0

Alan Jouban: Ég ætla að klára Gunnar Nelson

Alan Jouban mætir Gunnari Nelson á UFC bardagakvöldinu í London þann 18. mars. Jouban er hæst ánægður með bardagann enda er þetta stórt tækifæri fyrir hann.

Alan Jouban hefur sóst eftir bardaga gegn einhverjum á topp 15 styrkleikalistanum í veltivigtinni og fær nú ósk sína uppfyllta. Jouban er ekki á styrkleikalistanum eins og er og sér bardagann gegn Gunnari sem tækifæri til að taka stórt stökk upp á við.

„Gunnar er fullkominn andstæðingur, hann er nr. 9 í heiminum, fólk þekkir hann, hann er harður og góður á öllum vígstöðum. Að klára hann kemur mér á topp 10 í þyngdarflokkinum,“ segir Jouban.

Jouban ætlar að gera það sama og Jorge Masvidal gerði með sigrinum á Donald Cerrone. Fyrir bardagann var Masvidal ekki ofarlega á styrkleikalistanum í UFC en eftir sigur á Cerrone skaust hann upp um mörg sæti. Jouban sér Gunnar sem gott tækifæri til að komast á topp 10 í veltivigtinni.

„Hann er góður bardagamaður en ég ætla að vinna hann. Mér finnst ég hafa allt sem til þarf. Ég hef hugarfarið, ég er í góðu formi, ég hef réttu tólin, er einbeittur og ætla að sýna hvað ég get. Ég ætla að klára Gunnar Nelson og þaðan get ég komist í titilbaráttuna.“

Viðtalið má sjá hér að neðan en þar má meðal annars heyra spyrilinn gera þau afdrifaríku mistök að kalla Gunnar írskan.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.