Saturday, April 27, 2024
HomeErlentVerður Israel Adesanya fyrir barðinu á tölvuleikjabölvun EA Sports?

Verður Israel Adesanya fyrir barðinu á tölvuleikjabölvun EA Sports?

Israel Adesanya mætir Paulo Costa í aðalbardaga kvöldsins á laugardaginn á UFC 253. Adesanya er ósigraður en það gæti breyst á laugardaginn.

Mikil spenna er fyrir bardaga Costa og Adesanya en báðir eru ósigraðir. Millivigtarmeistarinn Israel Adesanya er á kápu nýjasta UFC tölvuleiksins frá EA Sports ásamt Jorge Masvidal. Mikið hefur verið grínast með að bölvun ríki á þeim sem prýða kápu UFC leikjanna og í raun allra íþróttaleikja EA Sports (FIFA, Madden, NHL og fleiri leikja).

Aðdáendur vilja meina að þeir sem birtast á kápu tölvuleiksins tapi sínum næsta bardaga. Á kápu UFC 4 tölvuleiksins eru þeir Jorge Masvidal og Israel Adesanya. Kápan var opinberuð 10. júlí en tveimur dögum síðar tapaði Masvidal fyrir Kamaru Usman. Nú er spurning hvort Israel Adesanya tapi um helgina.

Bölvunin er alls ekki algild og er ekki hægt að rekja töp bardagamanna til fyrstu UFC tölvuleikjanna sem komu út í kringum aldamótin. Á UFC Undisputed 2009 var Forrest Griffin á kápunni en hann tapaði sínum næsta bardaga.

Brock Lesnar og Anderson Silva töpuðu ekki næstu bardögum sínum eftir að þeir birtust á kápu leikjanna 2010 og 2012. Jon Jones og Alexander Gustafsson voru á fyrsta UFC leik EA Sports sem kom út árið 2014 en báðir unnu þeir sína bardaga eftir að tilkynnt var að þeir myndu prýða kápu leiksins.

Annar UFC leikur EA Sports kom út í mars 2016. Í nóvember 2015 var tilkynnt að Ronda Rousey myndi vera á kápu leiksins en aðeins tveimur dögum síðar tapaði hún fyrir Holly Holm. Það var fyrsta tap hennar á ferlinum og kom verulega á óvart.

Í desember sama ár eftir sigur Conor McGregor gegn Jose Aldo var tilkynnt að Conor myndi vera á kápunni ásamt Rousey. Hann tapaði sínum næsta bardaga gegn Nate Diaz en það var líka mjög óvænt.

Þriðji UFC leikur EA Sports kom síðan út í febrúar 2018 en þá var Conor aftur á kápunni. Hans næsti bardagi var gegn Khabib Nurmagomedov sama ár þar sem hann tapaði.

Þessi „bölvun“ er síður en svo algild en það hefur ekki gengið vel hjá síðustu bardagamönnum sem hafa verið á kápu leiksins. Það er spurning hvort fyrsta tap Adesanya í MMA verði að veruleika á laugardaginn þegar hann mætir Paulo Costa.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular