spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2017

Eftir tvo faranlega góða mánuði hlaut að koma að mánuði eins og janúar. Það eru tvö lítil UFC kvöld og eitt ágætt Bellator kvöld, gamlar stjörnur snúa aftur og Donald Cerrone berst eins og í öllum mánuðum. Byrjum á þessu.

10. UFC Fight Night 103, 15. janúar – Ben Saunders gegn Court McGee (veltivigt)

Þessir tveir eru hungraðir í að brjótast upp í topp 15 í veltivigtinni. Báðir eru orðnir reynsluboltar sem báðir komu inn í UFC í gegnum The Ultimate Fighter þættina. Báðir hafa sýnt góða takta en hvorugur hefur náð að koma sér á blað með þeim allra bestu í þyngdarflokknum.

Spá: Tökum sénsinn á McGee, þetta verður ekki fallegt en hann sigrar á stigum.

9. UFC on Fox 23, 28. janúar – Hector Lombard gegn Brad Tavares (millivigt)

Hector Lombard er einn af þeim sem maður þarf alltaf að sjá þrátt fyrir slæmt gengi undanfarið og nokkuð háan aldur (38). Nú þarf hann virkilega á sigri að halda en það eru engir auðveldir bardagar í UFC. Brad Tavares hefur átt frekar sveiflukenndan feril í UFC. Í grófum dráttum hefur hann tapað fyrir þeim allra bestu en unnið flesta aðra. Haldi það áfram ætti Tavares að sigra að þessu sinni.

Spá: Tavares lifir af storminn í fyrstu lotu og sigrar á stigum.

8. Bellator 170, 21. janúar – Paul Daley gegn Brennan Ward (veltivigt)

Paul Daley er alltaf skemmtilegur, þ.e. þegar hann nær réttri vigt. Hann tapaði fyrir Douglas Lima í júlí en vann þrjá bardaga í Bellator þar á undan. Nú mætir hann Brennan Ward (14-4) sem hefur barist í Bellator síðan árið 2012 og sigraði meðal annars útsláttarmótið í millivigtinni árið 2013. Þetta ætti að verða hörkubardagi.

Spá: Ward er harður en Daley nælir sér í rothöggið í þriðju lotu.

7. UFC Fight Night 103, 15. janúar – John Moraga gegn Sergio Pettis (fluguvigt)

Jussier Formiga átti að berjast á þessu kvöldi við Sergio Pettis en John Moraga kom til bjargar þegar sá fyrrnefndi meiddist. Pettis er búinn að vera ungi efnilegi gaurinn í um þrjú ár og nú er spurning hvort hann þurfi ekki að gera sig að alvöru keppanda í þyngdarflokknum. John Moraga er harður nagli og mjög góður þó svo að hann hafi tapað tveimur bardögum í röð. Nú þarf hann að vinna þennan bardaga ætli hann að halda sér í topp tíu.

Spá: Moraga notar reynsluna, harkar af sér erfiða fyrstu lotu og afgreiðir Pettis í annarri lotu með „rear-naked choke“.

6. Bellator 170, 21. janúar – Tito Ortiz gegn Chael Sonnen (léttþungavigt)

‘The Bad Boy’ gegn ‘The Bad Guy’ eins og þeir kalla sig. Bellator kann að setja saman freakshow bardaga en þessi er með þeim skemmtilegri. Báðir menn eru sterkir á gólfinu svo það verður áhugavert að sjá hver hefur betur. Ortiz hefur fyrst og fremst barist í léttþungavigt á ferlinum en Sonnen bæði í millivigt og léttþungavigt. Ortiz barðist ekkert í fyrra en tók sitt hvoran bardagann árin 2014 og 2015. Chael Sonnen afplánaði á meðan tveggja ára keppnisbann eftir fall á lyfjaprófi og lagðist tímabundið í helgan stein. Í svona bardaga er spurningin alltaf hver á meira eftir?

Spá: Það væri hægt að kasta upp á krónu en við skulum veðja á stærri og virkari bardagamanninn. Ortiz sigrar á stigum.

5. UFC Fight Night 103, 15. janúar – Yair Rodríguez gegn B.J. Penn (fjaðurvigt)

Það var slæmt þegar B.J. Penn átti að berjast gegn Ricardo Lamas en þetta er ekkert skárra. Yair Rodgríguez er skemmtilegur bardagamaður að horfa á og stórhættulegur fyrir hinn 38 ára Penn sem tapaði síðustu þremur bardögum sínum og hefur ekki sést í tvö og hálft ár. Það verður að koma í ljós hversu lengi Penn endist en sigur virðist nær óhugsandi.

Spá: Rodríguez tætir Penn í sig og dómarinn stöðvar bardagann í lok fyrstu lotu.

4. UFC Fight Night 103, 15. janúar – Joe Lauzon gegn Marcin Held (léttvigt)

Marcin Held er álitinn undrabarn í Jiu-jitsu og með efnilegri MMA bardagamönnum í UFC. Hann er 24 ára en þegar með 27 bardaga á bakinu (22 sigrar, 5 töp). Hann tapaði fyrsta bardaga sínum í UFC gegn goðsögninni Diego Sanchez en fær hér annað tækifæri gegn Joe Lauzon. Lauzon þarf auðvitað ekki að kynna, hann er með gríðarlega reynslu en er sennilega kominn yfir sitt besta. Lauzon er seigur á gólfinu en mun sennilega vilja halda þessum bardaga standandi.

Spá: Lauzon lifir af árásir Held á gólfinu og hamrar hann standandi, sigrar á TKO í þriðju lotu.

3. UFC on Fox 23, 28. janúar – Andrei Arlovski gegn Francis Ngannou (þungavigt)

Francis Ngannou er ógnvekjandi náungi og mest spennandi efnið í þungavigt þessa stundina. Hann er búinn að klára alla fjóra bardaga sína í UFC og fær hér loksins tækifæri gegn topp 10 andstæðingi. Andrei Arlovski hefur munað sinn fífil fegurri en hann hefur tapað sínum síðustu þremur bardögum. Hann fær það óöfundsverða verkefni að taka á móti þessu skrímsli. Reynslan vinnur með Arlovski en verður það nóg?

Spá: Ngannou rotar Arlovski í fyrstu lotu og kemur sér á kortið.

2. UFC on Fox 23, 28. janúar – Donald Cerrone gegn Jorge Masvidal (veltivigt)

Saga Donald Cerrone í veltivigt heldur áfram, aðeins 49 dögum eftir sigur hans gegn Matt Brown á UFC 206. Donald Cerrone (32-7) og Jorge Masvidal (31-11) eru á meðal reynslumestu bardagamanna heims og samanlagt með 82 MMA bardaga sín á milli. Þeir eru álíka gamlir, báðir á besta aldri, 32-33 ára. Cerrone hefur smám samankomið sér fyrir í topp fimm í veltivigt og gæti hæglega barist um titilinn haldi hann áfram að vinna.

Spá: Þetta verður jafnari bardagi en margir gætu búist við en Cerrone tekur þetta á stigum, 29-28.

1. UFC on Fox 23, 28. janúar – Valentina Shevchenko gegn Julianna Peña (bantamvigt kvenna)

Hér er hrikalega spennandi bardagi í bantamvigt kvenna. Valentina Shevchenko opnaði augu margra með afgerandi sigri á Holly Holm í júlí. Í sama mánuði sigraði Julianna Peña Cat Zingano sem lagði grunninn að þessu einvígi gegn Shevchenko. Þessar tvær eru númer tvö og þrjú á styrkleikalista UFC svo sigurvegarinn ætti að berjast um titilinn mjög fljótlega.

Spá: Þetta er nokkuð klassískur „striker vs grappler“ bardagi. Báðar eru granítharðar en glímustyrkur Peña mun tryggja henni sigur á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular