Friday, April 26, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2018

Ágúst mánuður býður aðeins upp á tvö UFC kvöld en eini bardaginn sem er algjörlega ómissandi er hrikalega spennandi viðureign Cody Garbrandt og T.J. Dillashaw. Annað í mánuðinum er ágætt en ekki mikið meira en það. Lítum yfir listann.

10. UFC Fight Night 135, 25. ágúst – Jake Ellenberger gegn Bryan Barberena (veltivigt)

Þessir tveir berjast sennilega seint um titil í UFC en þessi bardagi ætti samt að verða skemmtilegur. Til að bæta á smá kryddi þá sigraði Barberena bróður Ellenberger (Joe) fyrir um fjórum árum, Jake þarf því að hefna.

Spá: Barberena rotar Ellenberger í fyrstu lotu og verður þar með sá hundraðasti til að rota Ellenberger í UFC.

9. UFC 227, 4. ágúst – Thiago Santos gegn Kevin Holland (millivigt)

Þann 12. júní síðastliðinn fékk Kevin Holland tækifæri í áskorendaseríu Dana White. Þó hann hafi sigrað nokkuð örugglega fékk hann ekki samning í fyrstu en allt í einu í síðustu viku ákvað UFC að bæta einum skemmtilegum bardaga á UFC 227. Holland fékk því símtalið á endanum og er hent beint í ljónagryfjuna gegn Thiago Santos, velkominn í UFC! Fyrir Holland er þetta risavaxið tækifæri á stóru kvöldi en á sama tíma er þetta mikil áhætta fyrir Santos sem gæti tapað fyrir alveg óþekktum bardagamanni.

Spá: Santos býður Holland velkominn með hnefasamloku, rothögg í fyrstu lotu.

8. UFC Fight Night 135, 25. ágúst – John Moraga gegn Deiveson Figueiredo (fluguvigt)

John Moraga hefur stundum tekið að sér að róa niður unga ofurhuga á uppleið í fluguvigt. Í fyrra rotaði hann hinn efnilega Magomed Bibulatov og nú mætir hann ósigruðum Brasilíumanni. Fyrir Figudeiredo er þetta nokkuð stórt skref upp á við og fyrsti bardagi hans utan Brasilíu. Það verður áhugavert að sjá hvort hann stenst prófið.

Spá: Figueiredo kemur á óvart og rotar Moraga í annarri lotu.

7. Bellator 204, James Gallagher gegn Ricky Bandejas (bantamvigt)

MMA aðdáendur hér á landi ættu að hafa auga á James Gallagher en þessi írski bardagakappi er lærisveinn John Kavanagh og hefur margoft komið til Íslands til að æfa í Mjölni. Gallagher er ósigraður og berst nú í Bellator í fimmta sinn en að þessu sinni fer hann niður um flokk í bantamvigt. Andstæðingurinn er lítið þekktur en er með ferilinn (10-1-0).

Spá: Gallagher heldur áfram sinni sigurgöngu og afgreiðir Bandejas með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

6. UFC 227, 4. ágúst – Pedro Munhoz gegn Brett Johns (bantamvigt)

Brett Johns er hrikalega skemmtilegur persónuleiki og efnilegur bardagamaður að auki. Hann mátti þola sitt fyrsta tap á ferlinum fyrir stuttu gegn Aljamain Sterling en mætir hér öðrum erfiðum andstæðingi á stuttum tíma. Munhoz er í svipaðri stöðu en hann var á góðu skriði áður en hann tapaði fyrir John Dodson í mars. Báðir vilja komast aftur á beinu brautina en aðeins annar kemst áfram.

Spá: Nokkuð jafn bardagi en Munhoz tekur þetta á stigum.

5. UFC Fight Night 135, 25. ágúst – Michael Johnson gegn Andre Fili (fjaðurvigt)

Fyrir ekki svo löngu síðan var Michael Johnson einn af þeim bestu léttvigt. Nú hefur hann tapað fimm af síðustu sex bardögum og hlýtur að berjast fyrir tilverurétti sínum í UFC í þessum bardaga gegn Andre Fili. Fili er skemmtilegur ungur bardagamaður sem hefur í gegnum tíðina unnið og tapað til skiptis en virðist vera stöðugt á bæta sig og gæti nú farið að troða sér upp í topp 15 í fjaðurvigt.

Spá: Þetta gæti orðið skemmtilegur bardagi, segjum að Fili sigri á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

4. UFC 227, 4. ágúst – Cub Swanson gegn Renato Moicano (fjaðurvigt)

Hér er á ferðinni nokkuð mikilvægur bardagi í fjaðurvigt. Báðir eru á topp tíu í þyngdarflokknum en tilfinningin er sú að Swanson sé að verja sína stöðu á meðan Moicano gæti verið á hraðri uppleið. Eina tap Moicano er gegn Brian Ortega en í þeim bardaga var Moicano á góðri leið með að sigra á stigum þegar Ortega náði honum í „guillotine“ hengingu. Hér getur Moicano náð sér í stórt nafn og fært sig upp listann.

Spá: Moicano sigrar á stigum.

3. UFC Fight Night 135, 25. ágúst – Justin Gaethje gegn James Vick (léttvigt)

Justin Gaethje er alltaf „must see TV“, hvort sem hann sigrar eða tapar. Hann tekur óþægilega mikið af höggum en það eru fáir sem ná að þrauka nógu lengi á móti honum áður en eitthvað gefur sig. Gaethje hefur nú tapað tveimur bardögum í röð (einu töpin á ferlinum) og mætir nú James Vick sem hefur smám saman verið að vinna bardaga eftir bardaga og vill nú meina að hann sé tilbúinn í toppbaráttuna. Ef hann sigrar Gaethje verður erfitt að mótmæla því.

Spá: Gaethje nagar Vick niður og klárar með rothöggi í þriðju lotu.

2. UFC 227, 4. ágúst – Demetrious Johnson gegn Henry Cejudo (fluguvigt)

Fyrsti af tveimur enduratstitilbardögum á UFC 228 er í fluguvigt. Þeir DJ og Cejudo tókust fyrst á fyrir um tveimur árum en þá sigraði Johnson örugglega í fyrstu lotu. Bardaginn minnti á bardaga Rondu Rousey og Sara McMann þar sem vel staðsett hné gerði út af við yfirburða wrestler í fyrstu lotu. Í síðustu tveimur bardögum Cejudo, sem voru sigrar gegn Wilson Reis og Sergio Pettis, hefur hann sýnt miklar framfarir standandi sem gerir þennann bardaga spennandi. Sigri Johnson verður það 12. titilvörnin og að sjálfsögðu nýtt met.

Spá: Það er ekki hægt að spá gegn DJ. Segjum að meistarinn afgreiði Cejudo að þessu sinni í þriðju lotu með armlás.

1. UFC 227, 4. ágúst – TJ Dillashaw gegn Cody Garbrandt (bantamvigt)

Illdeilurnar á milli TJ Dillashaw og Alpha Male hafa verið mjög áhugaverðar en þær hafa kristallast í einvígi Dillashaw og Cody Garbrandt. Það virðist vera mikil spenna á milli þessara kappa og ekki sakar að þetta eru tveir bestu bardagamennirnir í bantamvigt. Fyrsti bardaginn var trylltur sem virtist getað endað á hverri stundu. Eftir að hafa lifað af fyrstu lotuna með naumindum var það Dillashaw sem sigraði að lokum með rothöggi í annarri lotu. Nú mætast þeir aftur rúmu hálfi ári síðar og útkoman ætti að verða áframhaldandi flugeldaveisla.

Spá: Þetta er hnífjafnt á pappír en segjum að Garbrandt sigri að þessu sinni, rothögg í fyrstu lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular