Saturday, April 27, 2024
HomeErlentColby Covington þarf að fá titilbardaga þó við nennum honum ekki

Colby Covington þarf að fá titilbardaga þó við nennum honum ekki

Colby Covington átti frábæra frammistöðu um síðustu helgi þegar hann sigraði Robbie Lawler. Hann reynir eins og hann getur að láta fólk hata sig en enginn getur efast um gæði hans í búrinu.

Colby Covington sigraði Robbie Lawler eftir dómaraákvörðun. Colby vann allar fimm loturnar og var sigurinn aldrei í hættu. Robbie Lawler gerði lítið sem ekkert og réði ekkert við hraðann og stöðuga árás Colby. Þrjár af lotunum fimm fóru aðallega fram standandi en samt tókst Colby að vinna þær lotur. Það var nokkuð sem fáir bjuggust við fyrirfram.

Eins mikið og við vildum sjá Robbie Lawler rota Colby þá átti sá fyrrnefndi bara ekki séns. Colby var geggjaður í búrinu og hefur aftur sýnt að hann er einn besti veltivigtarmaður heims í dag.

Eftir bardagann var Colby samur við sig og kom með smekklaus ummæli um Matt Hughes.

“Let’s talk about the lesson we learned tonight that Robbie should have learned from his good buddy Matt Hughes. You stay off the tracks when the train is coming through, junior.“

Hughes var nær dauða en lífi árið 2017 eftir að bíll hans varð fyrir lest en Hughes tók ummælunum ekki of illa. Hughes er svo sem enginn engill sjálfur og kannski óþarfi að móðgast fyrir hans hönd þó margir hafi gert það.

En þetta var akkúrat það sem Colby vildi. Hann vill gera áhorfendur pirraða, láta fólk hata sig og fá fólkið á móti sér til að það borgi til að sjá hann tapa. Það er svo sem ekkert nýtt í MMA heiminum en munurinn er kannski sá að hann er ekki nógu sniðugur. Hann er ekki jafn fyndinn og Chael Sonnen og Conor McGregor.

Fólk virðist ekki heldur alveg vera að nenna Colby. Hann virðist ekki vera að gera fólk nógu pirrað til að sjá það skila stórum áhorfstölum. Bardagakvöldið á laugardaginn var það fimmta á árinu á aðalrás ESPN og var bardagakvöldið með lægstu áhorfstölurnar af bardagakvöldunum fimm eða um 680.000 áhorf samkvæmt Forbes. Til samanburðar var bardagakvöld Rafael dos Anjos gegn Leon Edwards með um 957.000 áhorf.

Þá gekk miðasala á bardagakvöldið ekkert sérstaklega vel en UFC fékk 687.778 dollara í kassann eftir miðasölu. Það var versta miðasala UFC í New Jersey Devils höllinni í áttundu heimsókn þeirra í höllina. Þetta er líka versta miðasala ársins af ESPN bardagakvöldunum fimm. Colby til varnar má samt taka það fram að bardagakvöldið var snemma í Bandaríkjunum og lítið um þekkt nöfn fyrir utan aðalbardaga kvöldsins.

Colby er heldur ekki að skora hátt á samfélagsmiðlum þar sem hann er mjög hávær en hann er bara með rétt um 80.000 fylgjendur á Twitter. Til samanburðar er Gunnar Nelson með 85.000 fylgjendur á Twitter og hann er ekki mjög hávær þar.

Embed from Getty Images

Stælarnir í Colby eru samt að vekja viðbrögð og fréttir eru skrifaðar um hann en það er enn eitthvað sem vantar í hann. Kannski er hann ekki nógu skemmtilegur sem bardagamaður en það var Chael Sonnen svo sem ekki heldur. Það er eitthvað við hann sem hefur ekki náð að kveikja nógu mikið í áhorfendum.

Kannski eru stælarnir hans líka of augljósir. Það er svo augljóst að hann er að reyna að vera umdeildur og láta fólk líka illa við sig. Hann reynir eins og hann getur að láta fólk hata sig og þetta er bara of mikil áreynsla fyrir hann. Þetta er líka of ófrumlegt hjá honum. Eins ófrumlegt og að labba inn í búrið með Loose Yourself með Eminem. Maður hefur séð þetta oft áður og þetta skilur ekki eftir sig sömu áhrif og þegar maður sá þetta fyrst. Síðan er hann kannski ekkert í alvörunni svona mikill Trump maður enda viðurkenndi hann á dögunum að hann hefði aldrei á ævinni kosið.

Það var síðan áhugavert að sjá aðra hlið á Colby þegar hann spjallaði við ungan aðdáenda.

Það er samt á hreinu að hann er frábær bardagamaður en hvar væri hann án stælanna? Colby var ekki alltaf svona leiðinlegur og var frekar rólegur í flestum viðtölum hér áður fyrr. Kamaru Usman er með frekar óspennandi bardagastíl og honum tókst að fá titilbardaga eftir níu sigra í röð þrátt fyrir að segja lítið utan búrsins. Colby er nú með sjö sigra í röð og fær væntanlega titilbardaga gegn Usman næst.

Á sama tíma sjáum við Leon Edwards vera með átta sigra í röð og hann gleymist oft í umræðunni. Edwards á sennilega smá spöl í titilbardaga þrátt fyrir marga sigra í röð þannig að það er erfitt að segja hvort aðferð Colby sé raunverulega að skila honum einhverju innan UFC.

UFC verður að gefa honum titilbardaga vegna afreka hans í búrinu – ekki vegna persónuleika hans. Bardaginn gegn Usman verður áhugaverður þar sem stílar þeirra eru nokkuð svipaðir. Það gæti samt orðið eldfimur aðdragandi með Trump manninn Covington gegn innflytjendanum frá Nígeríu.

Colby er ekki skemmtilegur, stælarnir hans eru fyrirsjáanlegir og fólk virðist ekki vera að kaupa þetta. Hann verður samt að fá titilbardaga vegna afreka hans í búrinu. Hann hefur gert nóg í búrinu til að eiga skilið að fá titilbardaga, eins þreytandi og ljótur sem aðdragandinn að Usman bardaganum kann að vera.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular