0

Daði Steinn: Þetta er bara belti

Mynd af Facebook síðu VBC.

Daði Steinn Brynjarsson var á dögunum gráðaður í svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Þeir Bruno Matias og Robson Barboza gráðuðu Daða í svart belti í apríl en þar með varð hann 11. Íslendingurinn sem nær þessum áfanga.

Daði hefur lengi verið einn færasti glímumaður landsins en hann er yfirþjálfari glímunnar í VBC í Kópavogi. Daði hefur verið brúnt belti um nokkurt skeið og var farinn að búast við að svarta beltið væri á leiðinni.

„Ég vissi að það væru umræður í gangi varðandi beltið en ég fékk ekki að taka þátt í þeim. Ýmir [Vésteinsson] hafði talað við Robson og Bruno um þetta og þeir tóku vel í það. Þeir höfðu komið tvisvar áður en þeir gáfu mér beltið og vissu hver geta mín væri sem glímumaður og þjálfari,“ segir Daði.

„Mér leið auðvitað vel þegar ég fékk beltið. Ég hef verið að vinna að þessu í 8 ár og það er alltaf gaman að ná markmiðum sínum. En með hverju belti hefur spenningurinn minnkað. Þetta var soldið anticlimactic, þetta er bara belti. Á sama tíma þykir mér þetta mikil viðurkenning og er stoltur.“

Daði hefur alltaf haft mikla ástríðu fyrir að kenna jiu-jitsu. Svarta beltið var ekki alltaf ákveðið markmið hjá honum en hann vissi þó að þetta væri gerlegt markmið. „Þetta var alls ekki markmiðið fyrst. Ég er ekkert rosalega góður að hugsa svo langt fram í tímann, þetta var gaman og tæknilegi þátturinn dró mig inn í glímuna. Ég vildi bara læra. Það var samt aldrei vafi um að það væri gerlegt. Ég vissi alltaf að ég gæti náð því, það var frekar spurning hvort ég myndi stunda íþróttina nógu lengi. Þegar ég fór svo að kenna BJJ, þá fyrst vissi ég að ég mundi endast í þessu.“

Brasilískt jiu-jitsu er enn nokkuð ung íþrótt hér á landi en getustigið fer ört vaxandi. Daði telur þó að flesta BJJ iðkendur hér á landi skorti færni í standandi glímu. „Það er því miður lítil sem engin wrestling þekking hérlendis og er erfitt að finna þjálfara sem skilur muninn á íþróttunum. Það eru hins vegar margir fyrirmynda júdó menn og konur sem hafa gert gott fyrir BJJ á Íslandi. Anna Soffa hjá Draupni, Axel hjá Mjölni, Ingþór hjá Fenri og Guðmundur hjá Sleipni, ásamt fleirum, hafa öll haft góð áhrif á íþróttina hvað varðar standandi glímu. Wrestling er mikilvægt hvort sem þú telur þig vera topp eða botn spilara. Það hjálpar við að tryggja topp stöðu þegar byrjað er standandi og að snúa stöðunni við þegar þú ert undir í guard. Sérstaklega í nogi, nogi opið guard byggist mikið á wrestling.“

Þá er sú staðreynd að við erum á 350.000 manna eyju ekki að hjálpa BJJ-senunni hér á landi. „Stærstu gallar við senuna á Íslandi koma útfrá staðsetningu. Það er erfitt og dýrt að stunda íþróttina af viti. Það kostar mikið að fara út að keppa, það kostar mikið að fá fólk inn að kenna, það er enginn þjálfari með sterkan keppnisferil og það er langt að leita í nýja æfingafélaga. Það eru svo fáir að stunda íþróttina á góðu leveli og því keppa alltaf allir við sama fólkið.“

„Það er fullt fleira sem hægt væri að lista upp en flest þeirra er að lagast og er senan sífellt að verða betri. Sportið styrkist með hverju ári og hafa margir flottir einstaklingar verið að gera góða hluti undanfarið, t.d. Halldór Logi og Ómar Yamak sem stóðu sig frábærlega á sterku móti um daginn, Eiður Sigurðsson sem stofnaði nýjan glímuhóp fyrir stuttu og mót eins og Bolamótið með flott show. Ólöf Embla sem hefur unnið mikið í að styrkja kvennastarfið á Íslandi og svo aðrir sem hafa verið duglegir að styrkja starfið hérlendis eða jafnvel sótt til þekkingar erlendis eins og Guðrún Björk, Sigurpáll Albertsson og svo Katla Hrund sem æfir í Damnörku en hún hefur verið að standa sig vel á mótum erlendis og mun vonandi deila þekkingu sinni þegar hún kemur heim. Allt þetta hefur jákvæð áhrif á uppbyggingu sportsins og býður upp á fleiri möguleika í framtíðinni.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.