Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaJón Viðar: Bjarki var gjösamlega búinn eftir sinn bardaga

Jón Viðar: Bjarki var gjösamlega búinn eftir sinn bardaga

bjarki sunna immafÞau Bjarki Þór Pálsson og Sunna Rannveig Davíðsdóttir urðu bæði Evrópumeistarar í dag. Þessu fjögurra daga móti er nú lokið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Evrópumótið er haldið en mótið fór fram í Birmingham. Mjölnir sendi átta keppendur til leiks og kemur heim á morgun með þrenn verðlaun. Bjarki Þór sigraði veltivigtarflokkinn sem jafnframt var stærsti flokkur mótsins. Sunna Rannveig tók fluguvigtina og þá nældi Pétur Jóhannes Óskarsson sér í brons í þungavigt.

Við slógum á þráðinn til Jóns Viðars Arnþórssonar sem er með hópnum í Birmingham. Jón Viðar er forseti Mjölnis en hann og Árni Ísaksson voru í horninu í öllum bardögum Íslendinganna. Þegar við heyrðum í honum var liðið ennþá í keppnishöllinni þar sem verið var að lyfjaprófa keppendur.

Þau Sunna og Bjarki höfðu bæði mikla yfirburði í sínum bardögum. „Sunna kláraði bardagann sinn með ground’n’pound í 2. lotu. Hún var með gott grip á höndinni ofan á í mount sem var eitthvað sem við vorum búin að æfa fyrir mótið. Andstæðingurinn snéri síðan baki í Sunnu þar sem Sunna hélt áfram að kýla þangað til dómarinn stoppaði bardagann. Sunna var líka sterk standandi, náði einhverjum tíu spörkum í lærin og vankaði hana í fyrstu lotu,“ segir Jón Viðar um bardagann hjá Sunnu.

Bjarki Þór mætti Búlgaranum Dorian Dermendzhiev. „Búlgarinn byrjaði af miklum krafti enda hafði hann klárað alla bardagana sína í fyrstu lotu. Hann náði Bjarka niður og reyndi þrjú uppgjafartök, guillotine, armbar og kimura sem Bjarki snéri sér út úr. Fyrir utan það var Bjarki með yfirburði, bæði standandi og í gólfinu. Bjarki var með góð spörk og gott box en það var mikil barátta um fellurnar.“

Jón Viðar segir að leikáætlunin hafi verið sú sama í úrslitunum og undanúrslitunum. „Planið var að byrja standandi og halda góðri fjarlægð. Veita eitt og eitt högg svo andstæðingurinn myndi ekki rusha inn. Ef andstæðingurinn var kyrr þá var planið að sparka í lærin. Í gólfinu var planið að ná topp og tryggja stöðuna vel áður en við byrjuðum að lauma inn einu og einu þungu höggi. Ná giftwrappi [grípa utan um aðra höndina] og raða inn höggunum. Það var mikilvægt að byrja rólega í gólfinu og tryggja stöðuna. Þannig tókum við bæði undanúrslitin og úrslitin.“

sunna thumbnail
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Aðspurður segir Jón Viðar að þau Bjarki og Sunna séu gríðarlega sátt. „Bjarki stendur hér bara með kók í dós, mjög sáttur. Þau eru bæði mjög hamingjusöm með þetta.“

Bardaginn í dag var fimmti bardaginn á fjórum dögum hjá Bjarka og sá þriðji hjá Sunnu á þremur dögum. Eðlilega eru þau bæði afskaplega þreytt eftir síðustu daga. „Bjarki var gjösamlega búinn eftir sinn bardaga. Það tók hann svona 30 mínútur að ná andanum, hann kláraði allt sitt í bardaganum. Hann var líka að taka fimm bardaga á fjórum dögum sem er ótrúlegt. Ég veit ekki um neina keppni sem hefur verið svona svo kannski er þetta eitthvað met.“

„Ástandið á þeim er bara gott. Það sést ekkert á Bjarka og er hann óvenju heill eiginlega. Það opnaðist smá skurður á Sunnu, gamall skurður og svo er hnúinn hennar smá bólginn eftir höggin sem hún veitti.“

Þetta hafa verið erfiðir dagar, bæði fyrir þjálfara og keppendur, enda langir dagar og mikið um að vera. „Það verður fínt að geta slappað af í kvöld. Í kvöld ætlum við að finna brasilískt steikhús, éta yfir okkur þar, fá okkur smá bjór og svo er flug heim í fyrramálið,“ segir Jón Viðar Arnþórsson eftir þessa mögnuðu keppni.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular