Eitt af því sem MMA aðdáendur kvarta gjarnan yfir er þegar bardagamenn eru látnir berjast strax aftur. Áður fyrr var þetta mjög sjaldgæft fyrirbæri en hefur orðið æ algengara í UFC á undanförnum árum.
Hérna erum við að tala um þessa svo kölluðu „immediate rematches“ sem við höfum svo oft séð. Það er svo margt sem mælir gegn því að berjast við sama andstæðinginn aftur og aftur. Ef barist er um titil er þyngdarflokkurinn settur á pásu í marga mánuði á meðan tveir aðilar útkljá málin sín á milli. Í tilfelli Conor McGregor og Nate Diaz er ekki keppt um titil en beltinu í fjaðurvigt er haldið í gíslingu á meðan. Það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem hafa unnið sig upp í efstu sæti í þeim þyngdarflokki.
Ástæðan fyrir því að berjast aftur er oft mjög loðin ákvörðunin og ógagnsæ. Stundum var bardaginn mjög jafn og áhorfendur ósammála niðurstöðunni. Stundum var bardaginn einfaldlega svo góður að allir vilja sjá hann aftur. Í öðrum tilvikum voru úrslitin svo óvænt að menn vilja sjá hvort að tilviljun hafi ráðið úrslitum. Í tilfelli Luke Rockhold gegn Chris Weidman er erfitt að sjá góða ástæðu fyrir öðrum bardaga en það er einmitt vandamálið.
Hver svo sem ástæðan fyrir öðrum bardaga kann að vera er ljóst að það er mikið ósamræmi í ákvarðanatöku UFC. Af hverju fékk t.d. Anderson Silva að berjast strax aftur um beltið sem hann glataði gegn Chris Weidman á meðan Jose Aldo hefur ekkert slíkt tækifæri fengið eftir að hafa verið eini meistarinn í þyngdaflokknum frá upphafi og efstur á pund fyrir pund lista UFC?
Einfaldasta og besta lausnin á þessu er sú að hætta þessu athæfi alfarið. Ef áhorfendur eða bardagamenn eru ósáttir við niðurstöðu dómara eða úrslitin almennt verða þeir hreinlega að halda áfram ferlinum og vona að þeir mætist aftur við betra tækifæri.
Förum yfir sögu UFC í þessu samhengi og skoðum hvað gerðist hverju sinni. Látið okkur endilega vita ef við erum að gleyma einhverjum bardaga.
UFC 34, 2. nóvember 2001 – Randy Couture gegn Pedro Rizzo
Þessir kappar mættust fyrst á UFC 31. Randy Couture var meistarinn í þungavigt eftir að hafa tekið beltið frá Kevin Randleman. Couture sigraði fyrsta bardagann á stigum eftir fimm erfiðar lotur. Bardaginn var af mörgum valinn bardagi ársins árið 2001 og var það (sem og umdeildur úrskurður dómaranna) helsta ástæðan fyrir því að þeir börðust strax aftur. Í öðrum bardaganum beitti Couture annarri nálgun og sigraði örugglega með „ground and pound“.
UFC 49, 21. ágúst 2004 – Randy Couture gegn Vitor Belfort
Fyrsti bardaginn á milli þessara tveggja var sama ár á UFC 46. Randy Couture tapaði þá titlinum í léttþungavigt eftir umdeilt atvik. Vitor Belfort reyndi högg sem meiddi Couture á auga svo dómarinn varð að stoppa bardagann eftir aðeins 54 sekúndur. Í þessu tilviki var annar bardagi verðskuldaður og niðurstaðan varð allt önnur. Couture stjórnaði bardaganum allan tímann, lúbarði Belfort með höggum í gólfinu en að lokum var það læknirinn sem stöðvaðinn bardagann eftir þriðju lotu út af ljótum skurði á höfði Belfort.
UFC 61, 8. júlí 2006 – Tim Sylvia gegn Andrei Arlovski
Fyrsti bardaginn á milli Tim Sylvia gegn Andrei Arlovski fór fram á UFC 59 í apríl árið 2006. Arlovski hafði þá tapað titilinum í þungavigt í villtum þriggja mínútna bardaga sem Arlovski var á leiðinni að vinna þegar Sylvia kom inn góðu gagnhöggi og sigraði með höggum á gólfinu. Það var víst Sylvia sem óskaði eftir öðrum bardaga sem varð að veruleika þremur mánuðum síðar. Í þetta skipti sigraði Sylvia á stigum í bardaga sem þótti frekar leiðinlegur.
UFC 113, 8. maí 2010 – Shogun Rua gegn Lyoto Machida
Eftir að hafa tekið beltið í léttþungavigt af Rashad Evans varði Lyoto Machida það gegn Shogun Rua á UFC 104. Machida sigraði á stigum en úrskurður dómaranna var mjög umdeildur sem varð til þess að þeir mættust aftur um hálfu ári síðar. Fyrsti bardaginn var tæknileg barátta en sá seinni nánast aftaka. Shogun stökk á Machida með fléttum í stuttum en hröðum árásum sem skiluðu honum rothöggi í fyrstu lotu.
UFC 116, 3. júlí 2010 – Stephan Bonnar gegn Krzysztof Soszynski
Þessir mættust fyrst á UFC 110. Sá bardagi lofaði góðu en endaði á leiðinlegan hátt er höfuð þeirra skullu saman með þeim afleiðingum að Bonnar gat ekki haldið áfram sökum skurðar. Þar sem flestir vildu sjá bardagann var hann settur saman aftur. Bardaginn var blóðugt stríð sem var valinn besti bardagi kvöldsins og endaði með sigri Bonnar með rothöggi.
UFC 118, 28. ágúst 2010 – Frankie Edgar gegn B.J. Penn
Eftir að hafa valtað yfir Kenny Florian og Diego Sanchez mætti B.J. Penn hinum vinnusama Frankie Edgar á UFC 112. Fæstir gáfu Edgar möguleika og áhorfendur áttu erfitt með að trúa því þegar Edgar útboxaði Penn og sigraði á stigum. Þeir voru því látnir berjast strax aftur um fjórum mánuðum síðar en niðurstaðan var sú sama. Í seinni bardaganum voru yfirburðir Edgar enn skýrari og enginn vafi var á að hann var verðskuldaður meistari í léttvigt.
UFC 136, 8. október 2011 – Frankie Edgar gegn Gray Maynard
Eftir að hafa afgreitt B.J. Penn barðist Frankie Edgar næst við Gray Maynard á UFC 125. Sá bardagi var algjört stríð sem endaði með jafntefli eftir að Maynard hafði næstum rotað Edgar nokkrum sinnum. Bardaginn var valinn af mörgum bardagi ársins. Annar bardagi (í rauninni sá þriðji en þeir höfðu mæst þremur árum áður) var því settur á svið síðar á sama ári. Að þessu sinni var enginn vafi er Edgar rotaði Maynard í fjórðu lotu og varði beltið sitt.
UFC on FX 3, 8. júní 2012 – Demetrious Johnson gegn Ian McCall
Fyrir þá sem ekki muna þá var fluguvigtin í UFC sett saman árið 2012 með fjögurra manna móti. Í fyrstu umferð mættust þeir Demetrious Johnson og Ian McCall á UFC on FX 2. Þar sem jafntefli var óheppilegasta úrkoman varð það auðvitað niðurstaðan enda eru MMA guðirnir sjaldan með í ráðum þegar mót eru sett saman. Til að bæta úr þessu urðu þessir tveir að mætast aftur til að knýja fram sigurvegara. Johnson sigraði á stigum og hefur ekki tapað síðan. Eins og þeir segja, „the rest is history“.
UFC 150, 11. ágúst 2012 – Frankie Edgar gegn Ben Henderson
Næstur á dagskrá hjá Frankie Edgar var fyrrverandi WEC meistari Ben Henderson. Fyrsti bardaginn var á UFC 144 þar sem Henderson sigraði á skorspjöldum dómaranna en bardaginn var nokkuð jafn og ekki allir sammála um niðurstöðuna. Næsti bardagi á UFC 150 átti að skera úr um hvor væri betri en niðurstaðan var í raun sú sama. Henderson sigraði á klofnum dómaraúrskurði og Edgar fór í fýlu.
UFC 168, 28. desember 2013 – Chris Weidman gegn Anderson Silva
Það þarf sennilega ekki að rifja upp þessar viðureignir fyrir MMA aðdáendum. Fyrst rotaði Chris Weidman Anderson Silva á UFC 162 öllum til mikillar furðu. Þar sem Silva var talinn nær ósigrandi og sigur Weidman álitinn af mörgum ákveðin heppni voru þeir látnir berjast strax aftur sem endaði með hræðilegu fótbroti Silva.