spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2014

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2014

Eftir rólegan ágúst kemur ansi spennandi september mánuður. Því miður meiddist Jon Jones og bardagi hans við Daniel Cormier frestast til janúar. Það er engu að síður af nógu að taka.

Bellator snýr aftur með þrjú þokkaleg kvöld. Pat Curran berst t.d. aftur við Patricio „Pitbull“ Freire og Cheick Kongo berst við Lavar Johnson. WSOF og ONE FC eru líka með bardagakvöld en eins og venjulega þá er það UFC sem er með rjómann af bestu bardögum. Lítum yfir það helsta.

Antonio_Silva_and_Andrei_Arlovski

10. UFC Fight Night 51, 13. september – Antonio „Bigfoot“ Silva gegn Andrei Arlovski (þungavigt)

Þessir tvær mættust áður árið 2010 í Strikeforce þar sem Silva sigraði. Silva gegn Arlovski er aðalbardagi kvöldsins að þessu sinni sem er skrítið þar sem þeir hafa ekki gert mikið til að verðskulda það. Silva hefur ekki sést síðan hann gerði jafntefli við Mark Hunt (síðar breytt í „no contest“) og Arlovski leit illa út í endurkomu bardaga sínum gegn Brendan Schaub.

Spá: Arlovski virkaði hægur og stirður gegn Schaub. Kannski voru það taugarnar en kannski er hann búinn að vera. Silva sigrar á rothöggi í 2. lotu

johnson-cariaso

9. UFC 178, 27. september – Demetrious „Mighty Mouse“ Johnson gegn Chris Cariaso (fluguvigt)

Þetta er eini UFC titilbardaginn í september. Það þykir kannski skrítið að hafa hann ekki ofar á listanum en það er ekki mikil spennan sem fylgir þessum bardaga. Cariaso er mjög hæfileikaríkur, hann hefur núna unnið þrjá bardaga í röð en hann virðist alltaf tapa þegar hann berst við þá bestu í þyngdarflokknum. Johnson hefur á hinn bóginn virkað ósigrandi upp á síðkastið.

Spá: Spurningin er fyrst og fremst hvernig sigrar Johnson. Cariaso er seigur svo við skulum segja að þetta fari alla leið og Johnson sigri á stigum.

doug-marshall-vs-melvin-manhoef

8. Bellator 125, 19. september – Doug Marshall gegn Melvin Manhoef (millivigt)

Hér kemur Bellator bardagi sem enginn má missa af. Báðir þessir kappar eru þekktir fyrir að láta höggin flæða og báðir eru með dýnamít í lófunum.

Spá: Monhoef er nýkominn í Bellator eftir að hafa flakkað á milli sambanda undanfarin ár. Hann er 38 ára gamall en er tæknilega betri en Marshall. Manhoef rotar Marshall í þriðju lotu eftir styrjöld.

overeem-rothwell1

7. UFC Fight Night 50, 5. september – Alistair Overeem gegn Ben Rothwell (þungavigt)

Overeem og Rothwell eru tveir af stærstu MMA bardagamönnum í heimi. Þetta er bardagi sem verður annað hvort mjög stuttur og dramatískur eða langur og jafnvel leiðinlegur.

Spá: Báðir verða varkárir í byrjun en enda í skotárás sem endar með því að Overeem liggur rotaður í gólfinu í fyrstu lotu.

nelson hunt

6. UFC Fight Night 52, 20. september – Roy Nelson gegn Mark Hunt (þungavigt)

Þessi bardagi er svo rosalegur að það er erfitt að sjá fyrir sér hvað muni gerast. Hunt og Nelson eru báðir lágvaxnir miðað við tröllin í þungavigt. Báðir eru með gríðarlega höggþyngd og rosalega höku. Nelson er talsvert betri á gólfinu en vonandi mun hann nýta þann valkost sparlega.

Spá: Þetta er fimm lotu bardagi og nánast hvað sem er gæti gerst. Tilfinningin er sú að bardaginn verði nokkuð jafn standandi en að Nelson muni ná nokkrum fellum sem tryggja honum loturnar. Nelson sigrar á stigum eftir blóðuga viðureign.

Takeya-Mizugaki-Dominick-Cruz

5. UFC 178, 27. september – Dominick Cruz gegn Takeya Mizugaki (bantamvigt)

Loksins er greyið Dominick Cruz að berjast aftur. Cruz er búinn að vinna níu bardaga í röð í WEC og UFC en hefur ekki barist í tæp þrjú ár vegna meiðsla. Mizugaki er erfiður andstæðingur og góð mælistika til að meta hvar Cruz stendur í þyngdarflokknum í dag.

Spá: Cruz verður ryðgaður en mun samt sýna nóg af gömlu töktunum til að vinna. Hann er allt of hraður fyrir Mizugaki og sigrar örugglega á stigum.

Tim-Kennedy-and-Yael-Romero

4. UFC 178, 27. september – Tim Kennedy gegn Yoel Romero (millivigt)

Þetta er bardagi sem fáir eru að tala um en hann er stál í stál. Báðir þessir menn eru afburða glímumenn og með sterkustu mönnum í millivigt. Romero er goðsögn í glímuheiminum og hefur nú unnið fyrstu fjóra UFC bardagana sína, þrjá með rothöggi. Kennedy, líka ósigraður í UFC, hefur sigrað menn á borð við Robbie Lawler, Roger Gracie og Michael Bisping.

Spá: Romero er mögulega sterkari glímumaður en Kennedy er reyndari MMA bardagamaður. Kennedy notar yfirburða herkænsku og sigrar á stigum.

Ronaldo-Souza-and-Gegard-Mousasi

3. UFC Fight Night 50, 5. september – Ronaldo “Jacare” Souza gegn Gegard Mousasi (millivigt)

Hér mætast tveir af þeim bestu í millivigt. Souza er fyrrverandi Strikeforce meistari og jiu-jitsu heimsmeistari. Mousasi þarf varla að kynna en hann er á meðal reynslumestu MMA bardagamanni í heimi sem hefur aðeins tapað 4 sinnum í 41 viðureign.

Spá: Mousasi er erfiður viðureignar en Souza virðist hafa bætt sig meira upp á síðkastið. Souza er orðinn rotari auk þess að vera með heimsklassa jiu-jitsu. Það getur allt gerst í þessum fimm lotu bardaga en við segjum að Souza standi uppi sem sigurvegari.

cerrone alvarez

2. UFC 178, 27. september – Donald Cerrone gegn Eddie Alvarez (léttvigt)

Það var leiðinlegt að Bobby Green fékk ekki að berjast við Cerrone en það er erfitt að kvarta þegar maður fær svona bardaga. Alvarez er lengi búinn að vera einn besti bardagamaðurinn utan UFC en nú er hann loksins mættur. Hann fær ekki auðvelt verkefni í fyrsta bardaganum. Cerrone er á mikilli siglingu, hann hefur unnið fjóra bardaga í röð og hefur aldrei litið betur út. Nú fáum við loksins að sjá hversu góður Alvarez er í raun og veru.

Spá: Donald Cerrone bardagar eru alltaf skemmtilegir. Cerrone er alls ekki ósigrandi en hann er mjög erfiður andstæðingur fyrir hvern sem er. Við gerumst hins vegar djarfir og spáum því að Alvarez takist að sigra Cerrone í fjörugum bardaga. Tæknilegt rothögg, þriðja lota.

conor

1. UFC 178, 27. september – Dustin Poirier gegn Conor McGregor (fjaðurvigt)

Mighty Mouse gegn Cariaso er aðalbardagi UFC 178 en þetta er bardaginn sem allir vilja sjá. Líkt og með Alvarez snýst þessi bardagi um hversu góður McGregor er. Sigri hann Poirier eru honum allir vegir færir í fjaðurvigt. Poirier er stærra nafn en McGregor fyrst og fremst af því að hann hefur barist oftar í UFC. Þeir eiga nokkra sameiginlega andstæðinga en helsti munurinn á þeim er að Poirier hefur barist við andstæðinga hærra á styrkleikalistanum en McGregor. Hann tapaði fyrir Chan Sung Jung og Cub Swanson og hefur þrátt fyrir allt ekki sigrað neinn í topp 10 þrátt fyrir að vera skráður nr. 5.

Spá: McGregor sannar sig með dramatísku rothöggi í fyrstu lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular