spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMaðurinn á bakvið linsuna: Kjartan Páll Sæmundsson

Maðurinn á bakvið linsuna: Kjartan Páll Sæmundsson

Kjartan Páll Sæmundsson hefur smellt ófáum myndum af bardagafólkinu okkar. Þar sem Kjartan er nú hættur sem formlegur ljósmyndari Mjölnis fannst okkur tilvalið að rifja upp hans uppáhalds myndir og augnablik.

Kjartan Páll var þó ekki bara ljósmyndari Mjölnis heldur sá hann um öll miðlunartæki Mjölnis hvort sem það voru ljósmyndir, myndbönd, samfélagsmiðlar og fleira. Hann hefur tekið myndir á sögulegum UFC bardögum, Invicta bardagakvöldi og mörgum öðrum minni bardagasamtökum þar sem bardagafólk Mjölnis berst.

Kjartan ákvað að hætta sem „media“ gæji Mjölnis þar sem starfið er ekki alveg nógu fjölskylduvænt enda þarf Kjartan að fara í margar ferðir erlendis árlega við að taka myndir og myndbönd. Við settumst því niður með honum á dögunum og fórum yfir hans uppáhalds myndir.

„Þessi mynd er alltaf í uppáhaldi. Þarna er Mikael [Leó Aclipen, upprennandi bardagamaður] að horfa á goðin. Hann langar að verða MMA bardagamaður og þarna ganga goðin, íslenska goðið og líka stærsta goð MMA heimsins í dag. Æðisleg mynd,“ segir Kjartan.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þessi var tekin á EVE kvöldinu þegar Gunni glímdi við EVE strákana. Mér hefur alltaf fundist þessi ógeðslega flott. Staðan á þeim, lýsingin og hvernig gólfið er, bara allt flott við hana. Hún er líka symmetrísk en ég tek sjaldan symmetrískar myndir. Maður er oftast búinn að snúa vélinni eitthvað eða taka vinkil og oftast úr symmetríu. Það er kannski það sem heillar mig við þessa mynd.“

conor mcgregor jose aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þessa held ég augljóslega mikið upp á. Þetta er bara partur af miklu ævintýri. Það eru örugglega til 100 myndir af Conor að rota Aldo en ég á eina þeirra. Og það fyndna er að þetta gerðist svo snöggt að ég man ekki eftir að hafa tekið þær. Ég greip andann á lofti, kíkti á vélina og fletti í gegn og hugsaði; ‘vó, náði ég þessu?’“

„Ég náði ekki þegar hnefinn er að lenda á andlitinu en þarna er Aldo bara að hrynja niður. Það er líka eins og Conor sé að blessa hann, ‘farðu niður’ og fæturnir eins og spagettí. Þetta var auðvitað söguleg stund fyrir alla og sjálfan mig líka. Ég er þarna einn af 12 ljósmyndurum sem komst þarna að. Ljósmyndarar frá Getty allt í kringum mig og risastórir gæjar, ótrúlegt.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þessi er svona iconic í mínum huga. Hin EVE myndin er flott en þessi er æðisleg. Ég held mjög mikið upp á þessa og hef alltaf gert. Þetta var líka mjög skemmtilegt kvöld, bara allt dótið í kringum þetta.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þetta er bara svo mikil liðsmynd. Upprennandi fighterinn sem er að gera góða hluti, legendið Gunni, pabbi hans, þjálfarinn, Árni Ísaks legend, þetta er bara legendary mynd! Ég fór á hnén til að ná skjánum, til að fá meiri dínamík í myndina. Án skjásins væri hún góð en skjárinn á bakvið gefur þessu smá extra.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þetta er uppáhalds myndin mín samhliða Gunna myndinni frá EVE. Þessi mynd er tekin á járnun en þarna er Sunna Rannveig að fá fjólubláa beltið í jiu-jitsu. Myndin segir svo margt hvað þetta fólk er að leggja mikið á sig til að ná þeirri viðurkenningu að fá belti. Þarft að leggja svo mikið á þig og það er miklu meira en að segja það. Járnanirnar eru eitt af mínum uppáhalds myndefnum. Þá eru myndefni út um allt, alls staðar!“

„Þarna er Sunna að horfa beint í vélina í ógeðslega óþægilegri stöðu, undir einhverju sveittu rassgati. Þessi mynd segir bara allt sem segja þarf um þetta ferli. Það er líka húmor í henni en þetta er líka svona had to be there, að finna svitann og andrúmsloftið í kringum járnunina til að virkilega finna fyrir myndinni. Þetta er svo mikil þrekraun og auðvelt að taka góðar myndir í járnun.“

Gunnar Nelson Demian Maia
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þetta var erfitt kvöld en ótrúlega lærdómsríkt ferli að tapa og gott fyrir Íslendinga að sjá að Gunni er ekki óbrjótanlegur. Ég man að ég náði þessari mynd, þar sem hurðin þar sem keppendur ganga út er að opnast eftir að bardaganum er lokið og þá er ekkert búr eða net fyrir. Þarna náði ég að skjóta rétt svo á milli dyrastafsins og löpp á dómaranum.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Önnur mynd sem er tekin í gegnum hurðina. Þarna er Chris Weidman nýbúinn að tapa fyrir Luke Rockhold á UFC 194. Það verður oft mikil dramatík í kringum þessar myndir. Weidman á milli hurðarstofnsins og dómara en ef það eru einhverjir sem eru snillingar að eyðileggja myndir, þá eru það dómarar.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þessi er tekin á hótelinu í Rotterdam, nokkrum dögum fyrir bardagann gegn Albert Tumenov. Þetta er skemmtileg mynd og lýsingin er flott. Bara gaman hvað Gunni er að gera, var kominn með fínan lubba en ákvað allt í einu að snoða sig bara með skeggsnyrti. Þarna er bardagaklippingin komin og þetta er svona undirbúningur fyrir átök.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

„Þessi einstaka mynd er ekkert endilega í uppáhaldi. En allt þetta ferli, að fylgja þeim eftir sem eru að keppa, documenta þetta og fylgjast með gerir þetta stærra. Þarna er Egill að vinna þennan Tencho Karaenev á EM sem hann hafði tapað fyrir síðast á EM. Maður var búinn að fylgja honum eftir þetta ár síðan hann tapaði fyrir honum í Birmingham og allt sem fylgdi því. Öll þessi uppbygging og að mæta honum svo aftur og að vinna hann, það gefur myndinni svo ógeðslega mikið fyrir mig. Í mínum huga er hún með hellings innihald. Ég var með frekar óþægilegan vinkil á þetta, til hliðar og með netinu. Það er mikið net inn á myndinni og löppin á dómaranum fyrir, en þetta augnablik var bara svo frábært.“

„Mér finnst þetta kraftmikil mynd, ekki gott augnablik en mikilvægt. Það að Gunni virðist vera horfa beint í vélina og mér fannst bara rosalega erfitt að taka myndir af þessum bardaga. Mig langaði helst að leggja frá mér vélina og byrja að hvetja Gunna áfram, manni leið illa með þetta allt og það var erfitt að taka myndir. Fannst hann ekki vera hann sjálfur og mér finnst ég sjá það í augunum á honum á þessari mynd. En að þrauka þrjár lotur þar sem Maia er með þig í bodytriangle er náttúrulega magnað.“

Ferðirnar í heild sinni

Þetta eru magnaðar myndir og á Kjartan margar fleiri myndir sem eru í uppáhaldi en þessar standa upp úr af ólíkum ástæðum. Ferðirnar hafa verið margar og var ekki auðvelt að velja uppáhalds myndir.

„Myndasyrpurnar sem ég gef frá mér finnst mér oft vera ein mynd. Júlí syrpan í Las Vegas er í uppáhaldi en engin ein mynd þar er uppáhalds myndin mín. Það sama með syrpuna þegar Conor var á Íslandi í apríl.“

„Það gefur manni líka svo mikið að vera að fylgja einhverjum eftir, documenta það og gefa svo út svona bakvið tjöldin myndir. Þegar maður er kominn upp við búrið ertu að taka eitthvað upp sem allir sjá. Þá ertu bara að leita að vinklum sem brjóta þetta allt upp. Þess vegna eru svona syrpur eins og Vegas syrpan sem eru í upáhaldi.“

Þrátt fyrir að hafa verið aðeins nokkrum metrum frá mögnuðum bardögum finnst Kjartani eins og hann hafi ekkert endilega séð þessa bardaga. „Ég held ég hafi ekki séð neitt af þessu. Maður er svo mikið að spá í hvort fókusinn sé réttur, bíða eftir réttu augnabliki og svona. Þannig að ég er ekki búinn að sjá neitt af þessum bardögum þrátt fyrir að vera svona nálægt. Maður er nokkrum metrum frá þessu en samt er maður ekki að sjá þetta.“

„Ég gat þó aðeins notið bardagana stundum þegar þeir skiptu ekki eins miklu máli, þ.e. þegar það var ekki Gunni eða Conor að keppa. Ég gat aðeins notið þess að horfa á Weidman og Rockhold, ég fékk bara svitagusurnar yfir mig. Það var crazy að horfa á það og heyra hljóðin í hvor öðrum.“

Kjartan á sér þó sitt uppáhalds kvöld og var það UFC bardagakvöldið í Dublin í júlí 2014. Þar barðist Gunnar Nelson við Zak Cummings og Conor McGregor við Diego Brandao. „Það er uppáhalds ferðin. Þetta var fyrsta UFC-ferðin hjá mér, engu líkt, brjáláður hávaði í höllinni, áhorfendur að kasta bjórglösum út um allt og maður var allur út í bjór eftir brjáluð fagnaðarlæti Íranna. Þetta var rosalegt! Það unnu líka allir, Gunni, Conor, Cathal [Pendred] og Paddy [Holohan]. Maður var bara ógeðslega stressaður að mynda en þetta var ógleymanlegt kvöld.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular