Júlí var rosalegur en MMA eimreiðin heldur áfram í ágúst með hrinu af frábærum bardögum. Bardaginn sem allir eru að bíða eftir er auðvitað Conor McGregor gegn Nate Diaz en það er ýmislegt annað spennandi á boðstólnum.
10. UFC 202, 20. ágúst – Cody Garbrandt gegn Takeya Mizugaki (bantamvigt)
Cody Garbrandt er smám saman að verða stjarna. Allra augu beinast að honum eftir frábæra frammistöðu gegn Thomas Almeida. Nú þarf hann að sanna sig aftur gegn mjög reyndum bardagamanni. Mizugaki hefur mætt öllum helstu nöfnunum í hans þyngdarflokki og er með sigra gegn mönnum á borð við Bryan Caraway, Rani Yahya og Francisco Rivera.
Spá: Garbrandt ætti að standast þetta próf með glans. Rothögg í fyrstu lotu.
9. Bellator 160, 26. ágúst – Benson Henderson gegn Patricio Freire (léttvigt)
Titiláskorun Benson Henderson í veltivigt gegn Andrey Koreshkov gekk ekki alveg nógu vel svo nú er hann snúinn aftur í léttivigt. Yngri Pitbull bróðirinn er hins vegar ekkert grín. Hann er fyrrum fjaðurvigtarmeistari og hefur sigrað meðal annars Pat Curran, Daniel Straus og Wilson Reis.
Spá: Þetta verður barátta en Henderson er of stór fyrir Freire. Benson sigrar á stigum.
8. UFC on Fox 21, 27. ágúst – Jim Miller gegn Joe Lauzon (léttvigt)
Þessir tveir reynsluboltar völtuðu báðir yfir andstæðinga sína á UFC 200. Það lá því beint við að þeir skyldu mætast aftur en þeir börðust á UFC 155 árið 2012. Þá var það Miller sem sigraði á stigum í rosalegum bardaga sem var einn besti bardagi ársins það ár.
Spá: Miller betri á gólfinu en Lauzon ætti að geta haldið bardaganum standandi. Lauzon sigrar að þessu sinni á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.
7. UFC Fight Night 92, 6. ágúst – Yair Rodríguez gegn Alex Caceres (fjaðurvigt)
Yair Rodríguez er „must see TV“. Hann er frumlegur, fjölhæfur og hann tekur sénsa jafnvel þó hann þurfi þess ekki. Magnað rothögg í hans síðasta bardaga gegn Andre Fili skilaði honum þessu stóra tækifæri en hann er hér í fyrsta sinn í aðalbardaga kvöldsins. Alex Caceres er nokkuð skemmtilegur karakter. Ferillinn hans hefur verið sveiflukenndur en hann er klárlega hæfileikaríkur.
Spá: Rodríguez sigrar með rothöggi í líflegum bardaga, önnur lota.
6. UFC 202, 20. ágúst – Neil Magny gegn Lorenz Larkin (veltivigt)
Stórskemmtilegur bardagi í veltivigt. Neil Magny er búinn að vinna sig upp styrkleikalistann (nr. 7) en þarf nú að takast á við Lorenz Larkin sem er baneitraður en ekki í topp 15. Það þýðir talsverð áhætta fyrir Magny en gott tækifæri fyrir Larkin. Eina tap Magny í síðustu 10 bardögum var tap gegn Demian Maia í fyrra. Engin skömm í því. Larkin hefur sömuleiðis gengið vel síðan hann létti sig niður í veltivigt en eina tapið hans í fjórum bardögum var klofinn dómaraúrskurður eftir bardaga hans við Albert Tumenov.
Spá: Larkin ætti að hafa betur standandi en Magny er góður að finna leið til sigurs. Magny tekur þennan á stigum.
5. UFC 202, 20. ágúst – Rick Story gegn Donald Cerrone (veltivigt)
Donald Cerrone hefur litið sjúklega vel út í veltivigt. Nú fær hann sinn erfiðasta andstæðing til þessa í þyngdarflokknum. Rick Story ætti að vera öllum Íslendingum vel kunnur eftir að hafa veitt Gunnari Nelson sitt fyrsta tap á ferlinum. Hér mætast mjög ólíkir stílar og það er erfitt að átta sig á hvor mun hafa betur. Story veður áfram, hleður í skrokkhöggin á meðan Cerrone reynir að aðlagast og svara með spörkum og höggum.
Spá: Story er slæmur stíll fyrir Cerrone. Hann mun króa kúrekann af upp við búrinn og láta höggin dynja þar til dómarinn rífur hann af.
4. UFC on Fox 21, 27. ágúst – Anthony Pettis gegn Charles Oliveira (fjaðurvigt)
Anthony Pettis er nú búinn að tapa þremur bardögum í röð gegn Rafael dos Anjos, Eddie Alvarez og Edson Barboza. Hér léttir hann sig niður í fjaðurvigt í von um að blása nýju lífi í ferilinn sinn. Fyrsti andstæðingurinn, Charles Oliveira, er hins vegar hrikalega hættulegur. Hann er hávaxinn, einn besti jiu-jitsu bardagamaðurinn í UFC og er alltaf að verða betri og betri. Mun Oliveira finna leið til að afgreiða fyrrum léttvigtarmeistarann eða mun Pettis endurheimta mojo-ið sitt?
Spá: Pettis kemur sterkur til baka og sigrar með einhverju skemmtilegu Showtime sparki. Er ekki kominn tími á eitt slíkt?
3. UFC 202, 20. ágúst – Anthony Johnson gegn Glover Teixeira (léttþungavigt)
Stál í stál! Hér er algjör draumabardagi í léttþungavigt. Anthony Johnson og Glover Teixeira eru nr. 2 og 3 á styrkleikalista UFC í þyngdarflokknum svo sigurvegarinn er líklegur andstæðingur fyrir Daniel Cormier í fjarveru Jon Jones. Þetta eru ólíkir bardagamenn en báðir eru höggþungir og grjótharðir. Báðir eru sterkir snemma í bardaganum en dvína eftir því sem líður á hann. Teixeira er betri gólfglímumaður en Johnson er meiri rotari, hvor hefur betur? Þetta verður stríð og sennilega verður Johnson talinn líklegri af veðbönkunum. Það má hins vegar ekki vanmeta Teixeira sem kemst langt á hörkunni.
Spá: Teixeira lifir af fyrstu lotuna, nagar Johnson niður og sigrar með uppgjafartaki í þriðju lotu.
2. UFC on Fox 21, 27. ágúst – Demian Maia gegn Carlos Condit (veltivigt)
Eitt það besta við þennan bardaga er að hann er fimm lotur. Það er mikið í húfi þar sem sigurvegarinn verður í góðri stöðu til að skora á meistarann, sérstaklega ef það verður Demian Maia. Eina fyrirstaðan er Stephen Thompson sem flestir vilja sjá fá næsta tækifæri. Hvað sem því líður þá ætti þetta að verða mjög áhugaverður bardagi, klassískur „striker vs. grappler“ bardagi. Þetta er í raun einfalt, standandi vinnur Condit, á gólfinu vinnur Maia. En getur Maia náð Condit niður í gólfið og getur hann lifað af nógu lengi til að komast í næstu lotu eða standa upp?
Spá: Condit er seigur. Hann mun sparka Maia í sundur standandi og verjast á gólfinu. Að lokum sigrar Condit á stigum.
1. UFC 202, 20. ágúst – Nate Diaz gegn Conor McGregor (veltivigt)
Þá er loksins komið að því. Eins og frægt er orðið átti þessi bardagi að eiga sér stað á UFC 200 en örlögin urðu önnur. Þessi bardagi er fordæmalaus í sögu UFC. UFC meistari þyngir sig upp um tvo þyngdarflokka og tapar illa. Í stað þess að létta sig strax niður heimtar hann annan bardaga í sama þyngdarflokki á móti sama andstæðingi. Á sama tíma heldur hann beltinu í léttari flokknum. Aðeins Conor McGregor gæti náð þessu fram. Nú er bara að sjá hvort að hann sé snillingur eða hvort þetta hafi allt verið hræðileg mistök. Báðir menn verða betur undirbúnir en síðast. McGregor lærir af sínum mistökum, hann mun vanda höggin betur og halda sig frá Diaz. Diaz er þó alltaf hættulegur og hefur nú haft talsvert meiri tíma í undirbúning.
Spá: Diaz gæti hæglega endurtekið leikinn og sigrað örugglega en trú mín á Írann er blind, segjum að McGregor sigri að þessu sinni á stigum.