Friday, March 29, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2015

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2015

Í júlí verða fimm UFC kvöld með samtals 54 bardögum. UFC nær allri okkar athygli þennan mánuðinn enda eitt stærsta UFC kvöld ársins í vændum.

Það er þó nóg um að vera á öðrum vígstöðum. Bardagakvöld í Bellator þar sem Douglas Lima ver titil sinn í veltivigt, ONE FC verður einnig með eitt kvöld þar sem Bibiano Fernandes ver titil sinn í bantamvigt og auk þess verður Invicta með eitt kvöld þar sem Christiano ‘Cyborg’ Santos verður í aðalhlutverki.

Það er því ýmislegt um að vera en júlí snýst þó fyrst og fremst um einn mann. Hann ber vígalegt skegg og brjálaða górillu á bringunni, þið kannist kannski við hann. Það voru hræðileg vonbrigði að missa af bardaga ársins á milli Conor McGregor og José Aldo en bardagi á móti Chad Mendes er engu að síður mjög áhugaverður. Það sem gerir hann enn meira spennandi er að ef McGregor vinnur er José Aldo bardaginn enn mögulegur og enn meira spennandi. Sem bónus er Gunnar nokkur Nelson að berjast þetta sama kvöld. Vindum okkur í þetta.

cathal

10. UFC 189, 11. júlí – Cathal Pendred gegn John Howard (veltivigt)

Byrjum á Íslandsvininum Cathal Pendred sem virðist nokkuð óvinsæll en hefur engu að síður sigrað alla fjóra bardaga sína í UFC. Pendred tók þennan bardaga gegn John ‘Doomsday’ Howard með stuttum fyrirvara og mjög stuttu eftir síðasta bardaga hans sem fram fór 13. júní. Howard er reyndur bardagamaður með 33 sigra á bakinu og hefur nú tapað þremur bardögum í röð. Það má þó alls ekki vanmeta hann.

Spá: Cathal Pendred sigrar á stigum í erfiðum bardaga og tekur sér gott sumarfrí.

Bermudez-Stephens

9. UFC 189, 11. júlí – Dennis Bermudez gegn Jeremy Stephens (fjaðurvigt)

Þessi ætti að verða skemmtilegur. Dennis Bermudez var farinn að nálgast titilinn með sjö sigra í röð áður en hann mætti Ricardo Lamas í nóvember síðastliðnum. Hann tapaði þeim bardaga í fyrstu lotu og þarf nú að sanna sig alveg upp á nýtt. Andstæðingurinn er hinn hættulegi Jeremy Stephens sem er með mikla reyslu og sleggjur í höndunum. Stephens hefur tapað síðustu tveimur bardögum sínum og þarf sárlega á sigri að halda.

Spá: Dennis Bermudez nær Jeremy Stephens niður í gólfið og klárar hann með höggum.

Matt-Brown-vs-Tim-Means-UFC-189-Promo-750

8. UFC 189, 11. júlí – Matt Brown gegn Tim Means (veltivigt)

Eitt orð, stríð. Þessir tveir eru hreinræktaðir harðjaxlar. Þeir munu standa fyrir framan hvorn annan og láta höggin flæða þar til eitthvað lætur undan. Matt Brown er búinn að tapa tveimur stórum bardögum í röð, reyndar gegn Robbie Lawler og Johny Hendricks. Tim Means er að koma úr hinni átti, búinn að sigra fjóra bardaga í röð gegn minni nöfnum. Annar mun færast upp, hinn niður.

Spá: Tim Means er góður en Matt Brown er aðeins betri. Hann sigrar á stigum í frábærum bardaga.

mir-duffy

7. UFC Fight Night 71, 15. júlí – Frank Mir gegn Todd Duffee (þungavigt)

Það væri varla góður MMA mánuður án þess að hafa einn áhugaverðan bardaga í þungavigt. Tími Frank Mir á toppnum er liðinn en hann er góður hliðvörður fyrir nagla eins og Todd Duffee sem vilja vinna sig upp. Miklar vonir hafa verið bundnar við Todd Duffee sem hingað til hefur ekki alveg náð að standa undir væntingum. Sigri hann Mir má fara að líta hann sem áskoranda í þungavigt.

Spá: Todd Duffee rotar Frank Mir í fyrstu lotu og fær mikilvægan bardaga í þungavigt.

Bisping-Leites-UFC-Fight

6. UFC Fight Night 72, 18. júlí – Michael Bisping gegn Thales Leites (millivigt)

Var einhver búinn að gleyma því að Michael Bisping er að berjast í júlí? Sigri hann Thales Leites verður það í fyrsta skipti í fjögur ár sem hann vinnur tvo bardaga í röð. Thales Leites virðist endurfæddur og er búinn að vera á rosalegri siglingu, nú búinn að sigra átta bardaga í röð!

Spá: Þetta gæti dottið báðum megin en við skulum segja að Thales Leites haldi áfram sigurgöngu sinni og sigri Bisping á stigum.

alvsgill

5. UFC Fight Night 71, 15. júlí – Gilbert Melendez gegn Al Iaquinta (léttvigt)

Þetta verður fjör. Eins og Cathal Pendred snýr Gilbert Melendez aftur aðeins mánuði eftir síðasta bardaga hans gegn Eddie Alvarez. Al Iaquinta átti að berjast við Bobby Green en fær hér frábært tækifæri til að vekja á sér athygli gegn fyrrverandi meistara. Árásagirni Melendez gegn höggþunga Iaquinta. Þessi getur ekki klikkað.

Spá: Það væri gaman að sjá Iaquinta sigra stærsta bardaga lífs síns en sennilega mun reynsla Melendez skila honum sigri á stigum.

tjbaroa

4. UFC on Fox 16, 25. júlí – T.J. Dillashaw gegn Renan Barão (bantamvigt)

Þessi bardagi átti að eiga sér stað í ágúst síðastliðnum Kvöldið fyrir bardagann var Renan Barão hins vegar fluttur á spítala þegar hann var að reyna að létta sig svo Joe Soto kom inn í hans stað. Þetta er mjög mikilvægur bardagi í bantamvigt. Renan Barão var álitinn einn besti bardagamaður í heimi pund fyrir pund áður en T.J. Dillashaw barði hann í buff. Sigurinn var svo einhliða og svo sjokkerandi að áhorfendur trúðu honum varla og þurfa að sjá hann aftur. Nú þarf Dillashaw því að sanna sig upp á nýtt og Barão þarf að sýna fram á að þetta kvöld þegar hann tapaði titlinum hafi einfaldlega verið slæmt kvöld. The truth will set you free!

Spá: T.J. Dillashaw virtist vera með svör við öllu sem Renan Barão hafði fram að færa. Búist við endurtekningu, TKO.

macdonald-and-lawlerr

3. UFC 189, 11. júlí –  Rory MacDonald gegn Robbie Lawler (veltivigt)

Það er með ólíkindum að þessi frábæri titilbardagi skuli vera nánast gleymdur í umræðunni um bardaga sem allir eru (eða voru) að bíða eftir í fjaðurvigt. Flestir virðast spá Rory MacDonald sigri í þessum bardaga en ekki má gleyma að það var Robbie Lawler sem sigraði fyrsta bardaga þeirra fyrir tveimur árum. Lawler er bardagamaður af gamla skólanum en er sífellt vanmetinn líkt og Fabricio Werdum. Rory MacDonald er sennilega tæknilega betri en Robbie Lawler er með bardagahjarta Klingon stríðsmanns og mun ekki sleppa taki af titlinum auðveldlega.

Spá: Robbie Lawler kemur öllum á óvart og sigrar aftur á stigum.

thatchnelson

2. UFC 189, 11. júlí – Brandon Thatch gegn Gunnari Nelson (veltivigt)

Oftast myndi Gunnar Nelson verma efsta sætið en það er svo mikið í húfi í bardaga Conor McGregor að hann yfirgnæfir allt. Gunnar snýr hér aftur í búrið eftir níu mánaða fjarveru. Andstæðingurinn að þessu sinni átti að vera John Hathaway en eins og venjan er fyrir bardaga Gunnars þá meiddist Hathaway og í stað hans er mættur risavaxinn Bandaríkjamaður sem hleður dínamíti í höggin. Brandon Thatch er hættulegur andstæðingur fyrir alla í veltivigt. Hann er árásagjarn, með frábær hnéspörk og leggur allt í að klára andstæðing sinn sem fyrst. Báðir menn töpuðu sínum síðasta bardaga og verða hungraðir í sigur. Tap Brandon Thatch gegn Ben Henderson gaf vísbendingu um hvernig Gunnar gæti sigrað. Lykilatriði er að ná fellu. Takist Gunnari það er sigurinn hans.

Spá: Gunnar kemur sterkur til baka, nær Thatch niður í annarri lotu og klárar með „rear-naked coke“.

mendes mcgregor

1. UFC 189, 11. júlí –  Chad Mendes gegn Conor McGregor (fjaðurvigt)

Gleymum José Aldo í bili. Bardagi Conor McGregor og Chad Mendes er hrikalega spennandi. Loksins fáum við að sjá Írann á móti sterkum glímumanni. Ef Mendes nær ekki að taka hann niður og halda honum þar gæti hann verið í vondum málum. McGregor er með langan faðm og kann að nota hann. Nái hann að standast þetta erfiða próf eru honum allir vegir færir og baraginn við Aldo verður settur á dagskrá í árslok.

Spá: Conor McGregor sannar sig gegn sterkum glímumanni. Verst fellum, útboxar Mendes, leggur punginn á ennið og rotar hann í þriðju lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular