spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2015

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2015

Desember var frábær en janúar er yfirgengilega spennandi. Írinn hressi Conor McGregor berst en einnig fáum við endurkomu Anderson Silva og Nick Diaz sem mæta hvor öðrum í draumabardaga. Ofan á það fáum við einn rosalegasta bardaga í sögu UFC, Jon Jones á móti Daniel Cormier. Svo ekki sé minnst á Alexander Gustafsson.

Það er þó lítið um að vera fyrir utan UFC. Bellator er með einn viðburð þar sem Daniel Straus og Patricio “Pitbull” Freire mætast í annað skipti. WSOF er líka með einn viðburð þar sem Jake Shields berst við Brian Foster í aðal bardaganum.

Tate-McMann

10. UFC 183, 31. janúar, Miesha Tate gegn Sara McMann (bantamvigt)

Cat Zingano er efst á styrkleikalista UFC á eftir Rondu Rousey og berst við hana næst. Á eftir henni í röðinni eru tvær grjótharðar sem báðar hafa barist um titilinn og vilja annað tækifæri á móti Rousey. Þessi bardagi gæti gefið þeim það tækifæri þar sem það er  lítil önnur samkeppni í þyngdarflokknum, fyrir utan kannski Bethe Correia. Það verður áhugavert að sjá hvernig Tate gengur á móti glímuskrímsli eins og McMann.

Spá: Tate mun standa sig vel en mun þó ekki eiga svar við glímu McMann sem sigrar á stigum.

Henderson-and-Mousasi

9. UFC on Fox, 24. janúar, Dan Henderson gegn Gegard Mousasi (millivigt)

Hér mætast tveir af gamla skólanum sem hafa barist við alla nema hvorn annan. Henderson virkaði gamall í hans síðasta bardaga á móti Cormier. Kannski var það bara Cormier að þakka eða kannski er hann endanlega búinn að vera, enda 44 ára gamall. Mousasi er bara 29 ára sem er alveg ótrúlegt eftir 11 ára feril í MMA og 42 bardaga. Hann er einn sá besti í þyngdaflokknum en hefur átt erfiða bardaga á móti Jacare Souza og Lyoto Machida sem hann þarf að hrista af sér.

Spá: Mousasi ætti að sigra þetta sannfærandi. Hann forðast H-bombuna og hengir Henderson í þriðju.

tyron-woodley-kelvin-gastelum

8. UFC 183, 31. janúar, Tyron Woodley gegn Kelvin Gastelum (veltivigt)

Hér mætast tveir topp 10 kögglar í veltivigt í bardaga sem mun koma öðrum þeirra í mjög sterka stöðu. Sennilega mun sigurvegarinn þurfa einn sigur í viðbót áður en hann fær að berjast um titil þar sem samkeppnin er mjög mikil á toppnum. Fyrir utan slíkar pælingar er þetta frábær bardagi á milli tveggja nagla sem munu ekki gefa þumlung eftir. Báðir geta rotað. Báðir eru sterkir glímumenn. Bombur munu fljúga.

Spá: Báðir eru heitir en við spáum því að Gastelum nái inn fullkomna högginu og afgreiði Woodley í þriðju lotu.

Cerrone-Jury

7. UFC 182, 3. janúar, Donald Cerrone gegn Myles Jury (léttvigt)

Miles Jury fékk ekki mikla athygli eftir 12. seríu af The Ultimate Fighter þar sem hann tapaði á móti Al Iaquinta (sem vann seríuna). Hann hefur hins vegar unnið alla sex UFC bardgana sína en mætir hér hans lang erfiðasta andstæðingi til þessa. Cerrone er einn duglegasti bardagamaðurinn í UFC. Hann barðist fjórum sinnum á síðasta ári og vann í öll skiptin. Sigri hann Jury gæti hann hæglega fengið tækifæri til að berjast um titil.

Spá: Þessi bardagi mun segja okkur mikið um Jury og hversu langt hann getur náð í íþróttinni. Það er hins vegar ekki hægt að spá á móti Cerrone. Cerrone rotar Jury í 2. lotu í æsispennandi bardaga.

Bader-Davis

6. UFC on Fox, 24. janúar, Phil Davis gegn Ryan Bader (léttþungavigt)

Þessi bardagi er áhugaverður fyrst og fremst af því að hér mætast tveir af bestu glímuköppum þyngdarflokksins. Standandi eru stílarnir þó mjög ólíkir. Bader reynir að hlaða í eitt högg til að rota á meðan Davis heldur sig í fjarlægð með skrítnum spörkum og varkárum höggum. Hver tekur þetta?

Spá: Þetta gæti orðið nokkuð jafn bardagi en Davis er of sleipur til að Bader nái að rota hann. Davis á stigum.

Benson-Henderson-and-Eddie-Alvarez

5. UFC Fight Night 59, 18. janúar, Benson Henderson gegn Eddie Alvarez (léttvigt)

Áður en Conor McGregor stígur í búrið í Boston mætast fyrrverandi meistarar í þýðingamiklum bardaga í léttvigt. Það sem er áhugaverðast við þennan bardaga er að hvorugur má við öðru tapi. Eddie Alvarez tapaði frumraun sinni í UFC á móti Donald Cerrone og Henderson var rotaður í fyrstu lotu í hans síðasta bardaga á móti Rafael dos Anjos. Nú er að duga eða drepast.

Spá: Henderson finnur leið til að vinna bardaga af þessu tagi. Henderson, klofinn dómaraúrskurður.

Conor-McGregor-and-Dennis-Siver

4. UFC Fight Night 59, 18. janúar, Conor McGregor gegn Dennis Siver  (fjaðurvigt)

Það eru aftur jól þegar Conor stígur í búrið. Sumir vildu fá að sjá hann skora á José Aldo en sennilega var það rétt ákvörðun hjá UFC að láta hann fá einn bardaga í viðbót enda hefur hann bara barist fjórum sinnum í UFC. Andstæðingurinn að þessu sinni er reynslumikli Þjóðverjinn Siver sem enginn skal vanmeta. Siver er mjög góður sparkboxari sem er öflugur í glímu að auki.

Spá: Conor spáir aftur rothöggi í fyrstu lotu. Verðum við ekki að trúa honum?

gustafsson johnson

3. UFC on Fox, 24. janúar, Alexander Gustafsson gegn Anthony Johnson (léttþungavigt)

Alexander Gustafsson var hársbreidd frá öðrum bardaga við Jones en örlögin leiddu hann í aðra átt. Í stað Jones þarf hann að mæta hinum hættulega Anthony Johnson í heimabæ sínum, Stokkhólmi. Johnson er til alls líklegur. Hann er reynslumikill, höggþungur og með eina bestu felluvörnina í bransanum. Vinur og æfingafélagi Gustafsson, Phil Davis, átti ekkert svar við pressu Johnson svo nú þarf Gusty að hefna.

Spá: Gustafsson er í erfiðri stöðu og þessi bardagi verður mjög erfiður fyrir hann. Tilfinningin er hins vegar sú að hann finni leið til að sigra Johnson en sennilega fer bardaginn allar fimm loturnar.

Silva-and-Diaz

2. UFC 183, 31. janúar, Anderson Silva gegn Nick Diaz (millivigt)

Það er með ólíkindum að þetta skuli ekki vera stærsti bardagi mánaðarins. Þetta er sá bardagi sem flestir voru vonast eftir en trúðu kannski ekki að yrði að veruleika. Silva og Diaz eru MMA goðsagnir. Þeir eru báðir komnir yfir sitt besta en eiga sennilega nógu mikið eftir í nokkra stóra bardaga. Stílarnir eru mjög ólíkir. Diaz pressar, notar mikinn fjölda af höggum til að brjóta menn og klárar stundum með uppgjafartaki á gólfinu. Silva er hreyfanlegri, meira fyrir muay thai spörkin og brjálaðar en vel tímasettar árásir sem skila ótrúlegum árangri. Þessi bardagi ætti að segja okkur hvað þessir jaxlar eiga eftir.

Spá: Silva er of stór fyrir Diaz og með of góða vörn til að láta undan pressu hans. Silva nær að verjast til byrja með, meiðir svo Diaz með hnjám og spörkum og klárar með „ground and pound“ í þriðju lotu.

jones-vs-cormier1

1. UFC 182, 3. janúar, Jon Jones gegn Daniel Cormier (létt þungavigt)

Sjaldan hefur verið jafn heillandi bardagi á boðstólnum og þessi. Jones er búinn að vera magnaður meistari. Hann lamdi Shogun, svæfði Machida, niðurlægði Evans og braut Teixeira. Í pokahorninu er hann með Greg Jackson sem getur fundið aðferð til að sigra hvern sem er á pappír. Á sama tíma og Jones var að hreinsa léttþungavigtina var Cormier að rota menn eins og Bigfoot Silva í þungavigt. Síðan hann létti sig niður í léttþungavigt hefur hann aldrei litið betur út. Í síðasta bardaganum hans tuskaði hann Dan Henderson til eins og hann væri smábarn. Í frítímanum æfir hann með Cain Velasquez á meðan við hin erum að eyða tíma á Facebook.

Spá: Þetta er erfitt. DC notar pressu, fellur og tekur titilinn frá Jon Jones á sannfærandi hátt. Sigur á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular