0

Glímukona mánaðarins: Ólöf Embla Kristinsdóttir

Glímumaður mánaðarins birtist hér hjá okkur í annað sinn. Í þessum lið spyrjum við skemmtilega íslenska glímumenn að ýmsu er varðar glímuna en að þessu sinni er Ólöf Embla Kristinsdóttir glímukona mánaðarins.

Ólöf Embla æfir hjá VBC í Kópavogi og varð á dögunum Íslandsmeistari í -64 kg flokki kvenna og í opnum flokki kvenna. Þetta var annað árið í röð sem hún afrekar það en skulum gefa henni orðið.

Hvenær og hvernig byrjaðiru í BJJ?

Ég byrjaði að æfa sumarið 2013 þegar Full Circle var með ókeypis stelputíma. Þegar það félag lokaði færði ég mig yfir í VBC.

Hvernig varstu svona góð í BJJ? Þ.e. hvað helduru að hafi stuðlað mest að því að þú varðst svona góð?

Umm ætli það hafi ekki verið ýmislegt sem hjálpaði mér að ná árangri. Eitt af því sem hefur hjálpað mér mikið er að ég hef alltaf æft einhverja íþrótt síðan ég man eftir mér. En annars held ég að það að drilla skili gífurlegum árangri. Ég er að vísu orðin heldur löt í dag en lengi vel drillaði ég alltaf eftir hvern tíma og sú tækni sem einkennir mig mest í dag er allt eitthvað sem ég drillaði á sínum tíma. En svo er ég líka heppin að vera með mjög góðan þjálfara og æfingafélaga.

Hversu oft æfiru BJJ á viku?

Ég reyni að æfa 5-6 sinnum í viku en það getur oft verið erfitt með náminu.

Hvernig finnst þér best að æfa? Drillaru mikið eða tekuru meira af frjálsum glímum?

Í dag er það að glíma það skemmtilegasta sem ég geri og ég held að ég eyði mestum tíma í það. Annars hefur það að drilla skilað mér svo miklu að ég er alltaf að reyna að koma mér inn í það aftur.

Hvernig undirbýrðu þig fyrir mót?

Ég undirbý mig heldur lítið og satt að segja verð ég svo kvíðin að ég reyni að hugsa sem minnst um það. Ég reyni þó að borða heldur hollt fyrir mót. Hvað varðar æfingar þá hugsa ég mikið um stigin og að glíma ákveðin, gefa ekkert eftir og svoleiðis.

Hver er þín besta frammistaða á móti og var eitthvað eitt atriði sem þér fannst vera lykillinn að árangrinum?

Sko núna í október keppti ég á London Open og það er það helsta sem mér dettur í hug. Átti margar mjög erfiðar glímur auk þess sem ég keppti í gi og í nogi á sama deginum sem tók heldur mikið á.

Hugsaru vel um mataræðið þitt?

Ekki næginlega vel en ætti algjörlega að gera það. Ég tók einn mánuð þar sem ég hugsaði um mataræðið og það munaði mjög miklu hvað varðar æfingar. Leið þá miklu betur og gat glímt miklu harðar. En eins og staðan er í dag þá er ég ekki mikið að hugsa um mataræðið nei.

Geriru einhverjar styrktar- og/eða þolæfingar með glímunni? Yoga?

Nei ekki eins og er. Ætti að vera að lyfta útaf hnjánum á mér en kem mér ekki í það. Var einu sinni að lyfta þrisvar í viku en er núna hætt því. Það kemur að því að ég byrji aftur.

Skemmtilegasti æfingafélaginn?

Það er hún Guðrún Björk, held að við séum búnar að æfa saman í tvö ár og það er alltaf ótrúlega gaman. Það er stundum smá erfitt að glíma við einhvern sem kann algjörlega á game-ið hjá manni en undanfarið höfum við átt svo líflegar og skemmtilegar glímur. En svona almennt finnst mér geggjað að glíma við fólk sem er mikið á hreyfingu.

En leiðinlegasti æfingafélaginn?

Vá veit ekki alveg hvað ég á að segja. Ætli það sé ekki fólk sem hreyfir sig ekkert, reynir bara að bunkera niður, finnst erfitt að díla við það.

Uppáhalds íslenski glímumaður?

Verð að segja Anna Soffía. Það er alltaf jafn erfitt að glíma við hana auk þess sem viðhorf hennar er svo jákvætt og skemmtilegt – hún er algjör fyrirmynd.

Á hvaða erlenda glímumann horfiru mest á?

Finnst Marcelo Garcia ótrúlega flottur en annars horfi ég mjög lítið á myndbönd. Það er annars eitt myndband sem mér finnst alltaf gaman að horfa á og það er Highlight-ið hjá Mendes bræðrunum (sjá hér að neðan). Finnst hreyfingarnar þeirra vera eins og töfrar.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.