spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í maí 2017

Maí verður þrusugóður mánuður, fyrst og fremst út af UFC 211 sem gæti hæglega orðið besta MMA kvöld ársins hingað til. Kvöldin þennan mánuðinn eru ekki mörg en gæðin eru mikil. Kíkjum á þetta.

10. Bellator 179, 19. maí – Michael Page gegn Derek Anderson (veltivigt)

Michael Page er einn heitasti MMA bardagamaðurinn fyrir utan UFC og er á góðri leið með að verða stjarna. Hann á tvo bardaga eftir á samningi sínum við Bellator og mun svo sennilega láta UFC og Bellator bjóða í sig. Hér mætir hann Derek Anderson sem er ungur og reyndur en verður það nóg?

Spá: Page sigrar á einhverju fáranlegu rothöggi.

9. UFC 211, 13. maí – Henry Cejudo gegn Sergio Pettis (fluguvigt)

Sergio Pettis er ungur og efnilegur bardagamaður en nú fær hann alvöru próf. Henry Cejudo er einn besti glímumaðurinn í UFC og hefur barist um titilinn gegn Demetrious Johnson.

Spá: Cejudo tekur Pettis í kennslustund og sigrar örugglega á stigum.

8. UFC Fight Night 109, 28. maí – Volkan Oezdemir gegn Misha Cirkunov (léttþungavigt)

Það var mikill léttir að sjá Misha Cirkunov gera samning við UFC en það leit út fyrir að hann væri á útleið. Cirkunov hefur litið frábærlega út í UFC en hann hefur klárað alla fjóra andstæðinga sína í þunnskipaðri léttþungavigt. Andstæðingur hans að þessu sinni, Volkan Oezdemir, kom á óvart í hans fyrsta UFC bardaga í febrúar með sigri á Ovince St. Preux.

Spá: Oezdemir er minna þekkt stærð en gerum ráð fyrir að Cirkunov leysi ráðgátuna og afgreiði Svisslendinginn með uppgjafartaki í annarri lotu.

7. UFC 211, 13. maí – Frankie Edgar gegn Yair Rodríguez (fjaðurvigt)

Yair Rodríguez hefur verið meira og minna fullkominn í UFC til þessa en þessi bardagi er mjög mikilvægt augnablik á hans ferli. Nái hann að sigra fyrrverandi léttvigtarmeistara Frankie Edgar segir það okkur ýmislegt um þennan unga (24 ára) mann. Þetta verður hörku viðureign, spörk Rodríguez gegn box-glímu Edgar.

Spá: Rodríguez er góður en hann er ekki tilbúinn fyrir „svarið“. Edgar sigrar á stigum.

6. Bellator 179, 19. maí – Rory MacDonald gegn Paul Daley (veltivigt)

Loksins er komið að því að Rory MacDonald berjist í fyrsta sinn í Bellator. Rory er bara 27 ára og það er næstum ár síðan við sáum hann síðast, þá gegn Stephen Thompson. Paul Daley er fullkominn andstæðingur fyrir MacDonald. Hann er þekkt nafn, vinsælll og ætti að vera viðráðanlegur þrátt fyrir þungar hendur.

Spá: MacDonald sigrar örugglega á stigum.

5. UFC 211, 13. maí – Eddie Alvarez gegn Dustin Poirier (léttvigt)

Ú baby, þessi verður góður. Eddie Alvarez þarf að sanna sig aftur (sérstaklega fyrir sjálfum sér) eftir slæmt tap gegn Conor McGregor. Hann fær ekki beint auðveldan bardaga en Dustin Poirier þarf varla að kynna fyrir neinum. Þetta ætti að vera hörku viðureign og báðir munu þurfa að grafa djúpt til að ná fram sigri.

Spá: Við getum næstum kastað krónu en segjum að Poirier roti Alvarez í annarri lotu.

4. UFC Fight Night 109, 28. maí – Alexander Gustafsson gegn Glover Teixeira (léttþungavigt)

Það var kominn tími á að þessir myndu mætast í búrinu. Alexander Gustafsson er viðurkenndur af mörgum sem þriðji besti bardagamaðurinn í léttþungavigt á eftir Jon Jones og Daniel Cormier, sérstaklega nú þegar Anthony Johnson er hættur. Glover Teixiera er 37 ára og fer að nálgast enda síns ferils en er ennþá mjög hættulegur. Hann er höggþungur og góður á gólfinu en spurningin er, er hann nógu lipur til að ná til Gustafsson?

Spá: Gustafsson heldur sig frá Teixeira, útboxar hann og klárar með höggum í fjórðu lotu.

3. UFC 211, 13. maí – Joanna Jędrzejczyk gegn Jéssica Andrade (strávigt kvenna)

Joanna Jędrzejczyk hefur litið frábærlega út í UFC hingað til en hún hefur aldrei mætt bolabít á borð við Jéssica Andrade. Allt snýst þetta um stíla og stíll Andrade er stórhættulegur fyrir hvern sem er. Hún er með hraðar og þungar hendur og er mjög árásagjörn. Þetta er bardagi sem margir hafa beðið eftir í þessum þyngdarflokki.

Spá: Þetta verður stríð en höggþyngd Andrade mun skila henni tæknilegu rothöggi í þriðju lotu. Nýr meistari í stávigt kvenna.

2. UFC 211, 13. maí – Demian Maia gegn Jorge Masvidal (veltivigt)

Toppbaráttan í veltivigt nær ákveðnum hápunkti með þessum bardaga. Flestir eru sammála um að Demian Maia eigi þegar skilið að berjast um beltið en hann þarf engu að síður að komast yfir enn eina hindrunina. Að tala um Jorge Masvidal sem hindrun er vægt til orða tekið. Masvidal er reynslubolti sem getur allt og hefur séð allt. Hann er á besta aldri, 32 ára gamall og hefur litið hrikalega vel út í hans síðustu þremur bardögum, síðast gegn Donald Cerrone.

Spá: Masvidal gæti hæglega skemmt fyrir titildraumum Maia en við skulum segja að Maia taki þetta á stigum.

1. UFC 211, 13. maí – Stipe Miocic gegn Junior dos Santos (þungavigt)

Þegar þessir tveir mættust fyrst árið 2014 sigraði dos Santos á stigum í bardaga þar sem báðir þurftu að gefa allt sem þeir áttu til að knýja fram sigur. Sá bardagi er síðasta tap meistarans Stipe Miocic. Nú er spurningin, hvor hefur lært meira á tveimur og hálfu ári? Báðir þessir menn vilja yfirleitt standa og boxa og fáir standast þeim snúninginn í þeim efnum. Miocic er með bakgrunn í glímu svo hann gæti notfært sér það meira en síðast. Báðir litu vel út í þeirra síðasta bardaga og báðir eru grjótharðir svo búast má við nokkuð jöfnum bardaga.

Spá: Þetta verður ákveðin endurtekning en Miocic mun standa sig betur að þessu sinni og sigra örugglega á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular