Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn - Besti grunnurinn fyrir MMA

Föstudagstopplistinn – Besti grunnurinn fyrir MMA

Eitt það skemmtilegasta við blandaðar bardagalistir er að sjá hvað gerist þegar ólíkir stílar mætast í búrinu. Íþróttin byrjaðji í raun sem tilraunastofa í þeim tilgangi að sjá hvað gerðist þegar t.d. karate bardagamaður mætti glímumanni. Í dag hefur þessi tilraun þróast út í íþróttina sem við elskum öll þar sem allir verða að geta bjargað sér standandi jafnt sem og í gólfinu. Spurningin er samt enn, hver er besti grunnurinn fyrir MMA?

Það er ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu og þessi listi er bara álit eins manns. Engu að síður er gaman að velta þessari spurningu fyrir sér. Vindum okkur í þetta.

10. Fimleikar

Fimleikar eru auðvitað ekki bardagalist en það er fátt sem undirbýr líkamann betur undir álagið sem fylgir ferli í MMA. Fimleikar veita iðkendum mikinn líkamlegan styrk, liðleika og jafnvægi. Sjálfur Georges St. Pierre hefur stuðst mikið við fimleika samhliða MMA þjálfun en fáir hafa byrjað í fimleikum og endað í MMA.

Dæmi: Brandon Hempleman.

9. Kung Fu

Kung Fu er ekki bara í Jackie Chan og Jet Li myndum. Iðkandi Kung Fu uppsker kraft og snerpu en því miður eru ekki mörg dæmi um Kung Fu sérfræðinga í MMA.

Dæmi: Roy Nelson, Jason Delucia.

yipman

8. Hnefaleikar

Hraðar og öflugar hendur er ómetanlegt í MMA bardaga. Engin íþrótt er betri til að þróa góða stungu, upphögg, króka og hægri hendi en hnefaleikar. Það kemur kannski ekki á óvart en enginn elítu boxari hefur prófað MMA fyrr en alveg í lok ferilsins.

Dæmi: Ray Mercer, Art Jimmerson, Ricardo Mayorga, James Toney.

7. Karate

Karate er ekki íþrótt sem fékk mikla virðingu áður en Lyoto Machida kom á sjónarsviðið. Hún þótti ekki áhrifarík en reyndin er allt önnur. Karate byggist upp á snarpri fótavinnu sem gerir bardagamanninum kleift að koma inn þungum höggum og koma sér undan í hvelli.

Dæmi: Gunnar Nelson, Lyoto Machida, Stephen Thompson.

6. Tae Kwon Do

Tae Kwon Do er íþrótt þekkt fyrir brjáluð spörk og, líkt og Karate, hefur hún ekki fengið verðskuldaða viðurkenningu. Nokkrir lykil bardagamenn, sjá að neðan, breyttu hins vegar því viðhorfi. Hættuleg hringspörk og háspörk beint í skallann eru uppskrift af stórkostlegum rothöggum.

Dæmi: Cung Le, Anderson Silva, Ben Henderson, Anthony Pettis.

tae

5. Júdó

Jafnvægi, fellur og uppgjafartök eru mikilvæg vopn að hafa í búrinu. Hæfileikaríkur júdókappi getur snúið andstæðingnum á haus með lítilli mjaðmahreyfingu eins og Ronda Rousey hefur sýnt fram á. Það má sennilega búast við fleirum úr júdóheiminum í MMA á næstu misserum.

Dæmi: Karo Parisyan, Ronda Rousey.

4. Sparkbox (Kickbox / Muay Thai)

Allir bardagar byrja standandi svo það er mikilvægt að vera með öflugt vopnabúr af höggum og spörkum. Sparkbox, hvaða nafni sem íþróttin kallast, er frábær grunnur fyrir MMA. Hné eða spark eftir vel þjálfaðann sparkboxara getur gert út af við bardaga á augabragði. Ótal bardagamenn hafa byrjað í sparkboxi og átt frábæran feril í MMA.

Dæmi: Donald Cerrone, Joanna Jędrzejczyk, Pat Barry, Alistair Overeem.

3. Brasilískt jiu-jitsu

Það þekkja allir sögu fyrstu UFC kvöldana. Royce Gracie kom sá og sigraði og sýndi heiminum hversu öflugt jiu-jitsu getur verið. Í dag verða allir að geta að minnsta kosti varið sig í jiu-jitsu og mjög algengt er að bestu uppgjafarglímukappar heims færi sig yfir í MMA líkt og t.d. Garry Tonon og Kron Gracie eru að gera um þessar mundir.

Dæmi: Royce Gracie, Frank Mir, Antonio Rodrigo Nogueira, Ronaldo Souza, Fabricio Werdum, ‘Jacare’ Souza, Demian Maia.

kron aoki

2. Glíma (Freestyle wrestling / Greco Roman wrestling)

Margir eru á því að glíma sé mikilvægasti grunnurinn í MMA og ekki af ástæðulausu. Góðir glímumenn hafa það fram yfir andstæðinga sína að þeir geta valið hvar bardaginn fer fram. Þessi valkostur er gulls ígildi þegar höggin fara að dynja og hefur tryggt mörgum, fyrst og fremst amerískum, glímuköppum sigur í gegnum tíðina. Einn helsti kosturinn við þjálfun í glímu er andlegur styrkur en glímumenn þykja einstaklega harðir af sér.

Dæmi: Matt Hughes, Randy Couture, Yoel Romero, Daniel Cormier, Johny Hendricks.

1. Combat Sambo

Combat Sambo er nánast sama íþrótt og MMA. Fatnaðurinn er öðruvísi en íþróttin byggist á höggum, spörkum, fellum, glímu og uppgjafartökum. Íþróttin er rússnesk en innrás rússneskra bardagamanna í MMA hefur verið áberandi undanfarin misseri. Sá allra besti í dag er án efa Khabib Nurmagomedov sem stefnir óðum á UFC titil í léttvigt.

Dæmi: Fedor Emelianenko, Khabib Nurmagomedov, Rustam Khabilov.

sambo

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular