Yfirferð okkar um alla þyngdarflokkana í UFC er nú nánast lokið. Kvennaflokkarnir tveir eru þeir einu sem eru eftir en í dag skoðum við stöðuna í strávigtinni.
Þyngdarflokkurinn (125 pund – 52 kg)
Strávigt kvenna er nýjasti þyngdarflokkur UFC. Þyngdarflokkurinn var settur á laggirnar í fyrra með 20. seríu The Ultimate Fighter þar sem 16 konur börðust um að verða fyrsti strávigtarmeistari UFC. Carla Esparza tryggði sér titilinn með sigri í desember í fyrra en hún kom inn í seríuna sem sú sigurstranglegasta enda var hún ríkjandi meistari Invicta samtakanna. Henni tókst þó ekki að verja beltið sitt og tapaði titlinum til Joanna Jedrzejczyk og leit hrikalega illa út þar.
Meistarinn
Eins og áður sagði sigraði Joanna Jedrzejczyk titilinn af Carla Esparza. Jedrzejczyk gjörsigraði Esparza og var bardaginn gríðarlega einhliða. Jedrzejczyk hefur varið beltið einu sinni síðan og er orðin gríðarlega vinsæl meðal bardagaaðdáenda. Hún hefur mikla persónutöfra og er algjört skrímsli í búrinu.
Næstu áskorendur
Claudia Gadelha er sú næsta í röðinni fyrir Jedrzejczyk en stelpurnar mættust í desember í fyrra þar sem sú pólska fór með sigur af hólmi í gríðarlega jöfnum bardaga. Jedrzejczyk sigraði eftir klofna dómaraákvörðun en margir töldu að Gadelha hefði átt að fá sigurinn dæmdan sér í vil. Þær munu mætast aftur síðar á árinu eftir að Gadelha sigraði Jessica Aguilar um síðustu helgi. Það er þó heill hellingur af keppendum sem geta blandað sér í titilbaráttuna eins og Michelle ‘The Karate Hottie’ Waterson, Tecia Torres og Rose Namajuanas.
Hversu líklegt er að við fáum nýjan meistara?
Takist Jedrzejczyk að sigra Gadelha í annað sinn má ætla að hún muni halda beltinu lengi. Það eru fullt af hæfileikaríkum keppendum í þyngdarflokknum en Gadelha gæti verið með erfiðasta stílinn fyrir Jedrzejczyk. Sú pólska á mikla framtíð fyrir sér og gæti orðið risastór stjarna ef hún heldur áfram á sömu braut.
Mikilvægir bardagar framundan
Það er lítið um mikilvæga bardaga framundan. Þær einu á topp 15 á styrkleikalista UFC sem eru með bardaga eru þær Paige Van Zant og Maryna Moroz. Paige Van Zant (#8) gæti orðið stór stjarna í UFC en hún mætir Alex Chambers á UFC 191. Maryna Moroz (#7) mætir Valerie Letourneau síðar í mánuðinum en Moroz skaust óvænt fram á sjónarsviðið eftir sigur á Joanne Calderwood.
Hverjar eru efnilegar?
Þar sem strávigtin er svo ný af nálinni er heill hellingur af efnilegum keppendum í flokknum. Tecia Torres, Paige Van Zant, Joanne Calderwood, Maryna Moroz og Rose Namajuanas eru allt ungar stelpur sem eru tiltölulega óreyndar í MMA. Það má búast við mikilli bætingu hjá þeim á næstu árum og geta þær allar komist langt í UFC.
Einhverjar hættulegar utan UFC?
UFC hefur gert vel í að semja við þær sterkustu í þyngdarflokkunum sérstaklega í ljósi samstarfs þeirra við kvennabardagasamtökin Invicta. Í Invicta eru þó fullt af frambærilegum keppendum á borð við strávigtarmeistarann Livia Renata Souza, Deanna Bennett og Alex Grasso en allar eru þær ósigraðar á ferlinum.