Monday, May 20, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2016

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2016

Til þess að geta fengið geðsjúk bardagakvöld eins og UFC 205 þurfum við að sætta okkur við mánuði eins og október. Þessi mánuður er sennilega einn sá slakasti í heilan áratug, lítum yfir það skásta.

schevchenko-grove

10. Bellator 162, 21. október – Kendall Grove gegn Alexander Shlemenko (millivigt)

Alexander Shlemenko er með 63 MMA bardaga að baki eftir 12 ár sem atvinnumaður. Það gerir rúmlega 5 bardaga á ári…..á hverju ári. Hreint ótrúlegt en 25 bardagar fyrstu tvö árin hjálpuðu meðaltalinu aðeins. Kendall Grove hefur átt sveiflukenndan feril en hann hefur rotað síðustu tvo andstæðingana sína.

Spá: Þetta verður erfitt fyrir Grove. Shlemenko sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

branch-vs-magalhaes

9. WSOF 33, 7. október – David Branch gegn Vinny Magalhães (léttþungavigt)

David Branch ver titil sinn í léttþungavigt WSOF gegn sjálfum Vinny Magalhães sem hefur unnið fjóra bardaga í röð og gæti komið fljótlega aftur í UFC með þessu áframhaldi. Branch hefur hins vegar verið óstöðvandi síðan 2012 svo þetta verður áhugavert.

Spá: Vinny nælir sér í titilinn með uppgjafartaki í annarri lotu.

daniel-omielanczuk-vs-stefan-struve

8. UFC 204, 8 október – Daniel Omielańczuk gegn Stefan Struve (þungavigt)

Daniel Omielańczuk, ‘The Polish Bear’, hefur unnið þrjá bardaga í röð í UFC, þó ekki gegn þeim bestu. Nú fær hann stórt nafn og tækifæri til að koma sér vel á framfæri. Það er magnað að hugsa til þess að Stefan Struve er ennþá bara 28 ára. Hann hefur barist 35 sinnum í MMA og hefur verið í UFC í sjö ár. Sigurvegarinn í þessum bardaga gæti skotið sér upp í topp tíu á þyngdarflokknum svo það er til mikils að vinna.

Spá: Þetta gæti orðið súr bardagi þegar líður á hann. Struve sigrar á stigum.

horiguchi-bagautinov

7. UFC Fight Night 97, 15. október – Kyoji Horiguchi gegn Ali Bagautinov (fluguvigt)

Þessi bardagi er fyrsti bardaginn á þessu bardagakvöldi en hann er einn sá besti. Báðir hafa tapað fyrir ‘Mighty Mouse’ en báðir eru mjög nálægt toppnum. Þetta er því mikilvægur bardagi og mjög áhugaverður hvað stílana varðar. Bagautinov er seigur sambó glímukall á meðan Horiguchi er með bakgrunn í karate.

Spá: Horiguchi heldur sig nægilega mikið frá Bagautinov, heldur bardaganum standandi og sigrar á stigum.

manuwa-osp

6. UFC 204, 8 október – Jimi Manuwa gegn Ovince Saint Preux (léttþungavigt)

Þessir tveir eru báðir á topp 10 á styrkleikalista UFC. Báðir virðast vinna alla nema þá allra bestu svo það verður áhugavert að sjá hvað gerist hér. Báðir geta slegið en Manuwa ætti að vera með betri tækni standandi. Á gólfinu ætti OSP að hafa tæknilega yfirburði svo þetta verður áhugavert.

Spá: OSP kemur inn bombu í fyrstu lotu og sigrar á rothöggi.

alex-cowboy-x-will-brooks

5. UFC Fight Night 96, 1. október – Alex Oliveira gegn Will Brooks (léttvigt)

Will Brooks fór frá Bellator sem ríkjandi meistari. Sumir áttu von á að honum yrði hent beint í djúpu laugina gegn þeim allra bestu en það hefur ekki reynst raunin (með fullri virðingu fyrir Ross Pearson og Alex Oliveira). Brooks er 29 ára svo það liggur í raun ekkert á. Hæg uppbygging getur klárlega skilað betur undirbúnum bardagamanni þegar að stóru bardögum kemur svo kannski er þetta rétta leiðin.

Spá: Brooks sigrar örugglega á stigum.

mousasi-belfort

4. UFC 204, 8 október – Vitor Belfort gegn Gegard Mousasi (millivigt)

Þá er komið að hinum glaðværa Gegard Mousasi sem átti að berjast við Derek Brunson á UFC 200. Hér mætir hann Vitor Belfort sem leit út eins og eins og pabbi Sage Northcutt í hans síðasta bardaga. Hvað fáum við núna? Er TRT Vitor endanlega horfinn?

Spá: Mousasi nælir sér í stóran sigur. Hann klárar Belfort með höggum í lok fyrstu lotu.

penn-llamas

3. UFC Fight Night 97, 15. október –  B.J. Penn gegn Ricardo Lamas (fjaðurvigt)

Upphaflega stóð til að B.J. Penn kæmi til baka gegn Dennis Siver (og síðar Cole Miller eftir að Siver meiddist) sem hefði verið eðlileg prófraun fyrir hann á þessum tímapunkti ferilsins. Penn fékk sér hins vegar næringu í æð og var dæmdur í fjögurra mánaða bann frá USADA. Bardaginn var sleginn af en núna hefur hann afplánað bannið og fær að berjast. Flestir bjuggumst við einhverjum á borð við Cole Miller eða Manny Gamburyan en þess í stað fær Penn hinn grjótharða og stórhættulega Ricardo Lamas. Lamas er skráður númer fjögur á styrkleikalista UFC. Penn hefur ekki barist í tvö ár og leit þá mjög illa út. Þetta verður ljótt.

Spá: Vonandi verður þetta ekki langt. Segjum að dómarinn stöðvi blóðbaðið í annarri lotu, Lamas vinnur….fatality.

henderson-bisping-punch

2. UFC 204, 8 október – Michael Bisping gegn Dan Henderson (millivigt)

Við þekkjum öll forsöguna. Það eru rúm sjö ár síðan þessir kappar mættust á UFC 100 þar sem Dan Henderson steinrotaði Michael Bisping með eftirminnilegum hætti. Nú eru breyttir tímar, Michael Bisping er UFC meistarinn í millivigt og fær hér langþráða ósk sína uppfyllta. Bisping vill ekkert annað en hefnd en fyrir Henderson er meira í húfi. Nái Dan Henderson að sigra verður hann sá eini sem haldið hefur á titli í UFC, Pride og Strikeforce sem yrði sögulegur viðburður.

Spá: Henderson er of gamall og hægur fyrir Bisping á þessum tímapunkti. Bisping sigrar á stigum.

john-lineker-john-dodson

1. UFC Fight Night 96, 1. október – John Lineker gegn John Dodson (bantamvigt)

John Lineker gegn John Dodson er langbesti bardagi mánaðarins og hann fáum við strax 1. október. Báðir eru hraðir, árásagjarnir og höggþungir. John Lineker hefur unnið níu af síðustu 10 bardögum og hann kemur inn í þennan sjóðheitur eftir fyrstu lotu rothögg á Michael McDonald. Þess má geta að Lineker mistókst að ná vigt í fimmta sinn í UFC í gær. Á síðustu sex árum hefur John Dodson aðeins tapað fyrir Demetrious Johnson en á sigra gegn mönnum eins og T.J. Dillashaw.

Spá: Úff, þetta verður eldfimt og einhver mun rotast. Tökum sénsinn og veðjum á hraðari bardagamanninn, John Dodson.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular