Tuesday, March 19, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2015

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2015

Eftir ruglaðan júlí mánuð tekur við talsvert rólegri ágúst. UFC heldur þrjú kvöld, eitt stórt núna um helgina og tvö önnur minni. Melvin Guillard berst sinn fyrsta bardaga í Bellator eftir að hafa verið sparkað úr UFC og WSOF en lítið verður um að vera í minni samböndum.

feijao cummins

10. UFC 190, 1. ágúst – Rafael Cavalcante gegn Patrick Cummins (létt þungavigt)

Rafael ‘Feijão’ Cavalcante er mikill reynslubolti sem rotaði t.d. Yoel Romero í Strikeforce árið 2011. Hann er höggþungur og er með svart belti í Brasilísku Jiu-Jitsu. Andstæðingur hans, Patrick Cummins, er með allt öðruvísi hæfileika. Cummins er gríðarsterkur „wrestler“ sem sást mjög vel þegar hann sigraði Antônio Carlos Júnior í desember.

Spá: Cummins hefur verið afgreiddur með höggum í tveimur af fimm bardögum í UFC og Cavalcante er rotari. Feijão sigrar með rothöggi í fyrstu lotu.

Struve-Rogerio

9. UFC 190, 1. ágúst – Stefan Struve gegn Antônio Rodrigo Nogueira (þungavigt)

Þessi bardagi mun fara illa fyrir annan af þessum stóru mönnum. Endurkoma Stefan Struve var skelfileg gegn Alistair Overeem í desember og hann þarf á sigri að halda á móti Big Nog. Þessi bardagi fer ekki allar loturnar.

Spá: Nogueira getur slegið, hann er gamall og slitinn en mun rota hinn miklu yngri Stefan Struve í annarri lotu.

maia magny

8. UFC 190, 1. ágúst – Demian Maia gegn Neil Magny (veltivigt)

Neil Magny er lítið þekktur en hann hefur sigrað sjö bardaga í röð í UFC en þó gegn minni nöfnum að mestu leyti. Hér fær hann tækifæri gegn stóru nafni. Demian Maia hefur reynst mörgun erfið bráð.

Spá: Neil Magny hefur oft verið vanmetinn en það er erfitt að spá honum sigri gegn Maia. Demian Maia minnir á sig með fyrsta sigri sínum með uppgjafartaki síðan hann kreisti hausinn á Rick Story árið 2012.

gadelha aguilar

7. UFC 190, 1. ágúst – Cláudia Gadelha gegn Jessica Aguilar (strávigt)

Jessica Aguilar kemur inn í UFC sem ríkjandi WSOF meistarinn í strávigt. Hún hefur sigrað tíu bardaga í röð, þar með talið gegn Carla Esparza. Hún mætir nú Cláudia Gadelha í UFC sem hefur þegar sannað sig með tapi gegn Joanna Jędrzejczyk á klofnum dómaraúrskurði í desember. Sigurvegarinn fær sennilega að skora á meistarann næst.

Spá: Báðar þessar konur eru með sterkan grunn í Brasilísku Jiu-Jitsu en Cláudia Gadelha er þrefaldur heimsmeistari og ætti að vera betri. Cláudia Gadelha sigrar á stigum og mætir Joanna Jędrzejczyk í annað sinn í mjög spennandi viðureign.

johnson dariush

6. UFC Fight Night 73, 8. ágúst – Michael Johnson gegn Beneil Dariush (léttvigt)

Það hefur verið gaman að fylgjast með Beneil Dariush vaða yfir andstæðinga sína í léttvigt. Í hans síðasta bardaga gegn Jim Miller leit hann hrikalega vel út en hér fær hann annað erfitt próf. Michael Johnson hefur bætt sig mikið frá tíma sínum í The Ultimate Fighter og ætti þetta að verða frábær bardagi.

Spá: Báðir menn hafa sigrað fjóra bardaga í röð. Þetta verður jafnt en glímustyrkur Beneil Dariush mun skilja þá að. Dariush sigrar á stigum.

5. UFC 190, 1. ágúst – Maurício Rua gegn Antônio Rogério Nogueira (létt þungavigt)

Þessi bardagi er „rematch“ af klassískum bardaga frá árinu 2005 í Pride Grand Prix í millivigt. Fyrsti bardaginn var rosalegt stríð sem Shogun Rua sigraði á stigum. Í dag eru báðir menn komnir yfir sitt besta en bardaginn ætti engu að síður að verða mjög skemmtilegur.

Spá: Við höfum ekki séð hinn 39 ára Lil Nog í heilt ár en þá var hann rotaður á 44 sekúndum af Anthony Johnson. Hann gæti verið búinn. Shogun sigrar á rothöggi í fyrstu lotu.

ericksilva-rick

4. UFC Fight Night 74, 23. ágúst – Erick Silva gegn Rick Story (veltivigt)

Hér er á ferðinni mjög áhugaverður bardagi í veltivigt. Báðir þessir kappar eru árásargjarnir og grjótharðir. Rick Story er betri „wrestler“ og gerir færri mistök. Erick Silva tekur miklar áhættur sem hefur kostað hann nokkra sigra en skilar líka oft stórkostlegum rothöggum. Báðir hafa getu til að sigra hvern sem er á rétta kvöldinu í veltivigt.

Spá: Rick Story mætir til leiks með fullkomna bardagaáætlun og tryggir sér sigur á stigum.

teix OSP

3. UFC Fight Night 73, 8. ágúst – Glover Teixeira gegn Ovince Saint Preux (léttþungavigt)

Glover Teixeira kom inn í UFC eins og stormsveipur en hefur nú tapað tveimur bardögum í röð. Vilji hann halda sér í fremst röð verður hann að sigra hinn erfiða Ovince Saint Preux. Saint Preux er algjör andstæða. Hann hefur unnið sig upp smá saman og er nú að verða viðurkenndur sem einn af þeim bestu.

Spá: Ovince Saint Preux kemur enn á óvart með sigri á stigum og stekkur upp styrkleikalistann.

2. UFC Fight Night 74, 23. ágúst – Max Holloway gegn Charles Oliveira (fjaðurvigt)

Það fór ánægjuhrollur um harða MMA aðdáendur þegar þessi bardagi var tilkynntur. Þetta er æðislegur bardagi á milli tveggja manna á mikilli siglingu. Báðir vilja komast upp á toppinn í fjaðurvigt og berjast um titilinn. Annar mun taka skref nær því markmiði, hinn aftur.

Spá: Báðir eru mjög góðir standandi, Holloway ætti þó að vera betri. Á gólfinu er munurinn miklu meiri Oliveira í vil. Charles Olivera mun ná fellu og klára Max Holloway með „inverted calf slicer“ í annarri lotu.

Rousey-Correia

1. UFC 190, 1. ágúst – Ronda Rousey gegn Bethe Correia (bantamvigt kvenna)

Ronda Rousey gæti verið að berjast við dúkku og við myndum samt horfa. Þessi margumtöluðu Mike Tyson áhrif eru raunveruleg. Þegar Rousey berst viljum við sjá hversu lengi andstæðingurinn endist og hversu rosalega barsmíð andstæðingurinn hlýtur. Bethe Correia er ósigruð og er góð bardagakona en hún á ekki mikla möguleika í meistarann. Samt sem áður getum við ekki beðið.

Spá: Ronda Rousey segist vera pirruð á Bethe Correia og vill pína hana aðeins lengur vegna þessa. Hún lætur hana finna fyrir því í nokkrar mínútur og klárar bardagann í lok fyrstu lotu með „armbar“.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular