Saturday, April 27, 2024
HomeErlentJon Jones kominn með bardagaleyfið frá Kaliforníu

Jon Jones kominn með bardagaleyfið frá Kaliforníu

Jon Jones fékk í gær bardagaleyfið sitt aftur eftir að það var afturkallað fyrr á árinu. Jones snýr aftur í búrið þegar hann mætir Alexander Gustafsson á UFC 232 í lok desember.

Jon Jones féll á lyfjaprófi eftir sigur sinn á Daniel Cormier í júlí 2017. Bardaginn fór fram í Kaliforníu og afturkallaði CSAC (California State Athletic Commission) bardagaleyfið hans fyrr á árinu vegna lyfjaprófsins. Í gær fékk hann formlega leyfið sitt aftur en Jones kláraði bannið sitt í lok október.

Eftir langa rannsókn endaði Jones á að fá 15 mánaða bann frá gerðardómi USADA (sem sér um lyfjamál UFC) eftir að hann féll öðru sinni á lyfjaprófi hjá USADA. Jones hefði átt að fá mun lengra bann en bannið var stytt þar sem Jones lofaði að veita USADA upplýsingar um aðra bardagamenn sem eru að misnota frammistöðubætandi efni. Ákvörðunin var gríðarlega umdeild.

Jones mætti fyrir CSAC í gær til að fá aftur bardagaleyfið og fær hann það tímabundið gegn því að sinna samfélagsþjónustu í samvinnu við CSAC. Jones óskaði eftir að fá að vinna með ungmennum í Gracie Barra bardagaklúbbunum í Anaheim og Albuquerque með það að markmiði að klára samfélagsþjónustuna á fyrsta ársfjórðungi 2019.

Jones er reglulega lyfjaprófaður af USADA en CSAC mælti með að Jones myndi sjálfviljugur fara í frekari lyfjapróf hjá VADA (Voluntary Anti-Doping Association) í 3-4 mánuði.

„Ég veit að þú hefur sagt að þú sért ánægður að USADA hafi sagt að þú hafir ekki tekið inn efnin viljandi í lyfjaprófinu og allt það. En ég og þú vitum bæði að það er mikill fjöldi sem hefur sínar efasemdir, ekki satt? Það er ekki einu sinni lítill vafi í huga fólks,“ sagði Shen-Urquidez við Jones í gær.

CSAC vildi því að Jones myndi gangast undir frekar lyfjapróf til að sýna fram á sakleysi sitt. Jones er ekki skyldugur til þess og telur CSAC að þetta myndi einungis gagnast Jones til að sýna fram á sakleysi sitt. CSAC myndi greiða fyrir þessi auka lyfjapróf.

Jones getur neitað að gangast undir þessi auka VADA lyfjapróf án þess að fá sekt en hann mun áfram vera tekinn í lyfjapróf af USADA. Jones og hans lið ætla að skoða hvað felst í þessum lyfjaprófunum áður en endanlög ákvörðun verður tekin.

Stjórnarformaður CSAC, Andy Foster, varði Jon Jones í gær og telur hann vera saklausan. „Ég held að Jones sé ekki viljandi að taka inn þessi ólöglegu efni. Ég trúi því bara ekki. Ef svo er, er hann einn allra lélegasti svindlari í bardagaíþróttum. Hann féll á eina lyfjaprófinu sem hann vissi nákvæmlega hvenær færi fram,“ sagði Foster í gær.

Jones stóðst mörg óvænt lyfjapróf í aðdraganda bardagans gegn Daniel Cormier en féll á lyfjaprófi sem tekið var daginn fyrir bardagann. Anabólíski sterinn Turinabol fannst í lyfjaprófinu en Jones segist ekki skilja hvernig sterinn komst í kerfið hans.

Jones mætir Alexander Gustafsson á UFC 232 þann 29. desember.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular