Árið 2015 er að baki en á því ári fengum við að sjá nokkra af þeim risastóru bardögum sem okkur hafði dreymt um árið áður. Við sáum Jon Jones sigra Daniel Cormier, Holly Holm rota Rondu Rousey og Conor McGregor ganga frá José Aldo á 13 sekúndum. En hvað viljum við sjá í ár?
Það verður að segjast eins og er að það er ekki svo mikið af RISAstórum draumabardögum eftir á óskalistanum en það er hins vegar alltaf eitthvað spennandi framundan í MMA. Þær spurningar sem við stöndum frammi fyrir eru margar hverjar áhugaverðar.
Mun Conor McGregor vinna titilinn í léttvigt? Hvernig kemur Jon Jones til baka eftir langa fjarveru? Hvað verður um Rondu Rousey? Hvernig kemur Gunnar Nelson til baka eftir tapið gegn Demian Maia? Er Cain Velasquez tímabilið á enda? Svo mætti áfram telja. Kíkjum yfir 10 bardaga sem við myndum vilja sjá á árinu.
10. Demetrious Johnson gegn Henry Cejudo
Það er ekki ólíklegt að þessi bardagi verði næstur á dagskrá hjá „Mighty Mouse“ og hann ætti að vera það. Cejudo er búinn að vinna sig upp í þriðja sæti á styrkleikalista UFC með fjórum sigrum. Cejudo er Ólympíugullverðlaunahafi og mesta ógnin við meistarann eins og staðan er í dag. Það verður erfitt fyrir Cejudo að eiga við músina en okkur langar að sjá það.
9. Joanna Jędrzejczyk gegn Rose Namajunes
Joanna Jędrzejczyk er enn ósigruð en hún sigraði Claudia Gadelha aðeins með naumindum. Bardagi á milli þeirra er líklega næstur á dagskrá en við viljum líka sjá hana gegn Rose Namajunes. Namajunes þótti mjög efnileg þegar hún tók þátt í The Ultimate Fighter og stimplaði sig svo rækilega inn með afgerandi sigri á Page Vanzant í desember. Jędrzejczyk er algjört skrímsli en bardagi við Namajunes væri mjög áhugaverður.
8. Chris Weidman gegn Jacare Souza
Þessir tveir töpuðu báðir sínum bardögum á UFC 194. Það væri rakið að láta þá berjast um bronsið ef svo má segja og sigurvegarinn gæti þannig skotið sér beint upp í bardaga um titilinn með sigri á hátt skrifuðum andstæðingi. Þeir hafa aldrei barist áður og auk þess eru stílarnir mjög áhugaverðir. Báðir eru sterkir glímumenn sem geta líka slegið. Hver vill ekki sjá þennan bardaga?
7. José Aldo gegn Frankie Edgar 2
Þar sem Conor McGregor er að fara upp í léttvigt þarf lífið að halda áfram í fjaðurvigt. José Aldo og Frankie Edgar börðust áður fyrir þremur árum en það var síðasta tap Edgar. Sá bardagi var mjög jafn og annar bardagi á milli þeirra yrði frábær skemmtun. Auk þess myndi hann skera úr um hver fengi að berjast við Conor McGregor ef hann færi aftur niður í fjaðurvigt.
6. Robbie Lawler gegn Demian Maia
Sumum kann að finnast þetta óspennandi bardagi. Hugsið samt aðeins út í það. Robbie Lawler er þegar búinn að sigra Johny Hendricks, Rory MacDonald og Carlos Condit, svo ekki sé minnst á Matt Brown og Jake Ellenberger. Tyron Woodley er vissulega á hliðarlínunni og sá bardagi væri líka frábær en það er samt eitthvað mjög heillandi við að sjá hvort að Demian Maia getið drekkt Robbie Lawler líkt og hann hefur gert við svo ótal marga aðra. Hann á ekki endalausan tíma eftir, orðinn 38 ára, gefum honum tækifærið.
5. Luke Rockhold gegn Yoel Romero
Luke Rockhold er nýji meistarinn í millivigt. Ef maður þekkir UFC eru góðar líkur á að hann berjist strax aftur við Chris Weidman. Það væri ekki slæmur bardagi en við erum komnir með pínu nóg af öllum þessu sífelldu endurtekningum, sérstaklega þegar við erum með verðugan áskoranda tilbúinn í slaginn. Romero væri mjög áhugaverður andstæðingur fyrir Rockhold og það er bardaginn sem við ættum að fá næst, punktur.
4. Holly Holm gegn Cat Zingano
Ronda Rousey mun berjast aftur við Holly Holm ákveði hún að halda áfram í MMA, það er óumflýjanlegt. Það verður hins vegar að gefa Rousey tíma til að jafna sig á þessu áfalli og æfa nýjar varnir og gagnsóknir. Það hefur þegar verið gefið út að Holm berjist ekki við Rousey næst svo spurningin er hver er næst. Valið virðist vera á milli Mieshu Tate og Cat Zingano og líklega verður það sú fyrrnefnda þar sem hún er stærri stjarna og er ofar á styrkleikalistanum. Það má hins vegar ekki gleyma því að Zingano sigraði Tate og Amanda Nunes sem er nr. 4 á listanum. Það var erfitt að sjá Zingano klúðra tækifæri sínu gegn Rousey, við viljum því sjá hana fá annað tækifæri.
3. Gunnar Nelson gegn Thiago Alves
Það eru um það bil tíu andstæðingar sem koma til greina fyrir endurkomu Gunnars í búrið. Það er í raun enginn slæmur valkostur en Thiago Alves væri virkilega skemmtilegur andstæðingur. Hann er með nokkuð stórt nafn og mikla reynslu. Hann er frábær standandi, ekki ósvipaður stíll og Brandon Thatch en þó öðruvísi líkamstegund. Þessi yrði mjög áhugaverður.
2. Jon Jones gegn Daniel Cormier 2
Þó svo að þessir tveir hafi barist áður fyrir aðeins ári síðan er tilhugsunin um annan bardaga mjög spennandi. Eins og öllum er kunnugt um hefur Jones ekki barist síðan fyrsti bardaginn fór fram. Jones vann nokkuð sannfærandi en Cormier stóð sig engu að síður mjög vel og hefur síðan unnið titilinn í fjarveru Jones og varið hann einu sinni. Hvernig mun Jones líta út eftir langa fjarveru og hversu gaman verður að hlusta á þessa félaga rífast aftur?
1. Conor McGregor gegn Rafael dos Anjos
Í morgun bárust þær fregnir að þessir kappar munu mætast í mars. Eins og er er þetta mest spennandi bardagi ársins enda tveir meistarar að fara að berjast. Undanfarið hefur Rafael dos Anjos litið út eins og tortímandi í búrinu. Hann lamdi Anthony Pettis sundur og saman og rotaði bæði Benson Henderson og Donald Cerrone. Conor McGregor hefur áður barist í léttvigt en við vitum samt ekki hversu öflugur hann verður í þeim þyngdarflokki í UFC. Það verður því mjög áhugavert að sjá hvernig spilast úr þessum bardaga þann 5. mars á UFC 197. Sem auka bónus verður spennandi að sjá hvort að McGregor takist ætlunarverk sitt og verði meistari í tveimur þyngdarflokkum samtímis sem er afrek sem engum hefur tekist hingað til.