spot_img
Monday, November 11, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjartur Guðlaugsson: Hef náð að snúa neikvæðninni í ákveðni

Bjartur Guðlaugsson: Hef náð að snúa neikvæðninni í ákveðni

bjartur-Guðlaugs-immaf
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Bjartur Guðlaugsson er einn af átta Íslendingum sem keppti á Evrópumótinu sem haldið var núna á dögunum. Bjartur barðist sína fyrstu bardaga á ferlinum og upplifði bæði sinn fyrsta sigur og sitt fyrsta tap.

Bjartur er 25 ára og barðist í fjaðurvigt á mótinu eða í 66 kg flokki. Það liggur beinast við að spyrja Bjart hvað hefði staðið upp úr á mótinu. „Það sem stendur helst upp úr er það að núna veit ég að ég get barist í MMA. Ég hef úthaldið til að fara allar þrjár loturnar og ég hef hæfileikana til að vinna aðra amateur fightera,” segir Bjartur

Á fyrsta deginum barðist Bjartur við Ítalann Michele Martignoni. Út af breytingu í dagskrá mótsins kom bardaginn mun fyrr en dagskráin sagði til um sem gerði það að verkum að Bjartur náði ekki að undirbúa sig eins og hann vildi. „Í fyrsta lagi varð mér svolítið brugðið, ég var nýbúinn að leggjast niður og loka augunum útaf. Ég stóð í þeirri trú að það væru allavega sjö bardagar áður en ég ætti að keppa. Ég var samt í frekar góðu ástandi andlega og var búinn að telja sjálfum mér trú um að ekkert sem myndi gerast gæti komið mér úr jafnvægi.”

Atvikið kom teyminu öllu í ákveðið uppnám þar sem ekkert var tilbúið fyrir bardagann. „Ég held að þetta hafi verið erfiðara fyrir þjálfarana mína, Jón Viðar og Árna Ísaks en þeir þurftu að hlaupa út um allt til að finna legghlífarnar mínar, hanskana, buxurnar og góminn. Á meðan á bardaganum stóð hugsaði ég ekkert um að ég hefði ekki hitað upp eða að ég væri kaldur. Eftirá að hyggja var ég líklegast kaldari en ég hefði átt að vera í byrjun bardagans og ég hefði líklegast haft örlítið betra úthald. Ég vann samt bardagann svo ég ætla ekki að kvarta.”

Á öðrum degi mótsins mætti Bjartur ungum Breta, Connor Hitchens, sem gerði honum erfitt fyrir í gólfinu. Bardaginn endaði með „rear naked choke“ hengingu í þriðju lotu sem varð fyrsta tap Bjarts. „Ég var rosalega niðurdrepinn beint eftir Hitchens bardagann en eftir því sem það hefur liðið lengri tími frá bardaganum hef ég náð að snúa neikvæðninni í ákveðni, ákveðni í að vinna í veikleikunum sem leiddu til þess að ég tapaði. Ég stend í þeirri trú að Hitchens hafi unnið mig 100% á því að vera betri tæknilegur top control wrestler en ég.”

Hitchens virtist vera með leikáætlun og fylgdi henni. „Í þann stutta tíma sem bardaginn var standandi leið mér mjög vel og mér fannst ég vera að lenda góðum höggum en andstæðingur minn var sniðugur og vildi greinilega ekki standa með einhverjum sem var með mun meiri faðmlengd svo hann skaut í double leg takedown snemma í hverri lotu.”

bjartur-immaf
Mynd: Af Instagram Mjölnis.

„Þegar ég byrjaði í Keppnisliði Mjölnis þá var glímutæknin mín töluvert betri en boxið mitt svo síðasta eitt og hálfa árið hef ég lagt mikla vinnu í að betrumbæta tæknina mína standandi. Eftir þennan bardaga er mér hins vegar ljóst að ég hef ekki lagt nógu mikið í glímuna og ég má ekki bara vinna í því að bæta mig þar sem ég er veikastur heldur verð ég líka að vinna í styrkleikum mínum.”

Bjartur mælir með MMA fyrir fólk sem hefur áhuga. „Við þá sem eru forvitnir að prufa MMA get ég ekki sagt annað en að ég mæli eindregið með því. Þetta er frábær líkamsrækt sem reynir líka mikið á hugann. Ef þú ætlar að keppa í íþróttinni þarftu samt að vera tilbúin/n að æfa stíft fimm til sex daga vikunnar í nokkra mánuði fyrir bardaga því annars eru meiri líkur en minni á að þú verðir rotuð/aður.”

Bjartur er rétt að byrja í sportinu og mun halda áfram æfingum af krafti. „Framundan fyrir mig eru bara stífar æfingar, það var nóg fyrir mig að taka nokkurra daga frí eftir keppnina en núna er ekki annað í boði en að halda áfram að bæta mig. Á Evrópumótinu þurfti ég líka að vigta mig inn á hverjum degi svo ég varð að halda mér léttum. Núna sé ég hins vegar fram á að þurfa bara að vigta mig inn einu sinni daginn fyrir keppni svo ég tel mig hafa svigrúm til að bæta á mig nokkrum kílóum af vöðvamassa fyrir næstu keppni.”

Þrátt fyrir að vera nýbúinn að berjast tvisvar virðist það ekki hafa svalað þorsta Bjarts í keppni. „Ef ég mætti ráða myndi ég vilja berjast strax aftur í næsta mánuði. Ég mun stökkva á fyrsta tækifæri sem gefst til að berjast aftur og vinna annan bardaga.”

Þó svo að áhugamannaferillinn hjá Bjarti sé aðeins nýbyrjaður langaði okkur að vita hvaða UFC andstæðing hann myndi velja sér ef hann fengi að ráða. „Ef ég þyrfti að berjast við bardagamann úr í mínum þyngdarflokki í UFC (þó ég telji mig ekki tilbúinn til þess) þá væri það Clay Collard. Collard er geysilega harður af sér en er rosalega ótæknilegur. Hann er algjör brawler, notar rosalega lítið af beinum höggum heldur nánast bara króka. Hann er með rosalega lélega vörn, hreyfir hausinn aldrei og hann hefur átt það til að verða þreyttur í bardögum. Ég held ég hefði bestan séns á að vinna Collard af öllum í UFC með því að nota lengdina, nota beinu höggin, víkja mér frá stóru sveiflunum og taka yfir bardagann í seinni lotunum.”

Sjá einnig:

Bjarki Ómarsson: Langar strax aftur út að keppa

Sunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum 

Pétur Jóhannes: Er að þessu til að skora á sjálfan mig

Hrólfur Ólafsson: Get gert svo mikið betur

Inga Birna: Var kannski aðeins of kurteis í bardaganum

Egill: Tapið veitir mér innblástur til að bæta mig

Bjarki Þór: Pain is temporary, glory is forever

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular