spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUmfjöllun um UFC 165

Umfjöllun um UFC 165

Steve Russell/Toronto Star/Getty ImagesUFC 165 fór fram í gær í Toronto Kanada fyrir framan um 15 þúsund manns. Jon Jones og Alexander Gustafsson áttust við í titilbardaga í léttþungavigt, Renan Barao og Eddie Wineland börðust um bantamvigtartitilinn auk fleiri bardaga.

Jon Jones sýndi að hann er besti léttþungavigtarmaður í sögu MMA! Hann hefur farið leikandi létt með alla andstæðinga sína til þessa og einu skiptin sem hann hefur lent í hættu er ein armbar tilraun frá Belfort og eitt högg frá Machida. Það var áður en hann mætti Gustafsson. Hann var í alls konar vandræðum með Gustafsson en náði að aðlaga sig að aðstæðunum og sigra að lokum. Þetta var gríðarlega jafn bardagi og einn besti titilbardagi í sögu UFC. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi Jon Jones en það var eitthvað við hann í 4. lotu sem hafði áhrif á mig. Í lotunni virtist vera eins og Jones héldi að hann þyrfti að klára Gustafsson til að sigra bardagann. Hann reyndi að klára hann og það er alltaf skemmtilegt á sjá það, sérstaklega svona seint í bardaganum. Hann vildi greinilega ekki láta þetta fara í hendurnar á dómurunum og reyndi háspörk og olnboga til að klára Gustafsson sem skilaði sér í að Gustafsson var orðinn afar vankaður í 4. lotu. Jon Jones hefur nú varið léttþungavigtartitilin oftar en Tito Ortiz eða 6 sinnum sem er met. Hann sýndi í gær að hann hefur hjarta og gefst ekki upp þrátt fyrir mótlæti en það gera bara sannir meistarar.

Ég hef aldrei verið neitt svakalega hrifinn af Gustafsson og hélt (eins og svo margir) að hann ætti hreinlega engan séns í Jones. Mér fannst rothöggin hans í fyrri bardögum hans ekkert stórfengleg og var efins um að hann væri kominn á þetta getustig sem Jones er á. Gustafsson hreif mig gríðarlega í gær. Hann sýndi frábært box og ótrúlega felluvörn gegn Jones sem er með frábærar fellur. Gustafsson náði meira að segja að gera það sem engum öðrum hefur tekist, að taka Jones niður. Margir vilja meina að Gustafsson eigi skilið annan bardaga gegn Jones núna strax og Dana White var ekki að hata hugmyndina. Eitthvað segir mér að við eigum eftir að sjá Jon Jones vs. Alexander Gustafsson 2 í New Jersey um Super Bowl helgina í febrúar en Jon Jones er fæddur og uppalinn í New York.

Renan Barao sýndi að hann er besti bantamvigtarmaður veraldar er hann sigraði Eddie Wineland eftir tæknilegt rothögg. Að mínu mati ætti UFC bara að taka titilinn af Dominick Cruz og gera Barao að „alvöru“ UFC meistara en ekki bara „Interim“ meistara. Dominick Cruz er búinn að vera það lengi frá að hann ætti ekki að vera meistari lengur auk þess sem það er sennilega best fyrir hann að fara ekki í Barao eftir svona langa pásu. Best væri fyrir Cruz að fá einn bardaga og fara svo í Barao en UFC er sennilega ekki á sama máli.

BJJ undrabarnið Brendan Schaub (nýja gælunafnið hans eftir frammistöðu hans á Metamoris 2) svæfði Matt Mitrione í fyrstu lotu. Matt Mitrione er á ansi hálum ís í UFC og spurning hvort að hann haldi starfinu sínu þar. Matt hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum auk þess sem hann fékk sekt og bann fyrir niðrandi ummæli um Fallon Fox (transkonu sem keppir í MMA) á þessu ári.

Francis Carmont „GSPaði“ Costa Philippou og er að verða einn óvinsælasti bardagamaðurinn í millivigtinni. Carmont er ósigraður í UFC en hefur sigrað 3 síðustu bardaga eftir dómaraákvörðun  í mjög leiðinlegum viðureignum. Hann gæti fengið Jon Fitch meðferðina ef hann heldur svona áfram, þ.e. heldur áfram að sigra en fær ekki titilbardaga þar sem hann er ekki nógu skemmtilegur. Þetta var fyrsti bardagi Costa Philippou eftir að hann yfirgaf Matt Serra og félaga í Serra-Longo fight team og átti hann aldrei séns í bardaganum. Hvort það hafi haft áhrif á frammistöðu hans eða ekki skal ósagt látið en hann mun sennilega ekki vera áfram í topp 10 í millivigtinni.

Khabib Nurmagomedov sýndi að hann er fæddur til að kasta mönnum til og frá og berja þá. Hann sigraði Pat Healy afar sannfærandi og er enn ósigraður í 21 bardögum. Khabib er sennilega einum bardaga frá titilbardaga og gæti fengið Gilbert Melendez næst ef hann sigrar Diego Sanchez í október (eitthvað sem verður að teljast afar líklegt). Pat Healy á enn eftir að sigra í UFC (hann tæknilega séð sigraði Jim Miller en sigurin var dæmdur ógildur eftir að Pat féll á lyfjaprófi) og þarf að vinna næsta bardaga ef hann ætlar að halda sér í UFC.

Í heildina litið gott kvöld sem endaði með bardaga sem verður lengi hafður í manna minnum. Næsta UFC kvöld verður 9. október er Demian Maia og Jake Shields mætast í Brasilíu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular