Monday, June 17, 2024
spot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í desember 2018

Desember er geggjaður mánuður. Fjórir efstu bardagar listans gætu lent í efsta sæti í venjulegum mánuði. Við fáum fjóra titilbardaga og Gunnar Nelson sem er meira en nóg til að kæta alla MMA aðdáendur hér á landi.

10. Bellator 212, 14. desember – Brent Primus gegn Michael Chandler (léttvigt)

Michael Chandler er búinn að líta út eins og skrímsli í æfingum á Instagram. Bætið honum við hjá ykkur ef þið hafið ekki gert það. Hann ætlar sér að endurheimta titilinn sem hann tapaði gegn Brent Primus í júní árið 2017. Þá voru það meiðsli á fæti sem olli tapinu og síðan þá hefur Chandler unnið tvo bardaga og litið vel út. Primus er ósigraður en hefur ekki barist síðan hann vann titilinn vegna meiðsla á hné.

Spá: Chandler endurheimtir titilinn, TKO í annarri lotu.

9. UFC 231, 8. desember – Jimi Manuwa gegn Thiago Santos (léttþungavigt)

Þessi bardagi átti að fara fram fyrr á árinu en hann er nógu góður til að reyna aftur. Þessir tveir hafa þungar hendur og ættu að bjóða upp á góðan bardaga. Þetta gæti verið spurning um hver lendir fyrstu bombunni.

Spá: Manuwa ætti að vera tæknilega betri boxari. Hann rotar Santos í fyrstu lotu.

8. UFC Fight Night 142, 2. desember – Junior dos Santos gegn Tai Tuivasa (þungavigt)

Það hefur verið gaman að fylgjast með Tai Tuivasa. Hann afgreiddi alla sína andstæðinga í fyrstu lotu fram að Andrei Arlovski í hans síðasta bardaga. Þessir bestu munu valda honum vandræðum en það verður fróðlegt að sjá hvað hann kemst langt. Junior dos Santos er mjög erfitt próf en hann er þó ekki sami maðurinn og rotaði Cain Velasquez hér um árið.

Spá: Ég býst við nokkuð jöfnum bardaga, held að JDS taki þetta á stigum. Fyrsta tap Tuivasa.

7. UFC on Fox 31, 15. desember – Kevin Lee gegn Al Iaquinta (léttvigt)

Eftir erfiðan bardaga gegn Khabib Nurmagomedov fær Al Iaquinta annað glímuskrímsli. Fyrir Khabib bardagann hafði Iaquinta sigrað fimm andstæðinga í röð en getur hann sigrað glímumann á borð við Lee? Þessir kappar mættust áður árið 2014 og sigraði þá Iaquinta á stigum.

Spá: Lee sigrar með yfirburðum, uppgjafartak í þriðju lotu.

6. UFC on Fox 31, 15. desember – Edson Barboza gegn Dan Hooker (léttvigt)

Þetta er bardagi sem mun sennilega ekki fá mikla athygli en þeir sem hafa verið að fylgjast með Dan Hooker slefa af spenningi. Hooker rotaði Gilbert Burns og Jim Miller, báða í fyrstu lotu, í hans síðustu tveimur bardögum. Þessi bardagi gegn Edson Barboza mun segja okkur hvort hann sé tilbúinn í þá allra bestu.

Spá: Hooker lætur vita af sér með rohöggi í 2. lotu.

5. UFC 231, 8. desember – Valentina Shevchenko gegn Joanna Jedrzejczyk (fluguvigt kvenna)

Gæti núna verið komið að því að Valentina Shevchenko næli sér loksins í UFC titil? Shevchenko eltist við titilinn í bantamvigt um stund og rétt tapaði titilbardaga gegn Amanda Nunes í september í fyrra. Hún átti svo að mæta Nicco Montaño í bardaga um titilinn í fluguvigt í september á þessu ári en Montaño náði ekki vigt svo það var blásið af. Svo var það titilbardaginn við Sijara Eubanks sem átti að eiga sér stað á UFC 230. Nú skulum við vona að þessi bardagi verði að veruleika. Það sem er áhugavert við þennan bardaga við Joanna Jedrzejczyk er að þær mættust þrisvar í Muay Thai þar sem Shevchenko sigraði í öll skiptin.

Spá: Shevchenko virðist vera með númer Jedrzejczyk, hún sigrar á stigum.

4. UFC 232, 29. desember – Cris Cyborg gegn Amanda Nunes (fjaðurvigt kvenna)

Þessi bardagi er sennilega stærsti kvennabardagi sem hægt er að setja saman í dag. Ef einhver á að eiga séns í skrímslið sem kallast Cris ‘Cyborg’ er það ljónynjan Amanda Nunes. Nunes hefur sýnt fram á yfirburði í bantamvigt kvenna en spurningin er hvort hún sé of smávaxin fyrir hina tröllvöxnu Cyborg. Þessi verður vægast sagt spennandi.

Spá: Nunes mun standa sig vel en Cyborg verður bara of sterk. Cyborg sigrar á TKO í þriðju lotu.

3. UFC 231, 8. desember – Max Holloway gegn Brian Ortega (fjaðurvigt)

Þessi bardagi átti upphaflega að eiga sér stað á UFC 226 kvöldinu en honum var aflýst af læknisfræðilegum ástæðum tengdum Max Holloway. Vonandi er Holloway orðinn 100% hraustur en hann mun þurfa á því að halda gegn Brian ‘T-City’ Ortega. Ortega er ósigraður og hungraður í titil. Hann er þekktastur fyrir banvæn uppgjafartök en getur líka rotað eins og hann minnti á í hans síðasta bardaga gegn Frankie Edgar. Stílar þessara manna eru mjög ólíkir og bjóða upp á afar áhugaverða viðureign.

Spá: Holloway útboxar/sparkar Ortega og forðast uppgjafartök, sigrar á stigum.

2. UFC 231, 8. desember –  Gunnar Nelson gegn Alex Oliveira (veltivigt)

Nú er þessi veisla að bresta á. Það er mikil pressa á herðum Gunnars fyrir þennan bardaga þar sem sigur hefur sjaldan verið mikilvægari. Hann er hins vegar mjög sterkur andlega svo við höfum ekki áhyggjur af því. Alex Oliveira er mjög hættulegur andstæðingur en þó má ímynda sér að veikleikar hans falli vel að styrkleikum Gunnars. Oliveira er rotari en hann er líka villtur og gefur færi á sér bæði hvað varðar högg og fellur. Hann er góður á gólfinu en ætti ekki að vera í sama klassa og Gunnar. Það hlýtur því að vera markmið Gunnars að ná Oliveira niður í gólfið og klára bardagann þar. Það er mikið í húfi sem gerir þennan bardaga bara þeim mun meira spennandi.

Spá: Það verða nokkur óþægileg augnablik en Gunnar nær Oliveira niður í annarri lotu og klárar bardagann með „guillotine choke“.

1. UFC 232, 29. desember – Jon Jones gegn Alexander Gustafsson (léttþungavigt)

Loksins snýr Jon Jones aftur í búrið en næstum eitt og hálft ár er liðið síðan hann sigraði Daniel Cormier með eftirminnilegum hætti og var svo sviptur titilinum (og sigrinum) eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Nú er hann víst nýr maður (…aftur) og ætlar að minna hressilega á sig. Alexander Gustafsson er stórhættulegur andstæðingur fyrir Jones en hann er sá sem hefur komist næst því að sigra hann. Jones er því að mæta hans erfiðasta andstæðingi eftir langa fjarveru og þarf að vera í sínu besta formi.

Spá: Það er erfitt að spá gegn Jones en ég ætla samt að gera það. Gustafsson tekur þetta að þessu sinni á stigum.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular