spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2015: Bestu bardagar ársins

2015: Bestu bardagar ársins

Árið 2015 var sérstaklega gott fyrir MMA. Það var mikil dramatík bæði innan og utan búrsins, fjölmörg belti skiptu um eigendur og mikið var um eftirminnilega bardaga.

Góður bardagi er hins vegar huglægt hugtak. Flestir tengja það við viðureign þar sem atburðarrásin er hröð og keppendur skiptast á að hafa yfirhöndina. Þegar bestu bardagar ársins eru valdir þarf að hafa í huga heildar samhengið, ekki bara bardagann sjálfann. Bardaginn má ekki vera of einhliða svo ekki búast við að sjá bardaga Rondu Rousey og Holly Holm á listanum, svo dæmi sé tekið. Það er mikilvægt hverjir eru að berjast og hvað er í húfi. Bestu bardagar ársins þurfa því að skipta einhverju máli í stóra samhenginu. Með það í huga skulum við líta yfir listann.

dos anjos vs pettis

10. Rafael dos Anjos gegn Anthony Pettis – UFC 185

Fáir gáfu Rafael dos Anjos mikla möguleika gegn ríkjandi meistara Anthony Pettis. Það kom því mikið á óvart þegar dos Anjos náði að pressa Pettis upp við búrið og raða inn höggum. Pettis barðist eins og ljón en höggin virtust hrökkva af dos Anjos sem sigraði sannfærandi á stigum.

rockhold weidman

9. Chris Weidman gegn Luke Rockhold – UFC 194

Mikil eftirvænting var fyrir bardaga Weidman og Rockhold á UFC 194. Báðir eru Ameríkanar á besta aldri og hvorugur er með áberandi veikleika. Bardaginn var stál í stál eins og búist var við en eftir slæm mistök frá Weidman náði Rockhold ráðandi stöðu og gerði nánast út af við bardagann í þriðju lotu. Í fjórðu lotu átti Weidman ekkert eftir og eftirleikurinn var bara formsatriði.

The Ultimate Fighter Finale: Barboza v Ferguson

8. Tony Ferguson gegn Edson Barboza – TUF 22 finale

Þessi bardagi var besti bardagi stóru helgarinnar í kringum UFC 194. Hér mættust tveir af þeim hættulegustu í léttvigt og báðir ætluðu að vinna. Barboza er betri standandi en Ferguson náði honum niður í gólfið og kláraði að lokum með „D´Arce choke“ í annarri lotu.

jeremy stephens dennis bermudez

7. Jeremy Stephens gegn Dennis Bermudez – UFC 189

Beint í framhaldi af magnaðri frammistöðu Gunnars Nelson gegn Brandon Thatch stigu Jeremy Stephens og Dennis Bermudez í búrið og það var flugeldasýning. Báðir hlóðu í höggin en að lokum var það fljúgandi hné frá Stephens sem gerði út af við bardagann í þriðju lotu.

Daniel_Cormier_vs_Alexander_Gustafsson

6. Daniel Cormier gegn Alexander Gustafsson – UFC 192

Í sinni fyrstu titilvörn í léttþungavigt mætti Daniel Cormier Svíanum Alexander Gustafsson í október. Báðir höfðu átt erfiða bardaga við Jon Jones en Cormier var þó talinn sigurstranglegri. Bardaginn reyndist hrikalega spennandi og minnti á viðureign Jones og Gustafsson. Að lokum var það Cormier sem sigraði á stigum eftir klofinn dómaraúrskurð.

oliveira lentz

5. Charles Oliveira gegn Nick Lentz 2 – UFC fight night 67

Þessir tveir höfðu áður mæst árið 2011 í bardaga sem var úrskurðaður ógildur. Sá bardagi hafði lofað mjög góðu og þessi stóð undir öllum þeim væntingum. Bardaginn var jafn og fjörugur en að lokum var það jiu-jitstu snillingurinn Oliveira sem kláraði Lentz með „guillotine“ hengingu í þriðju lotu.

conor mendes

4. Conor McGregor gegn Chad Mendes – UFC 189

Það þarf varla að rifja upp aðstæðurnar í kringum UFC 189. José Aldo hætti við keppni og í hans stað kom allt öðruvísi andstæðingur, Chad Mendes. Gat Conor McGregor sigrað sterkan glímumann, það var spurningin? Bardaginn var þrususpennandi, McGregor hóf strax árás með hinum ýmsu skrokkhöggum en Mendes svaraði með fellum og stjórnaði bardaganum á gólfinu. Eftir nokkrar endurtekningar kláraði McGregor bardagann í annarri lotu með sínu besta höggi, beinni vinstri.

JJ vs DC

3. Jon Jones gegn Daniel Cormier – UFC 182

Þessi bardagi fór fram 3. janúar eftir mikla uppbyggingu og eftirvæntingu. Daniel Cormier var ósigraður og fyrrverandi Strikeforce Grand Prix meistari í þungavigt. Jon Jones var meistarinn í léttþungavigt og þessir tveir voru ekki beint bestu vinir. Bardaginn var mjög spennandi og jafn á köflum en að lokum var það Jones sem reyndist sterkari og sigraði sannfærandi á stigum.

arlovski browne

2. Andrei Arlosvki gegn Travis Browne – UFC 187 

Þessi var algjör tryllir. Fyrir bardagann var Browne talinn betri enda fimm sætum ofar á styrkleikalista UFC. Snemma í bardaganum meiddi Arlovski Browne með hægri hendi sem setti tóninn fyrir bardagann. Arlovski var á leið með að afgreiða Browne þegar Browne náði að svara með hægri hendi sem sló Hvítrússann í gólfið. Arlovski náði einhvern veginn að koma sér á fætur og kláraði Browne í lok fyrstu lotu. Besta lota ársins.

Robbie_Lawler_vs_Rory_MacDonald

1. Robbie Lawler gegn Rory MacDonald 2 – UFC 189 

Það var aldrei vafi á fyrsta sætinu. Bardagi Robbie Lawler og Rory MacDonald á UFC 189 fór fram úr björtustu vonum. Bardaginn var tæknileg styrjöld um titilinn í veltivigt. Báðir menn voru alblóðugir og allt stefndi í sigur MacDonald þegar Lawler teygði sig eftir einhverju ómennsku sem gerði út af við Kanadabúann í fimmtu lotu.

Þess má geta að Robbie Lawler vermdi einnig efsta sætið á þessum lista í fyrra sem verður að teljast nokkuð vel af sér vikið.

2015: Stærstu fréttir ársins (Erlent)

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular