spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC er greinilega alvara þegar kemur að lyfjamálum

UFC er greinilega alvara þegar kemur að lyfjamálum

usada-anti-doping-ufc-192Þann 1. júlí í fyrra hófst samstarf UFC við USADA formlega. USADA sér um öll lyfjamál UFC og prófa þeir keppendur allan ársins hring. Nú, rúmu ári eftir að samstarfið hófst, er deginum ljósara að UFC er alvara þegar kemur að lyfjamálum.

Þegar samstarfið við USADA (United States Anti-Doping Agency) var kynnt fyrst þann 3. júní voru ýmsar spurningar sem báru á góma. Mun USADA hafa fulla stjórn á lyfjaprófum? Munu þeir geta prófað alla tæplega 600 bardagamennina? Hvernig myndi UFC taka á málunum ef stór stjarna fellur á lyfjaprófi?

Óhætt er að segja að við höfum fengið svörin að vissu leyti. UFC hefur sýnt að þeir eru tilbúnir að taka menn úr stórum bardögum ef menn gerast brotlegir á lyfjastefnu þeirra. Það sást augljóslega þegar Jon Jones fékk ekki að berjast gegn Daniel Cormier eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Þeir geta tekið stórar ákvarðanir þó það gæti kostað bardagasamtökin milljónir dollara.

USADA hefur fulla stjórn á því hverja þeir prófa og hvenær. Nýjustu tölur herma að Holly Holm er sú sem oftast hefur farið í lyfjapróf hjá USADA eftir að samstarfið hófst eða 14 lyfjapróf. Næstur á eftir henni er Conor McGregor en hann hefur verið prófaður 13 sinnum.

USADA prófar þá sem eru í titilbardögum eða stórum bardögum oftar en aðra bardagamenn. Conor McGregor hefur barist þrjá bardaga eftir að USADA kom inn í þetta (Mendes í júlí 2015, Aldo í desember 2015 og Nate Diaz í mars 2016) og Holm berst sinn þriðja stóra bardaga um helgina.

USADA notar líka óspart svo kallað lyktarpróf (e. smell test). Ef menn líta út fyrir að nota stera eiga þeir von á því að lenda oftar í lyfjaprófi en aðrir. Þannig hefur t.d. Thiago Alves (sem hefur ekkert barist síðan í maí 2015) farið tíu sinnum í lyfjapróf hjá USADA. Einnig ef USADA heyrir einhverjar sögur eða orðróm um að einstaklingar séu að nota frammistöðubætandi efni banka þeir upp á.

thiagoalves
Thiago Alves.

Þessi lyfjastefna UFC kostar milljónir dollara og kemur beint úr vasa bardagasamtakanna. Áður fyrr sáu íþróttasamböndin eins og t.d. í Nevada fylki um lyfjaprófin en þau hafa ekki fjármagn til að prófa menn allt árið líkt og USADA gerir. Þetta er það sem þarf til að koma í veg fyrir lyfjamisnotkun – lyfjapróf allt árið.

Bardagamenn UFC þurfa nefnilega að láta vita hvar í heiminum þeir eru staddir svo USADA geti komið og bankað upp á hvenær sem er. Gunnar Nelson hefur þar af leiðandi bæði verið lyfjaprófaður hér heima og á Írlandi þegar hann hefur dvalið þar við æfingar. Þess má geta að Gunnar hefur farið fjórum sinnum í lyfjapróf síðasta árið. Áhugasamir geta séð hversu oft bardagamenn hafa verið prófaðir með því að leita á heimasíðu USADA hér.

Lorenzo Fertitta, fráfarandi framkvæmdastjóri UFC, sagði á blaðamannafundinum þegar lyfjastefnan var kynnt að ástandið í lyfjamálum í UFC yrði verra áður en það yrði betra. Það höfum við séð á undanförnum mánuðum. Chad Mendes fékk í gær tveggja ára bann fyrir fall á lyfjaprófi, Brock Lesnar og Jon Jones féllu nýverið, Gleison Tibau og Yoel Romero féllu fyrr á árinu þó sá síðastnefndi hafi sýnt fram á annað.

Að margra mati munu þeir sem nota ólögleg frammistöðubætandi efni alltaf vera skrefi á undan þeim sem taka lyfjaprófin. Það eru sennilega meiri peningar þeim megin við borðið en nýjustu fréttirnar sýna að svindlarar þurfa að fara afskaplega varlega. Chad Mendes var til að mynda ekki einu sinni með bardaga í pípunum þegar USADA leit við og tók hann í óvænt lyfjapróf.

Ef einhverjir höfðu efasemdir um lyfjastefnu UFC hljóta þær að vera úr sögunni. Síðustu mánuðir hafa sýnt að UFC er full alvara þegar kemur að lyfjamálum. Þetta er ekkert upp á punt. Þeir ætla að hreinsa sportið og verða næstu ár afskaplega áhugaverð í lyfjamálum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular