0

Spá MMA Frétta fyrir UFC 214

UFC 214 fer fram í kvöld og er þetta einfaldlega besta bardagakvöld ársins. Líkt og fyrir öll stóru bardagakvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í léttþungavigt: Jon Jones gegn Daniel Cormier

Pétur Marinó Jónsson: Það er bara komið að þessu! Þeir mætast í kvöld nema annar hvor þeirra fái einhver Nunes veikindi í dag. Vonum ekki. Fyrri bardaginn var nokkuð jafn en Jones tók samt fjórar lotur af fimm og ég held að þetta verði nokkuð svipað og síðast. Jones á eftir að sparka og kýla í Cormier alla leið úti með sína löngu hendur og fætur og halda honum frá sér. Cormier gekk vel í vasanum og með sitt dirty boxing en Jones fattaði það þegar leið á bardagann og kom í veg fyrir það. Ég held að það sem eigi eftir að virka vel fyrir Cormier í kvöld verði stöðvað af Jones þegar líður á bardagann þar sem hann er svo snjall í búrinu.

Síðast fjaraði undan hjá Cormier og hann var orðinn verulega þreyttur í 4. og 5. lotu. Ég held að hann eigi eftir að ráða betur við fimm lotu bardagann núna enda með meiri reynslu sjálfur í fimm lotu bardögum. Ég vona bara að hann falli ekki í þá gryfju að reyna endalaust að taka Jones niður til að sanna eitthvað því það gæti tekið mikla orku úr honum. Þó Cormier sé betri pjúra glímumaður er Jones betri MMA wrestler og ég sé Jones fyrir mér ná Cormier niður allavegna einu sinni.

Það sem vinnur hins vegar með Cormier er sú staðreynd að Jones leit ekkert sérstaklega vel út gegn Ovince St. Preux í apríl í fyrra. Verði hann jafn ryðgaður og þá á Cormier mun meiri möguleika. Ég held þó að Jones viti bara nákvæmlega hvernig á að vinna Cormier og viti hvað hann þarf að gera til þess.

Þetta verður engin klassík en nokkuð jafn bardagi þar sem báðir munu eiga sín augnablik en Jones á eftir að eiga fleiri augnablik. Jon Jones vinnur eftir dómaraákvörðun.

Brynjar Hafsteins: Jones er líklegri samkvæmt veðbönkum. Hann hefur aldrei tapað og sigrað Cormier áður. Ég er gríðarlega spenntur að sjá hvort við fáum að sjá gamla Jones aftur því seinast sáum við útbrunna útgáfu af honum gegn OSP. Jones er búin að vera rosalega lengi frá búrinu og getur það haft einhver áhrif en ég vil ennþá trúa á Jones. Hann er betri alhliða bardagamaður að mínu mati. Ef Cormier getur ekki wrestlað hann eins og í fyrri bardaganum þá er Jones með lengdina, þolið og viljan til þess að sigra. Jones sigrar eftir klofinn dómaraúrskurð.

Guttormur Árni Ársælsson: Cormier er í miklu uppáhaldi hjá mér; grjótharður, mikill keppnismaður og virkar svaka likeable. Hefur farið í gegnum alls konar hræðilega hluti en er samt algjör sigurvegari. Aðeins tapað einu sinni á ferlinum og það var gegn Jones. Á móti honum stendur síðan algjör andstæða; maður sem fékk margt upp í hendurnar, þarf að sögn ekki að leggja neitt voða hart að sér þar sem hann er bara natural og pikkar allt upp strax. Ég held að úrslit bardagans muni ráðast af því hvaða Jones mætir inn í búrið. Ef Cormier tekst að vinna gæti það orðið uppáhalds MMA mómentið mitt á þessu ári. Læt hjartað ráða og tippa á Cormier slamm og TKO í annarri.

Arnþór Daði Guðmundsson: Jæja, þá er maður enn eina ferðina kominn í þá stöðu að leyfa sér að hlakka til að sjá þennan bardaga og maður er búinn að eyða síðustu dögum í að krossleggja fingur. Jones er íþróttamaður frá guðs náð og ég hef enga trú á því að hann eigi eftir að finna of mikið fyrir fjarverunni úr búrinu. DC er hins vegar orðinn 38 ára gamall og á ekki mikið eftir í fremstu röð og á erfitt með niðurskurðinn þó svo að þessi hafi verið tiltölulega auðveldur. Ég hef frá byrjun haldið mikið upp á DC og vona innilega að hann fái þessa sálarró sem hann þráir með því að sigra Jones. DC nær að gera það sem hann náði ekki í fyrri bardaga þeirra og heldur Jones niðri og sigrar með því. DC sigrar eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Ég var á tímabili hræddur um að þessi bardagi yrði aldrei að veruleika. Meira að segja núna bíð ég eftir einhverju klúðri frá Jon Jones sem setur allt aftur á byrjunarreit. En, þvílík snilld, þetta virðist ætla að gerast. Hvernig mun Jones líta út eftir fjarveruna? Er DC betri en hann var síðast eftir meiri reynslu og með sjálfsöryggi meistara? Hvor lærði meira af fyrsta bardaganum? Þetta eru spurningarnar sem við bíðum eftir svari við. Ég held sjálfur að Jones komi sterkur til baka og sigri á mjög sannfærandi hátt. Það verður erfitt að klára Cormier svo ég segi að Jones taki þetta á stigum.

Daniel Cormier: Guttormur, Arnþór
Jon Jones: Pétur, Brynjar, Óskar

Titilbardagi í veltivigt: Tyron Woodley gegn Demian Maia

Pétur Marinó Jónsson: Loksins fær glímuhetjan Maia titilbardaga. Einn sá vinsælasti gegn einum óvinsælasta meistara síðari ára. Tuðon Woodley er samt búinn að vera ágætur undanfarið og lítið talað um einhverja peningabardaga. Hann er bara að einbeita sér að Maia sem er skemmtilegt. Þetta verður erfitt fyrir Maia, á því leikur enginn vafi. Woodley er drullu góður glímumaður, nautsterkur og hrikalega erfitt að taka hann niður. En ég held að Maia þurfi ekkert endilega að taka hann niður til að komast í góða stöðu. Ég gæti alveg séð hann fyrir mér ná bakinu á honum standandi og vera límdur á hann eins og bakpoki. Ég gæti líka séð hann draga Woodley í smá half-guard leik í skamma stund og enda þannig ofan á.

Woodley mun samt koma vel undirbúinn til leiks og hefur verið að undirbúa sig fyrir sinn næsta bardaga síðan í apríl á meðan Maia fékk bara fjórar vikur. Hann er alltaf með þessa hrikalegu sprengju sem er svo hættuleg og þá sérstaklega í 1. lotu. Maia á í hættu á að hlaupa inn í svona bombu þegar hann er að leita að fellunni og ég óttast það. Heilinn segir Woodley eftir rothögg snemma en hjartað segir Maia eftir rear naked choke í 3. lotu.

Brynjar Hafsteins: Maia er besti BJJ bardagamaðurinn í UFC. Hann lætur aðra frábæra svartbeltinga líta út eins og búðinga. Ef hann nær Woodley niður þá er líklegt að við fáum að sjá nýjan veltivigtarkóng en Woodley er með frábæra felluvörn. Yfir 90% og hann er gríðarlega sterkur og með lágan þyngdarpunkt. Woodley með TKO í 3. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Demian Maia er einn af mínum uppáhalds MMA keppendum allra tíma. Það vita allir hvað hann ætlar sér en enginn getur stöðvað hann. Honum virðist líka vera sama hvernig hann kemur bardaganum í gólfið og bara púllar guard ef það þarf til. Ég held að Woodley komi með snjallt gameplan inn í þennan bardaga en eyði of miklum tíma með bakið í búrið sem Maia mun nýta sér. Við sjáum nýjan meistara á laugardaginn, Maia með uppgjafartak í þriðju.

Arnþór Daði Guðmundsson: Elsku Maia er loksins að fá það sem hann átti skilið fyrir þremur bardögum síðan og það eftir bardaga sem maður var handviss um að UFC væri að láta hann fá til að hann tapi. En hér er komið að því og áhugavert að rýna í stöðuna. Maia langar að gera bara það sem hann hefur verið að gera hingað til og enginn hefur getað komið í veg fyrir; taka þig niður og verða mennskur bakpoki. Hins vegar er Woodley með góða felluvörn, góður wrestler og mikinn sprengikraft og nýtir sér það til að komast upp aftur. Hjartað segir Maia, en hugurinn segir Woodley. Woodley sigrar eftir TKO í 2. lotu.

Óskar Örn Árnason: Það er ekki hægt annað en að samgleðjast Maia yfir á fá loksins þennan bardaga. Flestir hallast að Woodley vegna góðrar fellluvarnar, höggþunga og snerpu og það er ekki ólíklegt að það muni skila honum sigri. Ég ætla hins vegar að taka sénsinn á Maia. Ég ætla að segja að hann nái að draga Woodley niður í BJJ hyldýpi og drekkja honum þar með rear-naked choke í annarri lotu.

Tyron Woodley: Brynjar, Arnþór
Demian Maia: Pétur, Guttormur, Óskar

Titilbardagi í fjaðurvigt kvenna: Cris ‘Cyborg’ Justino gegn Tonya Evinger

Pétur Marinó Jónsson: Frábært tækifæri fyrir Evinger. Skemmtilegur karakter sem á skilið að vera í UFC. Hún er ansi öflug bardagakona en ég sé ekki hvernig hún eigi að vinna Cyborg í kvöld. Tonya Evinger er öflug í bantamvigtinni (þyngdarflokki neðar) en tel hana samt ekki vera meðal topp 5 bestu þar. Hún er með mjög góðar fellur en Cyborg er með góða felluvörn og hefur ekki verið tekin niður í 9 ár. Cyborg er líka talsvert stærri, afar líkamlega sterk og á eftir að refsa Evinger með þungum höggum í hvert sinn sem Evinger lokar fjarlægðinni. Evinger nær samt einni fellu en Cyborg stendur fljótt upp og klárar þetta á endanum í 2. lotu með tæknilegu rothöggi.

Brynjar Hafsteins: Cyborg vinnur þennan bardaga. Hún er mun betri og er að keppa gegn Evinger sem hefur aldrei keppt í þessum þyngdarflokki. Fær loksins titil sem hún ætti að vera löngu komin með. Cyborg með TKO í 1. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: -1100 favorite samkvæmt veðbönkum. Ég held að það sé engin kona í fjaðurvigtinni sem getur hangið með henni. Cyborg TKO í fyrstu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Það vill ENGINN vera læstur inni í búri með Cyborg og það er full ástæða fyrir því. Hún virðist vera óstöðvandi og enginn á roð í hana. Ég sé bara varla þær aðstæður koma upp að Evinger nái að sigra Cyborg. Cyborg sigrar eftir TKO í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þegar loksins kemur að því að Cyborg fái UFC belti væri svo týpískt ef eitthvað myndi klikka. MMA guðirnir elska að koma fólki á óvart og Evinger er alvöru andstæðingur þó hún sé ekki mikið þekkt. Hún er hörð og tæknilega seig á gólfinu. Hún gæti komið á óvart eins ólíklegt og það kann að virðast. Ég ætla þó ekki að spá henni sigri en segi að hún komist þó í aðra lotu þar sem Cyborg sigrar á tæknilegu rothöggi.

Cyborg: Pétur, Brynjar, Guttormur, Arnþór, Óskar
Tonya Evinger: ..

Veltivigt:  Robbie Lawler gegn Donald Cerrone

Pétur Marinó Jónsson: Geðveikur bardagi! Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu öðruvísi en að segja að þetta sé svo sturlaður bardagi að orð fá því ekki lýst. Robbie Lawler hefur ekki barist síðan hann var rotaður af Tyron Woodley fyrir ári síðan og eru nokkur spurningamerki um ástandið á honum. Það var hans fyrsta rothögg síðan 2004 en hann hefur tekið mikinn skaða í bardögum sínum gegn Carlos Condit, Johny Hendricks og Rory MacDonald. Hvenær verður þetta það mikið að Lawler verður ekki lengur þessi topp bardagamaður sem var meistari? Er hann kannski búinn núna? Svo var Lawler líka að skipta um lið en hann er ekki lengur hjá American Top Team og er þess í stað kominn til Combat Club hjá Henry Hooft.

Donald Cerrone var líka rotaður í sínum síðasta bardaga en fram að því hafði hann aldrei verið betri. Hann kemur líka inn í þennan bardaga með nokkur spurningamerki á bakinu. Cerrone var rotaður síðast en það var í fyrsta sinn á ferlinum sem slökkt var svona á honum. Þeir Cerrone og Lawler áttu að mætast á UFC 213 þann 8. júlí en Cerrone var með blóðsýkingu og rifinn nára. Bardaganum var frestað en Dana White sagði á sínum tíma að Cerrone ætti sennilega ekki að berjast á UFC 214 en hér erum við. Af hverju er hann þá að berjast? Af því hann er Donald Cerrone. Þetta verður geggjaður bardagi, hvorugur gefur ekkert eftir en Lawler tekur þetta eftir dómaraákvörðun.

Brynjar Hafsteins: Næst besti bardaginn á kvöldinu en venjulega væri þetta langbesti bardaginn. Þessi er algjör B.O.B.A. Þeir eru báðir með kraft en Cerrone er með mun betri spörk og betra clinch. Cerrone sigrar með rothöggi í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég held því miður að Lawler hafi verið í of mörgum stríðum og Cerrone er ekkert sérstakt matchup fyrir hann. Þetta verður skemmtilegur bardagi en Cerrone sigrar eftir dómaraákvörðun.

Arnþór Daði Guðmundsson: Draumabardagi margra og virkilega spennandi á blaði. Báðir eru í uppáhaldi flestra áhugamanna um MMA og hafa beðið lengi eftir bardaganum enda hefur hann frestast tvisvar. Lawler hefur ekki barist síðan hann var rotaður af Woodley og vildi taka sér góða pásu. Cowboy var í þeirri stöðu að vera á fleygiferð upp styrkleikalistann í veltivigtinni, bara til að vera stöðvaður af Masvidal. Cowboy hefur aldrei verið með afburðagóða höku og mér finnst bara líklegra ef eitthvað er að Lawler nái að landa þessu eina höggi sem þarf. Þó svo að Cowboy sé stærri, með betri spörk og betri í gólfinu þá mun Lawler sigra með KO í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Ég trúi varla að þessi bardagi sé settur inn sem bara bónus á þetta kvöld. Þetta hefði hæglega getað verið main event þar sem þessir menn þurfa engan titil til að stíga í sviðsljósið. Þetta ætti að verða stríð sem þýðir örugglega að Cerrone nær fellu snemma og klárar Lawler með uppgjafartaki. Ég ætla að skjóta á að það verði raunin í fyrstu lotu.

Robbie Lawler: Pétur, Arnþór
Donald Cerrone: Brynjar, Guttormur, Óskar

Léttþungavigt: Jimi Manuwa gegn Volkan Oezdemir

Pétur Marinó Jónsson: Magnað að Volkan sé kominn svona hátt í UFC eftir aðeins tvo bardaga. Það væri hreinlega lygilegt ef hann myndi vinna Manuwa líka og væri reyndar gaman að sjá svona óvænt úrslit. Ég hef samt alltaf haft mjög gaman af Manuwa og held hann klári þetta bara í 2. lotu. Ég er bjartsýnismaður og held að þetta verði upphafið að geggjuðu bardagakvöldi. Rothögg í 2. lotu hjá Manuwa.

Brynjar Hafsteins: Bretinn mun rota Oezdemir í fyrstu lotu og biðja um sigurvegaran úr bardaga Jones gegn Cormier. Hann er með svakalegan kraft í höndunum og mjög crisp vinstri krók. Boxið hans er mjög fallegt og virðist hann alltaf klára minni bardagamenn en þegar hann fer hærra upp listann þá klúðrar hann því. Manuwa með rothögg í 1. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta er búið að vera ævintýralegt stökk hjá Oezdemir; frumraun í UFC fyrir fimm mánuðum síðan og er núna í toppslag í léttþungavigtinni. Ég spái því hins vegar að ævintýrið endi hér. Það verður one punch, bruv frá Manuwa sem ákvarðar þennan bardaga. Rothögg í fyrstu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Manuwa sér ekkert nema titilbardaga og þarf bara að komast í gegnum Oezdemir. Það er hins vegar meira en að segja það en báðir geta rotað hvern sem er með einu vel staðsettu höggi. Ég set hins vegar minn pening á Manuwa en mér finnst hann bara eitthvað töff, Breti og brawler.
Manuwa sigrar með KO í 2 lotu.

Óskar Örn Árnason: Manuwa á að vinna en ég hef á tilfinningunni að Oezdemir komi á óvart, það liggur eitthvað í loftinu. Hann rotar Manuwa í fyrstu lotu í skemmtilegum bardaga.

Jimi Manuwa: Pétur, Brynjar, Guttormur, Arnþór
Volkan Oezdemir: Óskar

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.