spot_img
Monday, November 25, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaEndurkoma Gunnars, stressið og geðveikin á UFC 189

Endurkoma Gunnars, stressið og geðveikin á UFC 189

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Loksins loksins er 11. júlí runninn upp. Dagurinn sem bardagaaðdáendur hafa beðið eftir er genginn í garð og risabardagakvöldið UFC 189 fer fram í kvöld.

Þetta er kvöld sem bardagaaðdáendur um allan heim hafa beðið eftir. Íslendingar eru eflaust spenntastir fyrir því að sjá okkar mann berjast en heimurinn bíður eftir bardaga McGregor og Mendes.

UFC 189 verður eitt stærsta bardagakvöld sögunnar. Gott dæmi um stærð viðburðarins var vigtunin í gær en hún var sú stærsta frá upphafi UFC þar sem 10.000 manns horfðu á menn fækka fötum og stíga á vigt. UFC kann svo sannarlega að setja saman sýningu fyrir fólkið og hafa Írarnir tekið yfir Vegas enn einu sinni.

Gunnar Nelson mætir Brandon Thatch í kvöld. Undirritaður er alltaf gífurlega stressaður fyrir bardögum Gunnars (sennilega stressaðri en Gunnar sjálfur) og ekki batnaði ástandið þegar Brandon Thatch kom í stað Hathaway. Thatch er killer, 11 sigrar og allt eftir rothögg eða uppgjafartak í fyrstu lotu.

Ég verð samt að viðurkenna að stressið hefur snarminnkað eftir að hafa fylgst með Gunnari æfa í vikunni. Það er eitthvað við hann sem fyllir mig meira öryggi. Spjall við þjálfara hans, John Kavanagh, Jón Viðar Arnþórsson og Owen Roddy hefur minnkað stressið enn meira og sjá þeir greinilegan mun á honum eftir tapið gegn Rick Story.

Tapið gegn Story var erfið en dýrmæt reynsla fyrir Gunnar og kannski verður sigur í kvöld upphafið að einhverju frábæru. Tap gegn Thatch verður þó enginn heimsendir þar sem ég held að Thatch geti farið mjög langt í veltivigtinni.

Skömmu áður en Gunnar berst líður mér alltaf líkamlega illa af stressi og í hvert einasta sinn spyr ég mig að því af hverju ég sé að gera mér þetta að horfa á þetta í beinni? Af hverju ekki bara að bíða eftir að úrslitin verða kunngjörð? Eftir hvern bardaga er ég löngu búinn að gleyma þessum áhyggjum og bíð bara spenntur eftir næsta.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Vanalega er ég lang spenntastur fyrir bardögum Gunnars en á UFC 189 hefur orðið breyting þar á. Ég veit eiginlega ekki hvort ég sé spenntari fyrir bardaga Gunnars eða Conor McGregor og Chad Mendes. Það verður stórkostleg skemmtun að fylgjast með þeirri viðureign.

UFC 189 er í raun lygilega spennandi bardagakvöld. Bardagi Tim Means og Matt Brown gæti orðið bardagi ársins (Tim Means lofaði mér því allavega), Thomas Almeida gæti sett upp sýningu og svo má ekki gleyma titilbardaga Robbie Lawler og Rory MacDonald. Þetta er geggjað!

Ballið byrjar kl 23 á Íslandi eða kl 16 hér í Vegas. Eftir alla spennuna og fjölmiðlafárið snýst allt um bardagana í kvöld. Loksins er komið að þessu, Gunnar og Conor berjast í kvöld.

Ég get hreinlega ekki beðið.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular