0

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í mars 2019

Það hlýtur að vera stór mánuður þegar Jon Jones kemst ekki í topp 5 á listanum. Mars er sérstaklega stór mánuður fyrir veltivigt en átta af þeim allra bestu mætast, þar á meðal Gunnar Nelson í mikilvægum bardaga. Dembum okkur í þetta.

10. UFC Fight Night 148, 23. mars – Curtis Blaydes gegn Justin Willis (þungavigt)

Hér mætast tvær vonarstjörnur í þungavigt. Curtis Blaydes ætti að vera MMA aðdáendum kunnugur, hann var á rosalegri siglingu áður en hann mætti hnefum Francis Ngannou í nóvember. Willis er minna þekktur og minna reyndur en er ósigraður í UFC eftir fjóra bardaga, nú síðast gegn Mark Hunt í desember. Þetta er mikilvægur bardagi fyrir báða menn og ætti að verða fín skemmtun.

Spá: Blaydes sigrar á stigum.

9. UFC Fight Night 148, 23. mars – Stephen Thompson gegn Anthony Pettis (veltivigt)

Þetta er óvæntur bardagi enda fyrsti bardagi Anthony Pettis í veltivigt í UFC. Á góðum degi eru báðir þessir menn algjörir snillingar og á meðal bestu sparkara í bransanum. Þessi bardagi er því mjög áhugaverður en sú hætta er til staðar að hvorugur þori að láta höggin flæða af ótta við gagnhögg frá hinum. Þetta verður skák, vonum það besta.

Spá: Eftir tvær lotur þar sem lítið gerist kemur Wonderboy inn höfuðsparki, rothögg 3. lota hjá Thompson.

8. UFC Fight Night 146, 9. mars – Derrick Lewis gegn Junior dos Santos (þungavigt)

Þessir geta slegið en stílarnir eru eins ólíkir og hægt er að hugsa sér. Lewis er þessi þrammandi tortímandi á meðan dos Santos er hreyfanlegri bardagamaður. Úthaldið getur orðið stór þáttur í þessum bardaga en það virðist vera akkelisarhæll Lewis. Hann er hins vegar alltaf inni í bardaganum sama hversu slæmt útlitið verður.

Spá: JDS útboxar þreyttan Lewis og sigrar á stigum.

7. UFC Fight Night 147, 16. mars – Darren Till gegn Jorge Masvidal (veltvigt)

Górillan Darren Till snýr aftur eftir slæmt tap gegn Tyron Woodly í september. Að þessu sinni fær hann hinn reynda og klóka Jorge Masvidal sem lætur engan vaða yfir sig. Masvidal fær kannski ekki mikla virðingu en hann er erfiður andstæðungur fyrir alla. Öll töpin hans síðastu 10 ár eru mjög tæp töp á stigum sem hann hefði fræðilega getað unnið hefði hann verið vinnusamari.

Spá: Till útboxar Masvidal í temmilega leiðinlegum bardaga.

6. UFC 235, 2. mars – Jon Jones gegn Anthony Smith (létt þungavigt)

Það hefur verið gaman að fylgjast með upprisu Anthony Smith. Hann er stór og árásargjarn bardagamaður og er alltaf í skemmtilegum bardögum. Ef hann nær inn rétta högginu getur hann rotað hvern sem er en hefur hann getu til að ógna sjálfum Jon Jones? Eftir að hafa barist aðeins einu sinni á ári í fjögur ár er hressandi að sjá Jones berjast svona fljótt eftir sigur hans gegn Alexander Gustafsson í desember. Vonandi er þetta upphafið af nýjum spennandi kafla í ferli þessa magnaða bardagakappa.

Spá: Jones fer öruggu leiðina líkt og gegn Gustafsson. Fellir Smith og afgreiðir með höggum á gólfinu eða uppgjafartaki í fyrstu lotu.

5. UFC 235, 2. mars – Jeremy Stephens gegn Zabit Magomedsharipov (fjaðurvigt)

Þvílíkur bardagi og þvílíkt próf fyrir stjörnu á hraðri uppleið. Hér fær Zabit Magomedsharipov stórhættulegan andstæðing, númer sex á styrkleikalista UFC. Hingað til hefur Rússinn hæfileikaríki staðið sig vel í UFC en þetta verður hans fyrsti andstæðingur á topp 15. Stephens er góð mælistika fyrir Zabit en hann hefur í gegnum tíðina sigrað menn eins og Rafael dos Anjos, Renan Barão og Gilbert Melendez og er enn bara 32 ára þrátt fyrir 12 ár í UFC.

Spá: Zabit stenst þetta próf er erfitt verður það, sigur á stigum, besti bardagi kvöldsins.

4. UFC on ESPN 2 – 30. mars – Edson Barboza gegn Justin Gaethje (léttvigt)

Það er á svona stundum sem ég held að Sean Shelby sé algjör sadisti. Þetta er bardagi sem ég mun varla þora að horfa á. Einhver mun meiða sig mjög illa, sennilega báðir. Verður það hægri hendi Gaethje eða fótaspörk Barboza sem skilar sigri eða mun Gaethje loksins nota glímuna í UFC bardaga?

Spá: Barboza mun sparka fótunum undan Gaethje og klára hann með hásparki í annarri lotu.

3. UFC 235, 2. mars – Robbie Lawler gegn Ben Askren (veltivigt)

Þá er loksins komið að fyrsta bardaga Ben Askren í UFC. Askren er 34 ára ósgraður glímukappi, fyrrverandi Bellator og ONE FC meistari og MMA aðdáendur hafa látið sig dreyma um að sjá hann gegn þeim bestu. Hér mætir hann goðsögn og fyrrverandi UFC meistara, sjálfum Robbie Lawler. Spurningin verður þá, hversu góður er Lawler í glímu?

Spá: Þetta verður ekta Ben Askren bardagi, glímukennslustund þar til Askren kemur inn uppgjafartaki í þriðju lotu.

2. UFC 235, 2. mars – Tyron Woodley gegn Kamaru Usman (veltivigt)

Við skulum ekki minnast á Colby Covington (of seint), núna um helgina er stóra tækifæri Kamaru Usman. Tyron Woodley hefur virkað nánast ósigrandi undanfarin ár og það mun þurfa eitthvað rosalegt til að hrifsa af honum beltið. Usman er sterkur glímukappi líkt og Woodley en er hann bara lakari útgáfa af meistaranum?

Spá: Woodley hefur betur í glímunni og klárar bardagann með tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

1. UFC Fight Night 147, 16. mars – Leon Edwards gegn Gunnar Nelson (veltivigt)

Leon Edwards verður tólfti andstæðingur Gunnars Nelson í UFC og sigur hefur aldrei verið mikilvægri. Sigri Gunnar verður það annar hátt skrifaði andstæðingurinn í röð sem hann sigrar sem þýðir enn stærri tækifæri. Edwards er slunginn bardagamaður sem getur allt og á pappírunum virðist þetta nokkuð jafn bardagi. Nú er bara að krossleggja fingur.

Spá: Ég held að þetta verði tvísýnn bardagi sem fer allar þrjár loturnar. Gunnar sigrar á stigum.

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- Hlaupari
- Þriggja barna faðir
Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.