn Ciryl Gane
Meistarinn Stipe Miocic ætti að berast við Francis Ngannou í annað sinn í mars. Það er frábær bardagi en nýtt nafn er farið að láta á sér bera í þungavigt sem ég vil sjá meira af. Ciryl Gane gæti verið framtíðar meistari. Hann leit ferlega vel út gegn Junior dos Santos í desember og nú vil ég sjá hann á mót þeim bestu. Sama hvernig fer á milli Miocic og Ngannou myndi ég vilja sjá Gane fara í afríska tröllið á árinu.