0

Rory MacDonald grunar Robbie Lawler um ólöglega lyfjanotkun

Rory MacDonald samdi í síðustu viku við Bellator eftir að hafa verið í UFC um árabil. MacDonald var gestur í The MMA Hour á mánudaginn og hafði ýmislegt að segja um Bellator, Reebok og Robbie Lawler bardagann fræga.

Samningur Rory MacDonald við UFC rann út eftir viðureign hans við Stephen Thompson í júní. MacDonald átti í samningaviðræðum við UFC en Bellator bauð betur og samdi MacDonald við Bellator á dögunum.

MacDonald hefur tapað tveimur bardögum í röð en er án efa einn besti veltivigtarmaður heims. Bardaginn gegn Robbie Lawler á UFC 189 þann 11. júlí 2015 er einn besti bardagi sögunnar en þar var MacDonald nálægt því að ná beltinu. Lawler tókst þó að klára MacDonald í 5. lotu og varð nef hans fyrir miklu tjóni.

Eitt það athyglisverðasta við viðtalið hér að ofan eru ummæli Rory MacDonald um bardagann fræga. MacDonald grunar að Robbie Lawler hafi neytt ólöglegra efna eða frammistöðubætandi efna í aðdraganda bardagans. MacDonald vildi ekki fara ítarlega í málið þar sem hann hafði nýlega fengið fréttir af grunsamlegum niðurstöðum lyfjaprófs Lawler fyrir bardagann.

Á hann þar væntanlega við að Lawler hafi verið með óvenju hátt magn af gulbúsörvandi hormónum (e. Luteinizing Hormone, hér eftir kallað LH). Í lyfjaprófi Lawler þann 5. júní mældist LH hans 64.2 mlU/mL en LH yfir 20 mlU/mL þykir óvenjulegt í lyfjastefnu WADA (World Anti Doping Agency).

Þetta var áður en samstarf USADA og UFC hófst og var lyfjaprófið undir NAC (íþróttasambandi Nevada fylkis) en framkvæmt af SMRTL rannsóknarstofunni. NAC tók Lawler í annað lyfjapróf þann 17. júní en þar var magnið af LH talsvert eðlilegra eða 12,9 mlU/mL.

MacDonald vildi þó skoða þetta betur áður en hann fer að ásaka Lawler um inntöku frammistöðubætandi efna en virðist gruna Lawler um að vera með óhreint mjöl í pokahorninu. Benti hann einnig á að Lawler æfir hjá American Top Team en þar æfa menn á borð við Gleison Tibau, Yoel Romero og Hector Lombard sem allir hafa fallið á lyfjaprófum.

Ian Kidd hjá Bloody Elbow skoðaði málið nánar og telur að niðurstöður lyfjaprófs Lawler fyrir bardagann á UFC 189 hefði ekki átt að koma í veg fyrir bardagann. Það er undarlegt að Lawler hafi verið með svo hátt magn LH en það þarf ekki endilega að gefa til kynna að Lawler hafi notað frammistöðubætandi efni. Lawler stóðst öll lyfjapróf og var ekkert sem benti til að hann hefði notað frammistöðubætandi efni. Þá var ekkert óvenjulegt við lyfjapróf hans kvöldið sem bardaginn fór fram.

LH örvar framleiðslu testósteróns en nánar má lesa um LH hér.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply