Friday, April 26, 2024
HomeErlentUFC 189: Thomas Almeida gegn Brad Pickett

UFC 189: Thomas Almeida gegn Brad Pickett

pickett almeidaUFC 189 fer fram eftir aðeins fimm daga og ætlum við að hita vel upp fyrir bardagana. Að þessu sinni ætlum við að skoða fyrsta bardagann á aðalhluta bardagakvöldsins en þar gætum við fengið að sjá nýja stjörnu rísa.

Thomas Almeida (19-0) gegn Brad Pickett (24-10)

Bardagi Thomas Almeida og Brad Pickett verður fyrsti bardaginn á aðalhluta bardagakvöldsins og því fyrsti bardaginn í útsendingunni á Stöð 2 Sport. Bardaginn fer fram í bantamvigt eða 61 kg flokki.

Hérna mætast reynsluboltinn Brad Pickett og hinn ungi og efnilegi Thomas Almeida. Brad Pickett er einn af uppáhalds bardagamönnum Dana White, forseta UFC, og ekki að ástæðulausu. Hann þykir einstaklega skemmtilegur bardagamaður og er með þungar hendur miðað við þyngd. Bretinn Pickett hefur búið í Flórída á undanförnum árum þar sem hann hefur bætt fellurnar sínar mikið hjá American Top Team. Hann var fyrst um sinn einhæfur boxari en er nú orðinn betri á öllum vígstöðum. Hann er nú að koma upp í bantamvigt eftir misheppnaða dvöl í fluguvigtinni. Þar ætlaði hann eflaust að ná öðrum sigri á núverandi meistara, Demetrious Johnson, en var aldrei nálægt titilbardaga. Hann er því kominn aftur í bantamvigtina og fær erfiða prófraun.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • Er orðinn 36 ára gamall og gæti átt lítið eftir
  • Hefur fimm sinnum fengið bónus fyrir besta bardaga kvöldsins í UFC og WEC
  • Hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum
  • Einn af tveimur sem hefur sigrað Demetrous Johnson, fluguvigtarmeistara UFC

Thomas Almeida er einn mest spennandi bardagamaðurinn í bantamvigtinni í dag. Bardagaskorið hans segir allt sem segja þarf, 19 sigrar, 14 eftir rothögg og fjórir sigrar eftir uppgjafartak, ekkert tap. Þessi 23 ára Brasilíumaður æfir hjá Chute Boxe í heimalandinu en bardagaklúbburinn var þekktur fyrir að ala af sér gríðarlega árásargjarna bardagamenn – og það er Almeida svo sannarlega. Hann hefur sigrað báða bardaga sína í UFC sannfærandi og fær hér stóra sviðið gegn reyndum andstæðingi. Það er margt sem bendir til þess að Almeida verði stjarna í framtíðinni og getur hann tekið nokkur skref að því með flottum sigri á laugardaginn.

Nokkrir hlutir til að hafa í huga:

  • Kláraði fyrstu 13 bardagana í fyrstu lotu
  • Þrátt fyrir yfirburðarsigra át hann mikið af höggum sjálfur
  • Pickett mun örugglega reyna að fara í fellur þegar líður á bardagann

Báðir eru mjög öflugir standandi en Almeida er með mun stærra vopnabúr. Háspörk, hné, olnbogar, skrokkhögg í lifrina og langur faðmur ætti að gefa honum yfirhöndina. Pickett er þó mjög reyndur og hefur sýnt flottar fellur þegar á þarf að halda.

Spá MMA Frétta: Almeida mun halda sigurgöngu sinni áfram. Pickett er þó of harður til að hætta en læknirinn stoppar bardagann eftir 2. lotu. Almeida sigrar eftir tæknilegt rothögg.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular