spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Haraldur Dean Nelson (UFC 196)

Spámaður helgarinnar: Haraldur Dean Nelson (UFC 196)

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Spámaður helgarinnar fyrir UFC 196 er Haraldur Dean Nelson. Haraldur er faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson og einnig framkvæmdastjóri Mjölnis.

UFC 196 fer fram á laugardaginn og má búast við frábærri skemmtun. Haraldur er auðvitað mikill MMA aðdáandi og hefur fylgst með íþróttinni í langan tíma. Gefum honum orðið.

Brandon Thatch

Veltivigt: Brandon Thatch gegn Siyar Bahadurzada

Ég ætla að stelast til að byrja á aðalbardaga prelims en eins og margir vita er sá bardagi algjörlega ígildi main card bardaga. Það er skemmtileg tilviljun að síðasti sigur hjá þeim báðum var gegn Paulo Thiago þó hálft annað ár hafi verið milli bardaganna. Síðan hafa báðir tapað tveimur bardögum í röð. Siyar keppti síðast árið 2013 en Brandon þegar hann tapaði fyrir Gunnari á UFC 189 í júlí í fyrra. Það er því mikið undir því ekki er ólíklegt að sá sem tapar missi UFC samninginn sinn.

Báðir eru standup fighterar sem oft hafa sigrað með rothöggum. Þetta verður því líklega standup stríð og ég held að Brandon Thatch verði of sterkur fyrir Siyar. Brandon er einfaldlega betri striker, með fjölbreyttara vopnabúr. Hann er með lengri faðm en ég held þó að styrkleiki hans í clinchinu gæti ráðið úrslitum hér. Hann þarf þó að vara sig á af sterkri hægri hjá Siyar sem getur rotað hvern sem er. Ég held þó að Brandon klári þetta með TKO í annarri lotu.

Bantamvigt kvenna: Amanda Nunes vs. Valentina Shevchenko

Verð að játa að ég þekki ekki vel til Valentinu en sá hana samt berjast við Söru Kaufman í desember þar sem hún sigraði eftir klofinn dómaraúrskurð. Mér fannst hún standa sig vel þar. Hún er góður striker með sterkt clinch og fín spörk en ég held þó að Amanda sigri þennan bardaga. Hún er einfaldlega með allan pakkann og hér held ég að glímukunnáttan ráði úrslitum. Valentina er ekki hrædd við að clincha en það gæti orðið henni að falli hér. Amanda mun taka hana niður og sigra með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

Léttþungavigt: Corey Anderson gegn Tom Lawlor

Þetta gæti orðið all svakalega jafn bardagi. Corey er þó sennilega sterkari wrestler og ég held það spili stóra rullu hér og ráði sennilega úrslitum. Ekki nema Tom komi með eitt af sínum eitruðu gagnhöggum og roti Corey. Það ætti heldur enginn að vanmeta Tom í gólfinu, hann er ekki síðri en Corey þar, en ég held einfaldlega að Corey verði of sterkur fyrir hann og sigri á dómaraúrskurði.

ilir latifi
Ilir Latifi. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Léttþungavigt: Gian Villante gegn Ilir Latifi

Ilir vinur minn sigrar þennan bardaga að mínu mati. Eini sjensinn fyrir Gian er að lenda óvæntu rothöggi á hann eins og Jan Blachowicz gerði í Stokkhólmi. Ég hef samt ekki trú á því. Þó báðir séu góðir wrestlerar er Gian er bara alls ekki á pari við Ilir. Hans möguleikar felast í að halda þessu standandi en ég held að sprengikraftur Ilir verði of mikill fyrir Gian og Ilir klári hann tiltölulega snemma. Ég spái því að sænski vinur okkar taki Gian niður strax í fyrstu lotu og klári bardagann með TKO.

Titilbardagi í bantamvigt kvenna: Holly Holm gegn Miesha Tate

Frábært titilbardagi en Holly Holm gerði auðvitað hið „ómögulega“ þegar hún rotaði Rondu í nóvember og heimurinn stóð á öndinni. Þó ég viti að nokkurn veginn allir spái Holly sigri ætla ég að spá því að Miesha komi á óvart. Það er alveg ljóst að Miesha verður að reyna að króa Holly af og koma henni utan í búrið. Það er hins vegar ekki auðvelt verk eins og Ronda komst að en ég held að Miesha sé bara mun betri í að „skera hringinn“ en Ronda. Það verður lykillinn að sigri hér ásamt því að ógna standandi líka. Auðvitað er Holly betri striker en hún mun þó ekkert ganga yfir Miesha sem ég held að þröngvi Holly að búrinu og nái fellu þar. Síðan mun hún þreyta Holly í gólfinu og ég ætla að spá Miesha sigri á uppgjafartaki í þriðju lotu.

conor mcgregor
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Veltivigt: Conor McGregor gegn Nate Diaz

Þá er það lokabardagi kvöldsins og vá hvað ég er spenntur fyrir þessum bardaga! Það liggur við að ég sé spenntari fyrir honum heldur en titilbardaganum sem átti að vera gegn Rafael dos Anjos. Conor skutlar sér upp í veltivigtina og þarf því ekki að skera mikið fyrir þennan bardaga, reyndar lítið sem ekki neitt. Þetta er líka held ég í fyrsta sinn sem Conor mætir einhverjum í UFC með lengri faðm en hann. Það mun þó ekki breyta miklu hér því boxið hjá Nate er bara alls ekki á sama level og hjá Conor.

Eini möguleikinn fyrir Nate að mínu mati er að draga Conor í jörðina og það verður ekki auðvelt. Auk þessu gæti Nate hæglega dottið í þá gryfju að standa og skiptast á höggum eins og hann gerir oft, þó hann geti vel dansað líka. Ef Nate gerir það gegn Conor þá verður þetta stutt gaman hjá honum. Hann þarf að vera hreyfanlegur og reyna að skjóta inn í fellu. Conor þarf auðvitað líka að vera hreyfanlegur, sem hann er alltaf, dansa í kringum Nate og varast fellurnar hans. Og það mun hann gera. Ég held þó að þetta verði lengri bardagi en sá síðasti hjá Conor, enda gæti hann nú varla orðið styttri! Þeir gætu líka hæglega skipst meira á svívirðingum en höggum. Í annarri lotu mun Conor hins vegar byrja að negla Nate og ég spái því að Conor sigri á TKO/KO í annarri eða þriðju lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular