Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaBellator 120 og ólukka þeirra

Bellator 120 og ólukka þeirra

Um nýliðna helgi hélt Bellator sitt fyrsta PPV (e. pay per view) bardagakvöld. King Mo og Rampage áttust við í aðalbardaga kvöldsins en Tito Ortiz, Michael Chandler og Michael Page börðust einnig þetta kvöld.

Í aðalbardaga kvöldsins börðust þeir King Mo og Rampage Jackson. Bardaginn var ekki mikið fyrir augað en Rampage sigraði bardagann eftir umdeilda dómaraákvörðun. Bardaginn varð ekki sú flugeldasýning sem Bellator vonaðist eftir og til að bæta gráu ofan á svart lét King Mo forseta Bellator, Björn Rebney, heyra það í viðtali eftir bardagann.

Rampage king mo
Rampage fékk 10.000 dollara sekt fyrir hegðun sína í vigtuninni af íþróttasambandi Mississippi.

Upphaflega átti aðalbardagi kvöldsins að vera milli Michael Chandler og Bellator meistarans Eddie Alvarez. Því miður fyrir bardagaaðdáendur, Bellator og Alvarez sjálfan fékk Alvarez heilahristing á æfingu stuttu fyrir bardagann og gat því ekki keppt. Alvarez var að æfa með Abel Trujillo og reyndi fellu en rotaðist þegar hausinn hans skall í mjöðm Trujillo, ótrúleg óheppni. Will Brooks kom í hans stað en hann sigraði léttvigtar útsláttarmót Bellator í fyrra. Til stóð að Bellator myndi halda sitt fyrsta PPV í fyrra þegar Rampage og Tito Ortiz áttu að mætast. Þegar Ortiz meiddist ákvað Bellator hins vegar að hætta við þau plön og var bardagakvöldið þess í stað ókeypis á Spike TV. Þetta var því í annað sinn sem aðalbardagi áætlaðs PPV dettur niður.

Will Brooks gerði sér lítið fyrir og sigraði Chandler eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga. Margir vildu meina að bardaginn ætti að vera dæmdur jafntefli en Brooks var krýndur sem sigurvegari. Þetta gerir Bellator erfiðara fyrir að setja upp Alvarez vs. Chandler 3 þar sem Brooks er nú “interim” meistari Bellator. Alvarez getur samkvæmt samningi sínum krafist þess að berjast við Chandler en það verður erfiðara fyrir Bellator að selja Chandler sem einn besta léttvigtarmann heims eftir þetta tap. Trílogían milli Chandler og Alvarez hefði verið meira spennandi hefði Chandler ekki tapað þessum bardaga.

Tito Ortiz sigraði Alexander Shlemenko eftir hengingu í fyrstu lotu. Shlemenko er ríkjandi millivigtarmeistari Bellator en þessi bardagi fór fram í léttþungavigt. Fram að þessum bardaga hafði Shlemenko sigrað 13 bardaga í röð og hefur Bellator reynt að selja Shlemenko sem einn besta millivigtarmann heims. Tap gegn Ortiz gerir það erfiðara að sannfæra bardagaaðdáendur um að Shlemenko sé einn sá besti.

Það má samt ekki gleyma því að Shlemenko er í besta falli stór veltivigtarmaður og var að berjast gegn Tito Ortiz sem hefur ávallt verið talinn fremur stór í léttþungavigtinni. Það verður samt að taka það með í reikninginn að fyrir bardagann hafði Tito Ortiz unnið einn bardaga síðan á UFC 66. Tito Ortiz leit ekki vel út áður en hann náði bardaganum í gólfið og Shlemenko virtist ekki vita hvað hann væri að gera í gólfinu. Það boðar ekki gott fyrir millvigtarmeistara Bellator.

michael page
Michael Page rotar Ricky Rainey.

Það besta við kvöldið var án efa Michael Page. Bretinn hrokafulli fíflaði andstæðing sinn og gerði lítið úr honum áður en hann rotaði hann. Hann hefur nú klárað alla sex andstæðinga sína með stæl og eru væntingarnar til hans að verða ansi miklar. Andstæðingar hans hafa þó ekki verið neinir heimsmeistarar og verður gaman að sjá hann gegn sterkari andstæðingum.

Það er ljóst að Bellator gengur ekki alveg sem skyldi að koma sér á PPV markaðinn. Þeir eru óumdeilanlega næst stærstu bardagasamtök heims um þessar mundir en eru enn langt á eftir UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular