Friday, April 26, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Holohan vs. Smolka

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Holohan vs. Smolka

paddy holohanUFC hélt bardagakvöld í Dublin um síðustu helgi. Þrátt fyrir skort á stórum nöfnum var bardagakvöldið hin fínasta skemmtun.

Vonbrigði Íranna

Cathal Pendred 24/10/2015Eftir stórkostlegt UFC bardagakvöld í fyrra var laugardagskvöldið ekki jafn gott. Í fyrra sigruðu allir Írarnir sína bardaga með glæsilegum hætti og Conor McGregor gaf ræðu sem gleymist seint. Í ár duttu út tveir stærstu bardagar kvöldsins á síðustu stundu og Paddy Holohan tapaði í lokabardaga kvöldsins. Þau Aisling Daly, Neil Seery og Norman Parke sigruðu sína bardaga á meðan Holohan og Cathal Pendred töpuðu sínum bardögum. UFC bardagakvöldið í ár var ekki jafn einstök stund og í fyrra og mátti heyra saumnál detta þegar bardaga Smolka og Holohan lauk.

Vonbrigðin leyndu sér ekki á andliti Holohan er hann gafst upp eftir hengingu Smolka. Áhorfendur fögnuðu honum þó vel og innilega þegar hann þakkaði fyrir frábæra stuðninginn.

Holohan er vinsæll bardagamaður enda er hann alltaf í skemmtilegum bardögum. Hann verður líklegast aldrei UFC meistari en mun ávallt eiga sinn stað í hjarta bardagaáhugamanna fyrir skemmtilegan stíl sinn og karakter.

dalby till

Frábært jafntefli

Bardagi Darren Till og Nicolas Dalby var frábær skemmtun. Þeir fengu verðskuldað bónus fyrir besta bardaga kvöldsins og virtust báðir sáttir með jafnteflið. Till hafði yfirhöndina fyrstu tvær loturnar en Dalby kom ógnarsterkur til leiks í 3. lotu og var nálægt því að klára bardagann. Tveir dómarar dæmdu bardagann jafntefli og eru fáir sem kvarta yfir dómaraákvörðuninni.

Dalby sýndi þarna sem sést of sjaldan í MMA. Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur lotunum breytti hann leikáætlun sinni og óð óhræddur í Till. Hann virtist óhræddur við að rotast eða meiða sig og reyndi hvað hann gat til að vinna. Það er eitthvað sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Á þessu hæsta getustigi eiga menn að taka meiri áhættur og reyna eftir fremsta megni að klára bardagann ef þeir vita að þeir töpuðu fyrstu tveimur lotunum. Þessi áhætta hans borgaði sig og uppskar hann jafntefli í stað taps.

Næsta kynslóð Breta

Tom Breese sigraði Cathal Pendred með tæknilegu rothöggi í 1. lotu. Hann hefur nú sigrað báða bardaga sína í UFC með rothöggi í fyrstu lotu og litið vel út. Hann er ósigraður, bara 24 ára og hefur klárað alla níu bardaga sína. Að hans sögn ætlar hann að leiða næstu kynslóð breskra bardagamanna í UFC.

Fáir Bretar hafa komist langt í UFC síðan Michael Bisping kom fyrst fram á sjónarsviðið. Það er þá helst Dan Hardy sem hefur náð einhverjum árangri en annars fáir markverðir komið fram.

Nú þegar eru nokkrir efnilegir Bretar í UFC. Fyrrnefndur Breese gæti komist langt og þá stóð Darren Till sig vel gegn Dalby um helgina en Till er aðeins 22 ára gamall. Arnold Allen kom inn með hvelli þegar hann sigraði sinn fyrsta UFC bardaga og er hann mikið efni. Allen er aðeins 21 árs og verður gaman að fylgjast með þremenningunum í UFC.

Kannski verða þeir ekkert meira en Che Mills – efnilegir bardagamenn sem ná aldrei að festa sig í sessi í UFC. Engu að síður hefur aldrei komið svona bylgja af breskum bardagamönnum í UFC.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram í Brasilíu þann 7. nóvember. Þá mæta þeir Vitor Belfort og Dan Henderson í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular