2015 var gott ár í MMA og ætlum við að rifja það upp á næstu dögum. Í dag ætlum við að skoða tíu stærstu erlendu fréttir ársins.
Á næstu dögum munum við útnefna besta rothögg ársins, besta uppgjafartak ársins og bardagamenn ársins. Hér eru þó stærstu erlendu fréttir ársins.
10. Hertari refsingar í lyfjamálum
Í ár féllu þó nokkrir heimsklasssa bardagamenn á lyfjaprófum og þurfti því eitthvað að breytast. Bæði íþróttasamband Nevada-fylkis og UFC tóku í gildi hertari refsingar í lyfjamálum. UFC gerði samning við USADA og munu þeir gera lyfjaprófanir á öllum bardagamönnum UFC. Bardagamenn UFC geta átt von á því að vera lyfjaprófaðir hvar og hvenær sem er. Refsiramminn var einnig hertur og geta menn átt von á tveggja ára banni við fyrsta brot.
9. Ótrúleg Reebok klúður
Samstarfssamningur Reebok við UFC tók gildi þann 6. júlí á þessu ári. Margir bardagamenn og aðdáendur voru ósáttir með samninginn enda virðast margir bardagamenn einfaldlega vera að tapa peningum á samningnum. Það sem stendur þó helst upp úr eru mörg ótrúleg klúður hjá Reebok í kringum samstarfið. Vandræðalega kynningin innihélt innsláttarvillur og voru mörg nöfn bardagamanna á Reebok bolunum rituð ranglega. Þá kynnti Reebok fáranlega boli líkt og Anderson Aldo bolinn og írska bolinn þar sem búið var að klippa Norður-Írland af bolnum sem olli miklu fjaðrafoki í Írlandi.
8. Ronda Rousey verður ofurstjarna
Ronda Rousey endaði árið 2015 ekkert sérstaklega vel en framan af var þetta magnað ár hjá henni. Hún byrjaði á að klára Cat Zingano á 14 sekúndum og rotaði svo Bethe Correia á 30 sekúndum á UFC 190. Fáir spennandi bardagar voru á bardagakvöldinu en engu að síður seldi UFC yfir milljón „Pay per view“ það kvöld. Það sýndi stjörnumátt Rousey og kom hún fram í vinsælustu spjallþáttum Bandaríkjanna. Til að mynda tilkynnti hún bardagann gegn Holly Holm í þættinum Good Morning America. Fyrir nokkrum árum hefði það þótt fráleitt að hugsa til þess að UFC keppandi myndi tilkynna sinn næsta bardaga í jafn vinsælum spjallþætti og Good Morning America. Hún var einnig í nokkrum kvikmyndum og virtist vera brjálað að gera hjá henni sem kannski varð til þess að hún tapaði á endanum.
7. Sjö af tíu meisturum UFC töpuðu titlunum sínum
Árið 2015 var ár nýrra meistara en sjö meistarar töpuðu titlunum sínum á árinu. Aðeins þeir TJ Dillashaw, Robbie Lawler og Demetrious Johnson vörðu beltin sín í ár en við fórum nánar yfir þetta fyrir skömmu. Cain Velasquez, Jon Jones, Chris Weidman, Anthony Pettis, Jose Aldo, Carla Esparza og Ronda Rousey misstu öll titlana sína í ár með einum eða öðrum hætti.
6. Conor McGregor rotar Aldo á 13 sekúndum
UFC 194 var eitt stærsta bardagakvöld allra tíma en þar sáum við Conor McGregor rota Jose Aldo á aðeins 13 sekúndum. Þetta er fljótasti titilbardagi í sögu UFC og bætti 14 sekúndna met Rousey fyrr á árinu. Aldo var eini fjaðurvigtarmeistarinn í sögu UFC og var því um sögulegan sigur að ræða.
5. Nick Diaz fær fimm ára bann
Nick Diaz mætti Anderson Silva á UFC 183 í janúar. Silva sigraði eftir dómaraákvörðun en Nick Diaz féll á lyfjaprófi eftir bardagann eftir að niðurbrotsefni marijúana fundust í lyfjaprófi hans. Diaz fékk fimm ára bann í september sem var gríðarlega umdeilt og hefur verið harðlega gagnrýnt. Samkvæmt nýja refsiramma íþróttasambands Nevada-fylkis hefði Diaz aðeins átt að fá þriggja ára bann þar sem þetta var hans þriðja brot. Auk þess stóðst hann tvö próf en féll á einu prófi á sama kvöldi sem þykir læknisfræðilega ólíklegt. Það er því ljóst að margt hefur farið úrskeiðis í þessu máli en málinu er alls ekki lokið.
4. Jon Jones sviptur titlinum
Jon Jones átti að mæta Anthony Johnson á UFC 187 í enn einni titilvörn sinni. Mánuði fyrir bardagann ók hann yfir á rauðu ljósi og olli þriggja bíla árekstri eftir ölvunarakstur. Jones flúði vettvang og gaf sig ekki fram fyrr en sólarhring síðar. Marijúana pípa fannst m.a. í bíl hans en UFC ákvað í kjölfar atviksins að svipta Jones titlinum. Jones fékk vægan skilorðsbundinn dóm og getur barist aftur á næsta ári.
3. Anderson Silva fellur á lyfjaprófi
Það kom mörgum í opna skjöldu þegar einn besti bardagamaður allra tíma féll á lyfjaprófi. Sterarnir sem fundust í lyfjaprófi Silva kallast drostanalone og eru þekktir meðal íþróttamanna sem þurfa að halda sig í ákveðnum þyngdarflokki. Að auki fundust leifar af androsterone sterunum. Málsvörn Silva var í besta falli hlægileg en þar hélt hann því fram að stinningarlyf hafi innihaldið sterana. Stinningarlyfið fékk hann í blárri flösku frá vini sínum sem var nýkominn frá Tælandi. Málsvörn hans var hræðileg þar sem lykilvitni voru óundirbúin og nokkur skjöl vantaði. Anderson Silva fékk að lokum eins árs bann og þurfti að greiða 380.000 dollara í sekt. Sigurinn á Nick Diaz var dæmdur ógildur. Banninu lýkur 31. janúar 2016 en Silva mætir Michael Bisping í London á næsta ári.
2. Jon Jones tekinn með kókaín
Árið 2015 byrjaði vel fyrir Jon Jones. Hann sigraði Daniel Cormier eftir einróma dómaraákvörðun þann 3. janúar og var bardagakvöldið eitt það stærsta á hans ferli. Eftir blaðamannafundinn kvaðst hann ætla að flytja til Albuquerque og æfa allt árið en ekki bara nokkrum vikum fyrir bardaga líkt og hann hafði hingað til gert. Svo hrundi allt. Nokkrum dögum eftir bardagann gegn Cormier bárust fréttir af lyfjaprófi Jones þar sem niðurbrotsefni kókaíns fannst í blóði hans. Jon Jones hafði tekið kókaín aðeins mánuði fyrir bardagann gegn Cormier. Það kom síðar í ljós að mistök voru gerð við framkvæmd lyfjaprófsins og átti ekki að prófa fyrir götuefni eins og kókaín og marijúana heldur frammistöðubætandi efni. Jones fékk því ekkert bann en ímynd hans beið hnekki. Hann var síðar sviptur titlinum eftir ölvunarakstur og er því óhætt að segja að hann hafi átt betra ár en 2015.
1. Ronda rotuð
Frétt ársins 2015 er án efa þegar Holly Holm rotaði Rondu Rousey. Holm og Rousey mættust um bantamvigtartitilinn þann 15. nóvember á UFC 193. Fyrir bardagann var Rousey ósigrðuð, hafði klárað alla sína bardaga og var talsvert sigurstranglegri hjá veðbönkum. Rousey lét ýmislegt flakka í aðdraganda bardagans og hélt því fram að enginn ætti rétt á því að sigra hana og ætlaði að ljúka ferlinum ósigruð. Holly Holm kom inn í bardagann með frábæra leikáætlun og hafði yfirburði frá fyrstu mínútu. Holm rotaði svo meistarann með hásparki eftir 59 sekúndur í 2. lotu og heimurinn fór á aðra hliðina. Stærsta stjarnan í MMA var rotuð og var rothöggið eitt umtalaðasta íþróttaatvik ársins.