0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX 21: Maia vs. Condit

UFC on Fox 21 fór fram í Vancouver um helgina. Þó var engin kanadísk stjarna með í för enda Rory MacDonald farinn til Bellator og enginn veit hvað verður um Georges St. Pierre.

Það voru Carlos Condit og Demian Maia sem seldu miðana en það má segja að bardaginn hafi verið vonbrigði fyrir Condit aðdáendur. Það tók Maia aðeins tæpar tvær mínútur að ná Condit í gólfið og klára bardagann með „rear-naked choke“. Þetta er magnað afrek hjá Maia þar sem Condit er yfirleitt mjög erfiður andstæðingur. Maia tók hins vegar aðeins eitt högg og lét þetta líta út eins æfingu en ekki MMA bardaga á stærsta sviði íþróttarinnar.

Það komst sennilega enginn Íslendingur hjá því að hugsa með sér að tap Gunnars Nelson fyrir Demain Maia væri farið að líta betur út enda lifði hann af í þrjár lotur á meðan Condit var auðveldlega afgreiddur í fyrstu. Slíkur samanburður hefur þó lítið upp á sig enda margar breytur sem spila inn í. Fyrir Condit eru þessi úrslit hræðileg vonbrigði og virðist hann nú vera að endurhugsa stöðu sína. Vonandi hristir hann þetta af sér og heldur áfram ferlinum.

Nú er Demain Maia búinn að vinna sex bardaga í röð í veltivigt og vill eðlilega fá titilbardaga. Allt stefnir í titilbardaga á milli Tyron Woodley og Stephen Thompson svo hann verður að bíða. Það getur auðvitað komið í bakið á mönnum að bíða, hver veit, og kannski nær Georges St. Pierre að troða sér fram fyrir í röðina. Eitt er víst að það er aldrei hægt að afskrifa Demaian Maia.

Fyrr um kvöldið barðist Anthony Pettis í fyrsta sinn í fjaðurvigt eftir þrjú töp í röð í léttvigt. Oft skilar slíkt þyngdarflokkaflakk ekki tilsettum árangri en Pettis leit ansi vel út í sigri gegn hinum erfiða Charles Oliveira. Bardaginn var langt frá því að vera auðveldur en Pettis sýndi gott úthald, líkamlegan styrk og magnaða hæfileika á gólfinu er hann náði svartbeltingnum Oliveira í „guillotine“ hengingu. Nú verður fróðlegt að sjá hvern hann fær næst og hversu langt hann kemst í þyngdarflokki þar sem skemmtilegur Íri nokkur heldur á beltinu.

Page VanZant setti sinn stimpil á kvöldið með frábæru rothöggi. Hún er ung og enn í þróun en þessi frammistaða sýnir að hún er á réttri braut þó hún eigi langt í land. Það ætti annars að hafa komið fáum á óvart að Jim Miller og Joe Lauzon áttu besta bardaga kvöldsins. Þeir lögðu allt í þetta og fengu bónus að launum. Miller vann á stigum þó svo að Lauzon virtist hafa tryggt sér sigurinn með fellum og ráðandi stöðu á gólfinu. Fúlt fyrir Lauzon en hefur sennilega ekki mikil áhrif á hans feril.

Um næstu helgi fáum við UFC bardagakvöld í Hamburg í Þýskalandi þar sem þeir Josh Barnett og Andrei Arlovski mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Page vanzant

Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.