Friday, April 26, 2024
HomeErlentAllt sem þú þarft að vita um pörupiltinn Nate Diaz

Allt sem þú þarft að vita um pörupiltinn Nate Diaz

nate-diaz-and-nick-diazÞað verður vandræðagemlingurinn Nate Diaz sem mætir Conor McGregor á UFC 196. Nate Diaz er yngri bróðir Nick Diaz en báðir hafa þeir gert garðin frægan í MMA og gengið í gegnum ýmislegt.

Nate Diaz og Nick Diaz ólust upp í Stockton í Kaliforníu. Bræðurnir ólust upp við mikla fátækt í slæmum hverfum Stockton en borgin hefur verið sögð ein sú ömurlegasta í Bandaríkjunum af Forbes tímaritinu.

Nick Diaz var alltaf mótiveraði bróðirinn. Hann langaði að verða atvinnubardagamaður og Nate fylgdi alltaf bara með í fyrstu. Nate hafði lítinn áhuga á brasilísku jiu-jitsu í fyrstu og var ekkert sérstaklega góður. Það sem fékk hann til að mæta var hins vegar maturinn eftir æfingar.

Nick-and-Nate-Diaz

Eldri meðlimirnir í BJJ-klúbbnum þar sem þeir æfðu gáfu þeim bræðrunum alltaf búrrító eftir æfingar úr matarbíl handan við hornið. Bræðurnir voru oft sársvangir í æsku enda ólust þeir upp við mikla fátækt. Nate hugsaði með sér; „annað hvort sit ég heima sársvangur og geri ekki neitt, eða ég fer á æfingu og fæ kvöldmat.“

Nate gekk illa í skóla og var reiður ungur maður. Kennararnir sögðu við hann að hann væri heppinn ef hann gæti forðast fangelsið. Ekki björt framtíð sem kennararnir sáu í þessum reiða unga manni. Í raun má gera ráð fyrir að Nate hefði átt erfitt uppdráttar alla ævi ef hann hefði ekki fundið bardagaíþróttirnar.

UFC ferillinn

19 ára gamall tók hann sinn fyrsta MMA bardaga og gekk honum vel í fyrstu. Tæp níu ár eru nú liðin frá því Nate sigraði 5. seríu The Ultimate Fighter en þar skaust hann fyrst fram á sjónarsviðið og hefur verið í UFC upp frá því. Á þessum níu árum hans í UFC hefur skipst á skin og skúrum.

Hann vann fyrstu fimm bardaga sína í UFC en átti misjöfnu gengi að fagna eftir það yfir nokkurra ára tímabil. Á þessu tímabili fékk hann þó sex sinnum í röð bónus annað hvort fyrir besta bardaga kvöldsins eða besta uppgjafartak kvöldsins. Hann varð því fljótt ansi vinsæll bardagamaður meðal bardagaaðdáenda þrátt fyrir að vera kannski ekki í toppbaráttunni.

2011 og 2012 átti hann góðu gengi að fagna og eftir þrjá mjög svo sannfærandi sigra í röð (þar á meðal öruggur sigur á Donald Cerrone) fékk hann titilbardaga gegn þáverandi meistara, Ben Henderson. Þrátt fyrir að tapa bardaganum nokkuð sannfærandi á stigum var Diaz með kjaft eins og honum einum er lagið.

nate diaz
Diaz sendir Henderson puttann í miðjum bardaga.

Þeir Diaz bræðurnir eru duglegir við að senda hverjum sem er puttann og eru með stæla og kjaft við hvern sem er. Uppeldið í Stockton kenndi þeim líka að láta ekki neinn vaða yfir sig. Þeir líta heldur ekki á MMA sem íþrótt heldur eru þetta bara slagsmál og þar eru engir vinir. Að hans mati er ekkert íþróttalegt við að reyna að brjóta limi og andlit annarra í beinni útsendingu.

Þess vegna finnst Nate alltaf sérstaklega pirrandi þegar UFC skyldar hann til að hanga með öðrum UFC bardagamönnum á fjölmiðlatengdum viðburðum. Hann vill ekki leyfa mögulegum framtíðarandstæðingum sínum að líða vel í kringum sig heldur vill hann að þeir haldi að hann sé snælduvitlaus bardagamaður.

Brösótt gengi

Eftir titilbardagann gegn Henderson vegnaði honum ekki eins vel og upplifði sitt fyrsta og eina tap eftir rothögg þegar Josh Thomson sigraði með tæknilegu rothöggi. Hann átti í samningsdeilum við UFC og er sagður hafa hafnað nokkrum bardögum þar sem hann vildi fá betur borgað. Um tíma var hann tekinn af styrkleikalista UFC og leit út fyrir að hann væri á leið úr UFC.

Nate Diaz barðist því aðeins þrjá bardaga á þremur árum og topppaði eigin vitleysu með framkomu sinni í aðdraganda bardagans gegn Rafael dos Anjos í desember 2014. Fyrir það fyrsta mætti Diaz ekki á opnu æfinguna nokkrum dögum fyrir bardagann eins og hann átti að gera og svo náði hann ekki vigt. Að auki gekk hann út úr miðju viðtali sem sýna átti í útsendingunni fyrir bardagann.

Rafael dos Anjos gekk frá Nate Diaz á nokkuð auðveldan máta og töldu margir að Diaz væri einfaldlega búinn í UFC. Hann virtist ekki vilja vera þarna lengur og var sífellt kvartandi yfir framkomu UFC í sinn garð.

Eitthvað virðist þó hafa breyst því ári seinna mætti hann Michael Johnson. Eftir erfiða fyrstu lotu átti Diaz frábæra frammistöðu í seinni tveimur lotunum og útboxaði Johnson. Hann kom sér svo almennilega aftur í sviðsljósið með stórkostlegu viðtali eftir bardagann þar sem hann henti í nokkrar F-bombur. Diaz fær nú loksins ósk sína uppfyllta um risabardaga og á hann eflaust eftir að fá vel borgað fyrir.

Diaz bræðurnir láta enga segja sér til og eru svo sannarlega með bein í nefinu. Þeir hafa mikið dálæti á gras reykingum og fara ekkert í felur með það en Nate hefur þó ekki ennþá fallið á lyfjaprófi í UFC. Bræðurnir lifa annars mjög heilbrigðu lífi og taka reglulega þátt í þrírautum. Þeir eru báðir grænmetisætur og finnst ekkert skemmtilegra en að æfa, hjóla, hlaupa eða synda.

Nate og Nick eru með mjög líkan stíl. Báðir eru þeir svart belti í brasilísku jiu-jitsu og afar færir boxarar. Sókn þeirra standandi byggist helst á gríðarlegum fjölda högga en hvert högg er kannski ekkert sérsaklega þungt. Það er helst þegar andstæðingurinn fær hundruðustu stunguna í andlitið sem þeir byrja að brotna. Þá hikar Nate ekki við að rífa kjaft í miðjum bardaganum sem er einmitt nokkuð sem Conor McGregor gerir líka.

Nate er með 11 sigra eftir uppgjafartök og þar af átta í UFC sem er það næstmesta í sögu UFC (skipar annað sætið ásamt Frank Mir og Kenny Florian).

Nate Diaz minnti tækilega á sig með sigrinum á Michael Johnson í desember og komst fyrir vikið í 5. sæti styrkleikalista UFC. Með sigri á Conor McGregor á UFC 196 gæti hann komið sér rækilega í titilbaráttuna í UFC og endurheimt orðspor sitt fullkomnlega eftir misjafnt gengi á síðustu árum.

nate-diaz

Heimild: MMA Fighting

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular