Friday, April 26, 2024
HomeErlent2020: Bardagamaður ársins

2020: Bardagamaður ársins

Það er komið að því að gera upp árið 2020 í MMA heiminum. Að þessu sinni ætlum við að skoða fimm bestu bardagamenn ársins.

Á næstu dögum munum við gera upp árið en farið var rækilega yfir árið í áramótaþætti Tappvarpsins sem kom út á dögunum.

5. Charles Oliveira (2-0)

Charles Oliveira hefur tekið stórt stökk upp á við á þessu ári. Oliveira hefur lengi verið mjög tæknilega góður en aldrei náð að vinna þessa topp 5 bestu. Það breyttist svo sannarlega á þessu ári. Hann byrjaði á að vinna Kevin Lee með uppgjafartaki í 3. lotu en toppaði sig síðan með frábærum sigri á Tony Ferguson í desember. Þessir tveir sigrar hafa komið honum langt í titilbaráttunni og gæti hann vel fengið titilbardaga á næsta ári.

4. Gilbert Burns (2-0)

Gilbert Burns hefur átt frábærar frammistöður undanfarin tvö ár. Burns hefur verið æstur í að berjast og byrjaði árið á að rota Demian Maia í 1. lotu í mars. Hann fékk síðan bardaga við Tyron Woodley í maí þar sem hann hreinlega pakkaði fyrrum meistaranum saman. Eftir þessa tvo sannfærandi sigra fékk hann titilbardaga gegn Kamaru Usman en aðeins viku fyrir bardagann greindist Burns með kórónuveiruna og kom Jorge Masvidal í hans stað. Burns fær væntanlega titilbardagann sinn á næsta ári en hann hefur þurft að bíða eftir liðsfélaga sínum Usman.

3. Jan Blachowicz (2-0)

Jan Blachowicz hefur lengi verið vanmetinn. Hann byrjaði árið á að mæta Corey Anderson í febrúar þar sem flestir töldu að Anderson væri líklegri til sigurs. Jon Jones var viðstaddur bardagann en Anderson hafði haft mikið fyrir því að pota í Jon Jones í viðtölum fyrir bardagann. Anderson ætlaði að láta vel í sér heyra með sigri á Blachowicz fyrir framan Jon Jones en sá pólski steinrotaði hann í 1. lotu.

Fyrir vikið fékk Blachowicz titilbardaga gegn Dominick Reyes. Aftur beindust flest spjót að andstæðingi Blachowicz en Reyes hafði nokkrum mánuðum áður átt magnaða frammistöðu gegn Jon Jones. Reyes var sigurstranglegri hjá veðbönkum og var talað um Reyes sem ókrýndan meistara. Reyes fékk aldrei beltið því Blachowicz rotaði hann í 2. lotu. Magnaðar frammistöður hjá Jan Blachowicz og er hann nú ríkjandi léttþungavigtarmeistari UFC eftir frábært ár.

Embed from Getty Images

2. Kevin Holland (5-0)

Hinn 28 ára gamli Kevin Holland hefur alltaf verið duglegur að berjast. Hann hefur nýtt tímann mjög vel á þessu ári og barist fimm bardaga sem allir hafa unnist. Holland byrjaði árið á sigri gegn Anthony Hernandez í maí, svo gegn Joaquin Buckley í ágúst, svo gegn Darren Stewart í september, svo gegn Charlie Ontiveros í október og loks gegn Jacare í desember. Fjóra bardaga hefur hann klárað en eftir sigurinn á Jacare í desember er hann kominn á topp 10 í millivigtinni. Verður spennandi að sjá hvað hann gerir á næsta ári.

1. Deiveson Figueiredo (3-0-1)

Fluguvigtarmeistarinn er bardagamaður ársins 2020! Figueiredo var tiltölulega óþekktur þegar hann fékk titilbardaga gegn Joseph Benavidez í febrúar. Margir töldu að þetta væri loksins tækifæri fyrir Benavidez til að verða meistari en Figueiredo var ekki á sama máli og kláraði bardagann með rothöggi í 2. lotu. Þar sem Figueiredo náði ekki vigt fyrir þann bardaga var bardaginn bókaður aftur nokkrum mánuðum síðar. Þar var enginn vafi og kláraði Figueiredo Benavidez aftur með rothöggi og tryggði sér beltið.

Frammistaðan gegn Alex Perez í nóvember var einnig frábær og toppaði hann síðan árið með því að berjast aftur þremur vikum síðar gegn Brandon Moreno. Sá bardagi endaði með jafntefli en var einn besti bardagi ársins.

Figueiredo var ekki mikið þekktur í upphafi árs en endar árið sem fluguvigtarmeistari eftir afar farsælt ár.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular