Monday, May 27, 2024
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2014

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2014

Júní var ágætur mánuður fyrir MMA en það var lítið um stóra bardaga. Júlí er hins vegar drekkhlaðinn, svo hlaðinn að Conor McGregor komst ekki hærra en í fjórða sæti á listanum. Fyrir utan UFC er lítið um að vera, það er eitt WSOF kvöld og eitt Bellator kvöld. Svo er einhver náungi sem heitir Gunnar Nelson að berjast.

newell-vs-gaethje

10. WSOF 11, 5. júlí – Justin Gaethje gegn Nick Newell (léttvigt)

Hinn einhenti Nick Newell hefur vakið talsvert umtal um fatlaða í MMA. Nú er komið að því að hann fær tækifæri til að berjast um titil í World Series of Fighting. Newell er enn ósigraður og hefur klárað alla nema einn í fyrstu lotu í 11 bardögum. Meistarinn Justin Gaethje er líka ósigraður í 11 bardögum og hefur sigrað meðal annars Drew Fickett og Dan Lauzon.

Spá: Án þess að hafa séð Gaethje berjast er erfitt að spá á móti Newell. Það væri frábær saga ef hann tæki titilinn. Newell sigrar með uppgjafartak í annarri lotu.

thomson johnson

9. UFC on Fox 12, 26. júlí – Josh Thomson gegn Michael Johnson (léttvigt)

Eftir grátlegt tap Josh Thomson gegn Ben Henderson í janar var hann næstum endanlega hættur. Thomson hefur sýnt það og sannað að hann er einn af þeim bestu í léttvigt en hér fær hann tækifæri til að sanna það enn einu sinni á móti Michael Johnson. Johnson hefur nú sigrað þrjá í röð og getur komið sér hátt upp styrkleikalistann sigri hann Thomson.

Spá: Johnson er alltaf að verða betri en Thomson er of stór biti fyrir hann. Thomson sigrar á stigum.

MMA: UFC 172- Davis vs Johnson

8. UFC on Fox 12, 26. júlí – Anthony Johnson gegn Antonio Rogerio Nogueira (léttþungavigt)

Anthony Johnson heldur áfram innrás sinni í léttþungavigt. Eftir að hafa sigrað Phil Davis sannfærandi fær hann næsta verkefni, Lil´ Nog. Nogueira er afburða boxari, hugsanlega sá besti í léttþungavigt, en meiðsli hafa haldið Nogueira frá búrinu síðan í febrúar 2013. Nogueira er líka mjög góður á gólfinu en það verður að teljast ólíklegt að hann nái Johnson niður þar sem Davis tókst það ekki.

Spá: Nogueira hefur ekki barist í 17 mánuði. Hann mun valda Johnson vandræðum með hreyfanleika og hröðum fléttum en Johnson er of stór og sterkur fyrir hann. Johnson klárar Nogueira á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

edgar_and_bj_penn

7. TUF 19 Finale, 6. júlí – Frankie Edgar gegn B.J. Penn (fjaðurvigt)

Þessi þriðji bardagi á milli Edgar og Penn er áhugaverður. Fyrsti bardagi þeirra var talsvert umdeildur en Edgar sigraði á stigum. Mörgum fannst Penn hafa átt að vinna og til að taka af allan vafa börðust þeir aftur fjórum mánuðum síðar. Edgar sigraði aftur í seinna skiptið en sannfærandi í þetta skipti. Það má því líta á þennan þriðja bardaga sem úrslita bardagann. Það sem er breytt er að bardaginn fer fram einum þyngdarflokki neðar, það er enginn titill og Penn hefur ekki barist í eitt og hálft ár. Að vísu hefur Edgar ekki barist í eitt ár svo báðir gætu verið ryðgaðir.

Spá: Penn mun ganga vel í fyrstu lotu en Edgar tekur næstu fjórar á betra úthaldi, vinnusemi og fellum. Edgar sigrar á stigum.

jim-miller-and-cowboy

6. UFC Fight Night 45, 16. júlí – Donald Cerrone gegn Jim Miller (léttvigt)

Það er hálf skrítið að þessir tveir hafi aldrei mæst áður. Árum saman hafa Cerrone og Miller verið tveir af skemmtilegustu bardagamönnum í léttvigt. Það má alltaf búast við stríði þegar þeir berjast en þeir eiga það sameiginlegt að vera mjög góðir á gólfinu. Cerrone er betri standandi og sennilega er Miller betri í jiu-jitsu. Fimm lotu bardagi á milli þessara snillinga getur ekki klikkað.

Spá: Cerrone mun ná að halda bardaganum standandi, útboxa og -sparka Miller. Í fjórðu lotu nær Miller hins vegar fellu upp við búrið, stekkur á fót og klárar Cerrone með „uppgjafartaki.

rousey-davis

5. UFC 175, 5. júlí – Ronda Rousey gegn Alexis Davis (bantamvigt)

Þessi bardagi er áhugaverður fyrst og fremst af því að það er alltaf gaman að sjá Rousey berjast. Davis býr yfir mikilli reynslu og hæfileikum en það er erfitt að sjá hana sigra Rousey.

Spá: Rousey klárar Davis í fyrstu lotu.

diego conor

4. UFC Fight Night 46, 19. júlí – Diego Brandao gegn Conor McGregor (fjaðurvigt)

Írski gleðigjafinn Conor McGregor snýr loksins aftur á fyrsta bardagakvöldi UFC í Írlandi síðan 2008. Það var leiðinlegt að Cole Miller skildi meiðast en Diego Brandao er jafnvel enn betri andstæðingur. Brandao er bardagahundur sem sigraði 14. seríu The Ultimate Fighter. Hann er rotari með svart belti í jiu-jitsu og hefur sigrað þrjá af fimm bardögum sínum í UFC. Brandao leit þó ekki vel út í hans síðasta bardaga á móti Dustin Poirier og er nýlega búinn að skipta um félag. Brandao er betri en McGregor á gólfinu en hinn írski ætti að vera betri standandi og er tæknilegri þar.

Spá: Brandao verður árásagjarn en McGregor mun nýta sér það með hnitmiðuðum gagnhöggum. Brandao mun koma íranum í gólfið en McGregor mun ná að koma sér upp og rota Brandao í lok fyrstu lotu.

lawler brown

3. UFC on Fox 12, 26. júlí – Robbie Lawler gegn Matt Brown (veltivigt)

Það er erfitt að ímynda sér betri bardaga á pappír. Þessir tveir eru hreinræktaðir bardagamenn sem nota mikla pressu, þung högg og risastórt hjarta til að sigra. Útkoman ætti að verða fullkominn stormur eins og Wile E. coyote Looney Tunes teiknimynd.

Spá: Sigurgöngu Brown lýkur hér. Lawler mun taka bestu höggin hans og svara með sínum. Eftir fjórar blóðugar lotur verður það Lawler sem fellir Brown og klárar hann á gólfinu með höggum.

Chris-Weidman-vs-Lyoto-Machida

2. UFC 175, 5. júlí – Chris Weidman gegn Lyoto Machida (millivigt)

Lyoto Machida hefur litið hrikalega vel út síðan hann létti sig niður í millivigt. Hann afgreiddi vin sinn Mark Munoz í fyrstu lotu og sigraði í kjölfarið Gegard Mousasi með miklum yfirburðum á stigum. Weidman er á móti í skrítinni stöðu. Hann er búinn að sigra Anderson Silva tvisvar en margir eru ekki sannfærðir um að hann sé verðskuldaður meistari. Weidman hefur aðeins barist 11 sinnum og fyrir utan Silva eru ekki mörg risastór nöfn á ferilskránni hans. Þessi bardagi á móti Machida mun því segja okkur mikið um Weidman. Við vitum hvað Machida vill gera. Spurningin er mun Weidman ná að króa hann af, fella og beita glímunni? Spurningin er líka, þó svo að Weidman komi bardaganum í gólfið, getur hann haldið honum þar og er hann í raun betri en Machida á gólfinu. Machida er með svart belti í jiu-jitsu en Weidman brúnt.

Spá: Á pappír ætti Machida að vinna. Hann ætti að vera betri standandi og betri í jiu-jitsu. Styrkur Weidmans er hins vegar ólympíska glíman. Við spáum því að Weidman nái Machida í gólfið og komi öllum á óvart með uppgjafartaki í þriðju lotu.

cummings nelson

1. UFC Fight Night 46, 19. júlí – Zak Cummings gegn Gunnar Nelson (veltivigt)

Hinn nýbakaði faðir Gunnar Nelson snýr aftur í búrið rúmum fjórum mánuðum eftir að hafa afgreitt Omari Akhmedov í London. Andstæðingur hans að þessu sinni er alhliðagóður bardagamaður með mikla reynslu. Cummings er með brúnt belti í jiu-jitsu og barðist áður í millivigt. Af 17 sigrum hans eru 9 með uppgjafartaki en hann sækir í gólfglímuna sem er gott fyrir okkar mann. Gunnar ætti að vera betri bæði standandi og á gólfinu en Cummings er seigur og hann á alls ekki að vanmeta.

Spá: Líkt og síðast mun Gunnar standa með Cummings þar til tækifæri gefst til að koma bardaganum í gólfið. Cummings mun verjast vel en Gunnar kemst ofan á hann í annarri lotu og klárar með „armbar“.

RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular