Monday, May 27, 2024
HomeErlentStaðan: Léttþungavigt (205 pund)

Staðan: Léttþungavigt (205 pund)

daniel cormierVið höldum áfram yfirferð okkar um þyngdarflokkana í UFC. Í dag tökum við fyrir léttþungavigtina sem eitt sinn var einn allra sterkasti þyngdarflokkurinn í MMA.

Þyngdarflokkurinn (205 pund – 93 kg)

Léttþungavigtin er í ákveðinni óvissu þar sem Jon Jones var sviptur titlinum eftir agabrot. Jones er auðvitað einn allra besti bardagamaður heims og hefur brotthvarf hans opnað þyngdarflokkinn upp á gátt. 205 punda flokkurinn var eitt sinn fullur af stærstu nöfnunum í bransanum. Í UFC og Pride börðust goðsagnir á borð við Chuck Liddell, Quinton ‘Rampage’ Jackson, Wanderlei Silva, Shogun Rua og fleiri. Flokkurinn var sá vinsælasti en má nú muna sinn fífil fegurri. Frank Shamrock var fyrsti léttþungavigtarmeistari UFC er hann sigraði Kevin Jackson á UFC Japan árið 1997. Hann varði beltið fjórum sinnum áður en hann yfirgaf UFC.

Meistarinn

Daniel Cormier er léttþungavigtarmeistari UFC eftir að Jones var sviptur titlinum. Eftir sigur á Anthony Johnson í maí var Cormier krýndur nýr léttþungavigtarmeistari UFC. Flestir bíða þó eftir endurkomu Jones og telja að hann sé enn sá besti í heiminum í þyngdarflokknum.

Næstu áskorendur

Cormier mætir Alexander Gustafsson á UFC 192 og verður það fyrsta titilvörn hans. Það er ansi sérstakt að Gustafsson fái þennan titilbardaga enda tapaði hann sínum síðasta bardaga. Ryan Bader virtist vera næsti áskorandi en UFC valdi Gustafsson og mætir Bader Rashad Evans í október. Topparnir í flokknum eru sterkir en það virðist lítil endurnýjun eiga sér stað í flokknum. Cormier, Gustafsson, Johnson, Rashad Evans, Glover Teixeira og Ryan Bader eru sterkir keppendur en þeir virðast standa mun framar en aðrir í flokknum.

Jon Jones

Hversu líklegt er að við fáum nýjan meistara?

Cormier gæti haldið beltinu svo lengi sem Jon Jones komi ekki aftur. Hann á góða möguleika gegn Gustafsson í haust en flestir telja að hann tapi aftur gegn Jon Jones þegar hann snýr aftur.

Hverjir eru efnilegir?

Topp fimm kapparnir eru sterkir en utan þess er fátt um fína drætti. Léttþungavigtin hefur skort unga og upprennandi bardagamenn síðan Jon Jones, Alexander Gustafsson og Ryan Bader komu upp. Það er enginn undir 30 ára í UFC sem getur komist nálægt toppnum eins og staðan er núna. Það er alvarlegur skortur á bardagamönnum á uppleið í léttþungavigtinni og enginn efnilegur á leiðinni. Ovince St. Preux hefur litið vel út en er 32 ára og varla meistaraefni.

Einhverjir hættulegir utan UFC?

Liam McGeary er léttþungavigtarmeistari Bellator og hefur sigrað alla sína tíu bardaga. Hann er skemmtilegur bardagamaður og að bæta sig en er ekki betri en topparnir í UFC. Phil Davis skipti nýverið yfir í Bellator og á sennilega eftir að taka titilinn þar. Í UFC tókst honum ekki að komast í titilbardaga og liggja efri getumörkin hans þar.

Goðsagnir

Það er þó nokkuð um goðsagnir í flokknum. Eins og áður sagði blómstraði þessi þyngdarflokkur þegar Pride var uppi á sitt besta og deildu bardagaaðdáendur um hvort Chuck Liddell gæti sigrað Pride mennina og öfugt. Goðsögnin er sennilega Chuck Liddell en Wanderlei Silva, Shogun Rua, Quinton ‘Rampage’ Jackson, Dan Henderson, Randy Couture, Tito Ortiz og Frank Shamrock geta allir auðveldlega komist í goðsagnaflokkinn. Þá verður Jon Jones alltaf goðsögn þrátt fyrir vandræði hans utan búrsins.

Tvær goðsagnir.
Tvær goðsagnir.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular