Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 10 bestu titilbardagar allra tíma

Föstudagstopplistinn: 10 bestu titilbardagar allra tíma

Annað kvöld fara tveir UFC titilbardagar fram á UFC 181. Af því tilefni ætlum við að útnefna tíu bestu titilbardaga allra tíma.

10. Nick Diaz gegn Paul Daley – Strikeforce: Diaz vs. Daley (2011)

Þessi titilbardagi í Strikeforce var ein mögnuð lota! Paul Daley var nálægt því að klára Diaz en Diaz snéri taflinu við og kláraði Daley þegar þrjár sekúndur voru eftir af fyrstu lotunni. Ótrúlegur bardagi.

9. Gina Carano gegn Chris Cyborg – Strikeforce: Carano vs. Cyborg (2009)

Þetta var sögulegur viðburður þar sem þetta var í fyrsta sinn sem tvær konur voru í aðalbardaganum á stóru bardagakvöldi og í fyrsta sinn sem loturnar voru fimm mínútur en þær voru áður þrjár mínútur. Bardaginn var þrælskemmtilegur en Cyborg kláraði Carano með tæknilegu rothöggi þegar einungis ein sekúnda var eftir af fyrstu lotu.

8. Randy Couture gegn Chuck Liddell – UFC 43 (2003)

Það væri í raun hægt að hafa trílogíu þessara kappa í 8. sæti en látum nægja að hafa fyrsta bardagann hér. Allir þrír bardagarnir milli þeirra hafa verið upp á léttþungavigtarbeltið en sá fyrsti var um “interim” beltið. Randy Couture hafði á þessum tíma einungis barist í þungavigt og voru ekki margir sem áttu von á sigri frá “of gömlum” Couture. Öllum að óvörum hafði Couture ágætis yfirburði í bardaganum og sigraði eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu. Couture náði “mount” stöðu á Liddell og lét höggin dynja á honum þangað til dómarinn stöðvaði bardagann. Þetta var söguleg stund þar sem Couture varð þar með fyrsti maðurinn í sögu UFC til að sigra titila í tveimur þyngdarflokkum (þungavigt og léttþungavigt).

7. Forrest Griffin gegn Rampage – UFC 86 (2008)

Forrest Griffin hafði á þessum tíma sigrað Shogun Rua mjög óvænt og gegn Quintone ‘Rampage’ Jackson var hann aftur mun ólíklegri sigurvegari samkvæmt veðbönkum. Griffin lét sér fátt um finnast um stuðlana og sigraði Rampage eftir klofna dómaraákvörðun í frábærum bardaga.

6. Alexander Gustafsson gegn Jon Jones – UFC 165 (2013)

Það voru ekki margir sem töldu að Gustafsson ætti nokkurn séns í Jon Jones. Í kynningarmyndböndum fyrir bardagann talaði UFC um fátt annað en þarna væru tveir hávöxnustu léttþungavigtarmenn UFC að mætast. Það er eins og UFC hafi ekki haft neina trú á Svíanum. Gustafsson kom heldur betur á óvart og gaf Jones sína erfiðustu titilvörn til þessa. Bardaginn var einn besti bardagi ársins 2013 og bíða aðdáendur spenntir eftir því að sjá þessa tvo mætast aftur.

5. Frankie Edgar gegn Gray Maynard 3 – UFC 136 (2011)

Eftir jafntefli í fyrri titilbardaga Maynard og Edgar mættust þeir í þriðja sinn í október 2011. Í fyrri bardaganum kýldi Maynard Edgar niður í fyrstu lotu og það sama gerðist í seinni titilbardaganum. Eins og svo oft áður þá var Frankie Edgar fljótur að jafna sig og tók yfir bardagann. Hann gerði sér svo lítið fyrir og rotaði Maynard í 4. lotu og var bardaginn einhver magnaðasta endurkoma í sögu UFC.

4. BJ Penn gegn Sean Sherk

Það var mikið um illindi milli þessara bardagakappa enda hafði Sean Sherk misst titilinn eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Penn minnti hann oft á það í aðdraganda bardagans og voru illindin á milli þeirra ekta. Bardaginn stóð undir væntingum eftir allt umtalið en Penn kláraði Sherk eftir fljúgandi hnéspark í lok 3. lotu. Augnablikið verður seint gleymt enda er þetta rothögg í kynningarstefi UFC fyrir öll bardagakvöld.

bj penn sherk

3. Johny Hendricks gegn Robbie Lawler – UFC 171 (2014)

Þessi tveir kappar mætast aftur annað kvöld en fyrri bardagi þeirra var vægast sagt rosalegur. Í fimm lotur skiptust þeir á höggum í vasanum og sýndu ótrúlega hörku. Hendricks tók fyrstu tvær loturnar á meðan Lawler tók lotur þrjú og fjögur og því var allt undir í fimmtu og síðustu lotunni. Báðir lögðu allt undir en á endanum náði Johny Hendricks fellu sem tryggði honum fimmtu lotuna og þar með sigur eftir dómaraákvörðun. Ótrúlegur bardagi  og hugsanlega verður svipað uppi á teningnum annað kvöld.

2. Eddie Alvarez gegn Michael Chandler – Bellator 58 (2011)

Það var eitthvað undarlegt í loftinu þann 19. nóvember 2011 þar sem þetta kvöld fóru fram tveir magnaðir bardagar. Shogun Rua og Dan Henderson áttust við í einum ótrúlegasta bardaga í sögu MMA og sama kvöld fór fram næstbesti titilbardagi í sögunni að okkar mati. Eddie Alvarez er nánast alltaf sleginn niður í fyrstu lotum bardagans og á því var engin undantekning þetta kvöld. Chandler var í tvígang nálægt því að klára Alvarez með höggum en Alvarez lifði af – í bili. Alvarez tók yfir bardagann í næstu lotum og virtist vera í öruggum málum. Örþreyttur Chandler sló Alvarez niður í 4. lotu og kláraði hann í gólfinu með hengingu. Þeir mættust svo aftur í fyrra í frábærum bardaga þar sem Alvarez sigraði eftir klofna dómaraákvörðun.

1. Anderson Silva gegn  Chael Sonnen – UFC 128 (2010)

Flestir reiknuðu með auðveldum sigri frá meistaranum Anderson Silva gegn hinum kjaftfora Chael Sonnen. Annað kom á daginn enda tók Chael Sonnen meistarann niður í gríð og erg (líkt og hann sagðist ætla að gera) og virtist fara létt með það. Þegar fimmta lotan hófst hafði Chael Sonnen sigraði allar fjórar loturnar örugglega og var í þann mund að tryggja sér millivigtartitilinn. Það þurfti sannkallaða meistaratakta frá Anderson Silva til að knýja fram sigur. Þegar rúmar 90 sekúndur voru eftir af síðustu lotunni læsti Silva “triangle” hengingu (með “armbar”) á Sonnen sem neyddist til að gefast upp. Þetta voru ótrúleg tilþrif og ógleymanlegt augnablik þegar bardaginn kláraðist. Eflaust eiga margir bardagaaðdáendir eftir að muna hvar þeir voru þegar þeir sáu Silva sigra Sonnen þann 7. ágúst 2010.

Chael Sonnen vs Anderson Silva

 

Komast titilbardagarnir annað kvöld á listann? Aðrir bardagar sem komu til greina: Josh Thomson vs. Gilbert Melendez 2, Lyoto Machida vs. Shogun Rua 1, Brock Lesnar vs. Shane Carwin, Donal Cerrone vs. Ben Henderson 1, Fedor Emelianenko vs. Mirko Cro Cop.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular