Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentVesen í veltivigtinni

Vesen í veltivigtinni

Þessa dagana er einfaldlega ekkert að gerast í veltivigt UFC. Veltivigtin er stærsti þyngdarflokkurinn í UFC en aðeins tveir af topp 16 bardagamönnunum í UFC eru með bardaga sem stendur.

Veltivigtin hefur alltaf verið einn skemmtilegasti þyngdarflokkurinn í UFC. Þetta er algjört hákarlabúr og gríðarlega mikill fjöldi af hæfileikaríkum bardagamönnum þar á ferð.

Nú virðist samt einfaldlega ekkert vera að gerast hjá þeim bestu í þyngdarflokkinum. Ef við skoðum þá 16 bestu á styrkleikalista UFC (meistarinn og svo 15 næstu áskorendur) þá eru aðeins þeir Carlos Condit og Leon Edwards með staðfesta bardaga. Aðrir eru ekki með bardaga á næstunni.

Það virðist vera einhver vandi í veltivigtinni núna. Annað hvort eru menn meiddir eða vilja ekki berjast fyrir neðan sig.

Meistarinn Tyron Woodley er að jafna sig eftir axlaraðgerð. Hann verður eitthvað lengur frá en virðist sjálfur mest vilja stóra peningabardaga í stað þess að mæta næsta áskoranda. Woodley virðist hafa mestan áhuga á Nate Diaz eða Georges St. Pierre.

Rafael dos Anjos er áskorandi nr. 1 eftir sigur á Robbie Lawler í fyrra. Hann ætti réttilega að fá næsta titilbardaga en meistarinn er meiddur og virðist einnig hafa meiri áhuga á að fá stærri peningabardaga. Woodley til varnar þá sagði hann það nákvæmlega sama fyrir Stephen Thompson bardagana en endaði á að berjast við hann í bæði skiptin. Kannski er hann bara að leika sér með fjölmiðla og umræðuna.

Í efsta sæti listans situr hins vegar Stephen Thompson. Eftir tvö töp gegn núverandi meistara þarf ansi margt að gerast til að hann fái annan séns á beltinu. Thompson hefur verið frá vegna meiðsla eftir sinn síðasta bardaga en hann virðist hafa mestan áhuga á að mæta Rafael dos Anjos miðað við ummæli hans í fjölmiðlum.

Í 3. sæti listans situr hinn sívinsæli Colby Covington. Covington virðist aðeins vilja mæta meistaranum Woodley núna og hefur sjálfur verið að glíma við meiðsli. Robbie Lawler er svo með slitið krossband þannig að hann er ekki á leið í búrið á næstunni og lítið er vitað um Demian Maia og hans næstu skref. Þá hefur ekkert heyrst í Jorge Masvidal síðan hann tapaði fyrir Stephen Thompson í nóvember.

Þá erum við komin í 7. sæti listans og þar situr Darren Till. Gunnar Nelson hefur verið orðaður við bardaga gegn Till en Bretinn virðist engan áhuga hafa á þeim bardaga. Till vill mest fá Stephen Thompson en fyrr í vikunni sagðist hann einnig vilja mæta Rafael dos Anjos í Brasilíu.

Þar á eftir er Kamaru Usman en hann vill helst fá Colby Covington. Usman er að reyna að fá þann bardaga og virðist ekki vera spenntur fyrir því að berjast við þá sem eru fyrir neðan hann. Usman til varnar hefur hann tekið bardaga gegn minni spámönnum á borð við Emil Weber Meek (ekki á topp 15) þegar hann vildi fá stærri bardaga.

Neil Magny er í 9. sæti styrkleikalistans en hann hefur verið að glíma við meiðsli og óvíst hvenær hann verði 100% klár í slaginn. Hann virðist þó vera farinn að æfa aftur og spurning hvort hans næsti bardagi verði ekki bókaður á næstunni.

Í 10. sæti listans erum við svo með Íslandsvininn Santiago Ponzinibbio. Hann vonast eftir að fá aðalbardaga kvöldsins í Síle þann 19. maí en það verður í fyrsta sinn sem UFC heimsækir Síle. Donald Cerrone er svo í næsta sæti listans en hann ætlar að fara aftur niður í léttvigt en myndi þó íhuga að taka bardaga í veltivigt ef UFC myndi óska eftir því. Carlos Condit er svo í 12. sæti en hann mætir Matt Brown í apríl.

Í 13. sæti er svo Gunnar Nelson. Vonir standa til að Gunnar berjist í aðalbardaga kvöldsins í Dublin í maí en alls óvíst er hvort verði af því. Dong Hyun Kim er svo í 14. sæti en ekki er vitað um hans heilsufar og hvort hann sé tilbúinn að berjast á þessari stundu. Í 15. sæti er svo Leon Edwards en hann mætir Peter Sobotta á UFC bardagakvöldinu í London um næstu helgi.

Gunnar Nelson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir

Það virðast því allir vera annað hvort meiddir eða vilja bara berjast upp fyrir sig. Woodley vill Nate Diaz, Rafael dos Anjos vill Woodley, Thompson vill fá dos Anjos, Darren Till vill fá Thompson, Covington vill Woodley og Usman vill Covington.

Þessi stífla hlýtur að losna einn daginn og vonandi fáum við helling af góðum bardögum í veltivigtinni á næstu mánuðum og auðvitað einn góðan bardaga fyrir Gunnar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular