Það var auðvitað mikið um að vera á árinu 2016 í MMA heiminum. Sunna Rannveig barðist sinn fyrsta bardaga Í Invicta, Bjarki Þór átti góðu gengi að fagna og Conor gerði allt vitlaust með einu tísti. Hér eru tíu mest lesnu fréttir ársins.
10. Hvenær byrjar UFC 202? Hvenær berst Conor?
Það er alltaf stórviðburður þegar Conor McGregor berst og eðlilega vilja allir vera með réttan tíma á hreinu.
9. Úrslit UFC 202 – Conor hefndi fyrir tapið í ótrúlegum bardaga
UFC 202 var magnað bardagakvöld þar sem Conor McGregor og Nate Diaz börðust í besta bardaga ársins. Bardagakvöldið var eitt það besta á árinu og var gríðarlegur áhugi á bardagakvöldinu.
8. Bjarki Þór: Hann reyndi ekki einu sinni að biðjast afsökunar
Bjarki Þór Pálsson barðist við Alan Procter á FightStar 8 bardagakvöldinu í London í desember. Bjarki vann eftir að andstæðingurinn var dæmdur úr leik eftir ólöglegt hnéspark. Bjarki náði ekkert að tala við Procter eftir bardagann. „Ég for upp á á spítala í rannsókn eftir bardagann en hann [Procter] reyndi ekki einu sinni að biðjast afsökunar eftir þetta.“
7. Íslenskri stelpu boðið að berjast við Gabi Garcia í Rizin
Ragnhildi Gyðu Magnúsdóttur var boðið að keppa við Gabi Garcia í Rizin FF bardagasamtökunum í Japan. Ragnhildur fékk skilaboð frá manni sem sagðist vinna fyrir Rizin og væri að leita að andstæðingum fyrir Gabi Garcia. Ragnhildur var ekki lengi að segja nei takk.
6. Bjarki Þór vann eftir ólöglegt hné frá andstæðingnum
Margir Íslendingar fylgdust spenntir með er Bjarki Þór barðist við Alan Procter í desember. Til stóð að streyma bardaganum en slæm nettenging gerði Íslendingum erfitt fyrir. Það voru því margir spenntir að lesa um bardaga Bjarka Þórs um leið og upplýsingar bárust í hús.
5. Hvenær berst Sunna? Hvar er hægt að sjá bardagann?
Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann sinn fyrsta bardaga í Invicta bardagasamtökunum í september. Mikill áhugi var meðal Íslendinga á bardaganum og vildu auðvitað allir vera með á hreinu hvenær bardaginn byrjaði.
4. Gunnar Nelson fær Dong Hyun Kim í aðalbardaganum í Belfast
Gunnar Nelson átti að berjast við Dong Hyun Kim í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Belfast í nóvember. Komandi bardagar Gunnars er alltaf vinsælt lesefni og voru margir ánægðir með að sjá þessa tilkynningu.
3. Bjarki Þór kláraði bardagann á 23 sekúndum
Bjarki Þór var ekki nema 23 sekúndur að klára fyrsta atvinnubardaga sinn. Bjarki fékk nýjan andstæðing nokkrum klukkustundum fyrir bardagann en enginn virðist vita hvers vegna Bjarki fékk nýjan andstæðing. Andstæðingurinn átti ekki heima með Bjarka í búrinu og var Bjarki ekki lengi að afgreiða hann.
2. Sunna Rannveig með öruggan sigur
Sunna Rannveig vann Ashley Greenway í september í Invicta. Frammistaða Sunnu var frábær og vann hún allar þrjár loturnar.
1. Conor McGregor segist vera hættur
Conor McGregor gerði allt vitlaust á meðan hann var hér á landi í vor. Þann 19. apríl sagðist hann vera hættur í MMA og fór tístið víða. Conor var ósáttur með þá kröfu UFC að mæta á blaðamannafund í apríl þegar langt var í bardaga hans og Nate Diaz á UFC 200. Conor vildi ekki sinna öllum fjölmiðlaskyldum sínum og sagðist því vera hættur. Hann hætti auðvitað við að hætta en fréttin var sú mest lesna á árinu.
Við þökkum fyrir góða lesningu á árinu en vonandi verður árið 2017 jafn skemmtilegt í MMA heiminum og síðasta ár.