spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLitið um öxl eftir UFC 189

Litið um öxl eftir UFC 189

geggjuð myndFyrir rúmu ári síðan fór UFC 189 fram. Conor McGregor sigraði þá Chad Mendes í frábærum bardaga og átti Gunnar Nelson einnig frækinn sigur það kvöld. Bardagakvöldið var eitt það besta í manna minnum en nú þegar ár er liðið frá bardagakvöldinu lítum við yfir farinn veg.

UFC 189 fór fram þann 11. júlí í MGM Grand Arena í Las Vegas. Kvöldið var hápunkturinn á International Fight Week sem UFC heldur árlega í Las Vegas í júlí. Í ár var UFC 200 hápunktur International Fight Week en óhætt er að segja að hápunkturinn hafi verið stærri í fyrra en í ár.

Til að byrja með var vigtunin fyrir UFC 189 sú stærsta sem haldin hafði verið í UFC. 10.000 manns horfðu á bardagamenn fækka fötum en síðan þá hafa um 10.000 manns fylgst með í hvert sinn sem Conor McGregor vigtar sig inn.

Bardagakvöldið í heild sinni var hlaðið af áhugaverðum bardögum. Kvöldið byrjaði þó ekkert alltof vel en fyrstu fimm bardagar kvöldsins fóru allar þrjár loturnar og var fjörið full lítið. Í síðasta bardaganum áður en aðalhluti bardagakvöldsins byrjaði mættust þeir Tim Means og Matt Brown. Óhætt er að segja að sá bardagi hafi sparkað fjörinu í gang.

Means og Brown skiptust á olnbogum þangað til Means féll niður og tókst Brown að klára Means með uppgjafartaki. Eftir það fengum við fimm frábæra bardaga og einhver besta röð bardaga sem sést hefur í UFC.

Í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins mættust þeir Brad Pickett og Thomas Almeida. Þessi bardagi var alltaf að fara að verða skemmtilegur og sú var raunin. Pickett kýldi Almeida niður en Almeida kom sterkur til baka og rotaði Pickett með fljúgandi hnésparki í 2. lotu.

thomas almeida ko gif

Þar á eftir var komið að okkar manni – Gunnari Nelson. Hann mætti sparkboxaranum hættulega Brandon Thatch og var fyrirfram talað um að Gunnar ætti að taka þetta í gólfið sem fyrst. Gunnar gerði það tiltölulega snemma en öðruvísi en menn bjuggust við. Gunnar kýldi Thatch niður með frábærri fléttu og kláraði hann svo með uppgjafartaki í 1. lotu. Gríðarlega sannfærandi sigur.

Þar sem bardagakvöldið var svo stórt og mikið af flottum bardögum féll sigur Gunnars kannski eilítið í skuggann á öðrum tilþrifum kvöldsins. Eðlilega var meira talað um Conor og auðvitað magnaðan bardaga Rory MacDonald og Robbie Lawler. Það var kannski eini ókosturinn við að vera á svona stóru bardagakvöldi. Það má þó ekki gleyma því að gríðarlegt áhorf var á UFC 189 og sendi Gunnar þarna skýr skilaboð til veltivigtarinnar.

Eins og flestir vita fékk Gunnar aftur stóran bardaga næst og það gegn Demian Maia. Því miður tapaði okkar maður þar en kom svo virkilega sterkur til baka þegar hann sigraði Albert Tumenov í maí. Þar sannaði hann að fléttan gegn Brandon Thatch var engin tilviljun – hann getur vel staðið með hættulegum sparkboxurum.

gunnar nelson thatch knockdown

Á eftir Gunnari fengum við enn einn frábæra bardagann. Jeremy Stephens og Dennis Bermudez mættust í algjöru stríði þar sem Stephens sigraði eftir fljúgandi hné. Það er ekki oft sem við fáum rothögg eftir fljúgandi hné, hvað þá tvö á sama kvöldi!

Næst var komið að fyrri titilbardaga kvöldsins á milli Rory MacDonald og Robbie Lawler. Fyrirfram var búist við að þetta yrði tæknilegur og kannski hægur bardagi. Hann var það fyrstu tvær loturnar en svo breyttist þetta í stríð. Kapparnir skiptust á að kýla, sparka og olnboga hvorn annan og ætlaði hvorugur að brotna. Augnablikið eftir 4. lotu þegar þeir standa og horfa á hvorn annan verður lengi í manna minnum. Það var svo í 5. lotu sem Rory MacDonald gaf sig. Sársaukinn í alblóðugu nefinu var of mikill og tókst Lawler að verja beltið sitt. Einn besti bardagi í sögu UFC.

Það fossaði blóði úr nefi Rory MacDonald en samt var þetta ein besta kvöldstund lífs hans. Þetta tíst hans er ógleymanlegt og ekki að ástæðulausu sem hann er kallaður „The Canadian Psycho“ af aðdáendum.

Þeir Rory og Lawler áttu líka góða stund saman á spítalanum og bera mikla virðingu gagnvart hvor öðrum.

robbie og rory

Toppurinn á kvöldinu var auðvitað bardagi Chad Mendes og Conor McGregor. Conor sigraði með tæknilegu rothöggi í lok 2. lotu í frábærum bardaga. Chad Mendes kom inn með skömmum fyrirvara og náði góðum fellum gegn Conor í bardaganum. Conor var samt alltaf tilbúinn að veita skaða um leið og hann komst upp.

Skrokkhöggin frá Conor og skammur undirbúningur Mendes höfðu áhrif á Bandaríkjamanninn sem var orðinn vel þreyttur í 2. lotu. Gríðarlegur fjöldi Íra fagnaði í höllinni með Conor er hann sigraði Mendes. Þetta var stærsta prófið á ferlinum og stóðst hann það þrátt fyrir erfiðleika í undirbúningi. Síðar kom í ljós að Conor hafi slitið 80% af krossbandi sínu nokkrum vikum fyrir bardagann og gat hann nánast ekkert glímt.

Stjarna Conor varð enn stærri eftir sigurinn. Hann hafði staðið sig ótrúlega vel í allri kynningu á bardagakvöldinu í nokkrar vikur og naut UFC góðs af því. Maðurinn gæti í raun verið rokkstjarna en sem betur fer fyrir okkur er hann bardagaíþróttamaður.

Vissulega gengur hann oft of langt í skítkasti í garð andstæðingsins en hvort sem þú hatar hann eða elskar hann er alltaf gaman að fylgjast með svona mönnum. UFC 200 olli sumum vonbrigðum en óhætt er að segja að UFC 189 hafi staðið undir væntingum. Þetta var ógleymanlegt kvöld og þá sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem fengu að sjá Gunnar sigra á glæsilegan hátt.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular